Levosertone

Getnaðarvörn | Verðflokkur: 0 | Lyfseðilsskylt

Virkt innihaldsefni: Levónorgestrel

Markaðsleyfishafi: Gedeon Richter Plc. | Skráð: 26. maí, 2021

Levosertone er getnaðarvarnarlyf og er einnig notað við miklum tíðablæðingum. Lyfið inniheldur eitt virkt efni (hormón), levónorgestrel. Levónorgestrel er samtengt hormón sem hefur sömu áhrif í líkamanum og kvenhormónið prógesterón. Levónorgestrel veldur breytingum á slímhúð legsins með þeim afleiðingum að frjóvguð eggfruma nær síður að hreiðra þar um sig. Leghálsslímið þykknar og sáðfrumur eiga erfitt með að komast upp leghálsinn. Levosertone hindrar einnig egglos hjá sumum konum.


Notkun á lyfi

Lyfjaform:
Leginnlegg til innsetningar í leg.

Venjulegar skammtastærðir:
1 leginnlegg á 6 ára fresti, gefur frá sér 20 míkrógrömm á sólarhring. Einungis læknir eða sérþjálfaður hjúkrunarfræðingur getur sett leginnleggið á sinn stað.

Hversu langur tími líður uns verkun kemur fram:
Þú ert varin gegn þungun um leið og búið er að setja leginnleggið upp. Minnkun á tíðablæðingum kemur yfirleitt fram eftir 3-6 mánuði.

Verkunartími:
Um 6 ár.

Þörf á að breyta mataræði meðan lyfið er tekið:
Engin.

Geymsla:
Geymist í lokuðum umbúðum við stofuhita þar sem börn hvorki ná til né sjá.

Ef skammtur gleymist:
Engin hætta er á því að skammtur gleymist vegna staðsetningar lyfsins.

Hvernig á að hætta töku lyfsins:
Hætta má notkun getnaðarvarnarlyfs hvenær sem hentar, læknir fjarlægir þá lyfið.

Ef tekinn er of stór skammtur:
Hverfandi hætta er á ofskömmtun. Ef vart verður við óvenjuleg einkenni skal hafa samband við lækni.

Langtímanotkun:
Án vandkvæða en æskilegt er að láta kanna staðsetningu leginnleggsins 6 vikum eftir að það er sett upp, síðan eftir 12 mánuði og eftir það árlega þar til það er fjarlægt.


Aukaverkanir

Aukaverkanir eru algengari fyrstu mánuðina eftir uppsetningu, en hjaðna við langtíma notkun. Reykingar auka hættu á slagi, hjartaáfalli og blóðtappa og því er mælt með því að hætta að reykja þegar maður er á lyfinu.

Aukaverkun Tíðni Leitið til læknis vegna einkenna Leitaðu strax til læknis Hættu strax töku lyfs
Algeng >1% Sjaldgæf <1% Ekki þekkt Sem eru alvarleg Í öllum tilvikum    
Breytingar á blæðingum          
Eymsli í brjóstum          
Ógleði, höfuðverkur          
Skapbreytingar          
Útferð          
Verkir í kviðarholi og baki          
Þyngdarbreytingar, bjúgur          
Slæmur verkur með eða án hita        

Milliverkanir

Jóhannesarjurt og ginseng geta haft áhrif á virkni lyfsins.

Sjá öll lyf sem geta haft áhrif á

Má ekki nota með

Getur haft áhrif á


Varúð

Læknir sem ávísar lyfinu þarf að vita hvort
  • grunur leiki á um þungun
  • þú sért með flogaveiki
  • þú sért með háan blóðþrýsting, hjarta- eða æðasjúkdóm
  • þú sért með langvarandi lifrar- eða nýrnasjúkdóm
  • þú sért með mígreni
  • þú sért með ofnæmi fyrir virka efninu eða einhverju hjálparefnanna
  • þú sért með sykursýki
  • þú takir einhver önnur lyf
  • þú hafir fengið brjóstakrabbamein eða æxli í kynfæri.
  • þú sért með sýkingu
  • þú sért með blæðingar frá fæðingarvegi af óþekktum ástæðum

Meðganga:
Takmörkuð reynsla er af notkun lyfsins hjá þunguðum konum. Ef þú vilt verða þunguð eða kemst að því að þú ert þunguð þarf að biðja lækni tafarlaust um að fjarlægja lyfið.

Brjóstagjöf:
Lyfið berst í brjóstamjólk en í venjulegum skömmtum er ólíklegt að það hafi áhrif á barnið.

Börn:
Lyfið er ekki ætlað börnum.

Eldra fólk:
Lyfið er venjulega ekki notað.

Akstur:
Lyfið hefur ekki áhrif á aksturshæfni.

Áfengi:
Í litlum skömmtum hefur áfengi ekki áhrif á verkun lyfsins.

Íþróttir:
Leyft við æfingar og í keppni.

Annað:
Blæðingar gætu aukist á fyrstu 2-3 mánuðunum, áður en þær fara að minnka aftur. Almennt er líklegt að blæðingadögum í hverjum mánuði fækki og með tímanum gætu blæðingar alveg hætt.


Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar um lyfið er að finna í SPC texta og í fylgiseðli lyfsins, sem má finna á heimasíðu Sérlyfjaskrá. Ef upplýsingar hér stangast á við þær upplýsingar ber að fara eftir SPC texta lyfsins og/eða fylgiseðli.