G Þvagfæralyf, kvensjúkdómalyf og kynhormónar

Þessum flokki tilheyra m.a. lyf við sýkingum í kynfærum kvenna, kynhormónar karla og kvenna, getnaðarvarnarlyf, lyf við tíðahvörfum hjá konum og lyf sem notuð eru við ófrjósemi og í fæðingarhjálp.

G Þvagfæralyf, kvensjúkdómalyf og kynhormónar

Þessum flokki tilheyra m.a. lyf við sýkingum í kynfærum kvenna, kynhormónar karla og kvenna, getnaðarvarnarlyf, lyf við tíðahvörfum hjá konum og lyf sem notuð eru við ófrjósemi og í fæðingarhjálp.

Lýsing – hvers konar lyf tilheyra þessum flokki
Þessum flokki tilheyra lyf við sýkingum í kynfærum kvenna, kynhormónar karla og kvenna, getnaðarvarnarlyf, lyf við tíðahvörfum hjá konum og lyf sem notuð eru við ófrjósemi og í fæðingarhjálp. Auk þess eru í þessum flokki nokkur lyf við þvagfærakvillum, lyf við góðkynja stækkun í blöðruhálskirtli og einnig lyf við stinningarvanda getnaðarlims.

Saga
Getnaðarvarnarlyf skipa stærstan hluta þessa lyfjaflokks. Þau hafa verið að þróast síðastliðin 40-50 ár og hafa breyst mikið á þessum tíma. Fyrstu getnaðarvarnarlyfin innihéldu stóra skammta af hormónum og það hafði í för með sér töluverðar aukaverkanir. Með árunum hefur hormónamagnið minnkað og núna eru á markaðinum svokölluð lágskammta getnaðarvarnarlyf. Þau hafa að geyma lítið af hormónum en þó nægilega mikið til þess að lyfin veiti fulla getnaðarvörn. Hormónalyf, sem eru notuð við tíðahvörfum hjá konum, hafa líka breyst mikið frá upphafi og sífellt er verið að þróa ný og betri lyfjaform sem koma til með að henta nútímakonum betur en hin eldri gerðu. Áður fyrr gengu konur í gegnum breytingaskeiðið án nokkurra hormónalyfja, í dag þykja kostir slíkrar meðferðar hafa sannað ágæti sitt.

Meðal nýrri lyfja í flokkinum eru lyf við stinningarvanda getnaðarlims. Lyfin hafa verið þróuð á síðustu áratugum.

Sjá einnig undirflokka.

Verkunarmáti
Flest lyfin hérna hafa margvísleg áhrif á starfsemi kynhormóna karla og kvenna. Ástæður fyrir meðferð eru margar, lyfin eru notuð til getnaðarvarna, við einkennum tíðahvarfa eða vegna ófrjósemi, svo að dæmi séu nefnd. Lyfin geta bæði örvað og hindrað áhrif kynhormóna, allt eftir því sem á við hverju sinni. Önnur lyf vinna á bakteríu- eða sveppasýkingum í kynfærum kvenna, hafa sæðisdrepandi verkun, eða verkun á leg og mjólkurkirtla kvenna. Flest þeirra hafa kerfisbundin áhrif, þau eru tekin inn eða í gegnum húð, og þó nokkur hafa staðbundna verkun, en þá verka þau beint á þann stað sem þeim er ætlað, eins og t.d. í leghálsi.

Sjá einnig undirflokka.

Algengar aukaverkanir
Lyf í flokkinum sem eru notuð staðbundið í leggöng og geta mörg hver valdið ertingu á notkunarstað. Þar mætti nefna lyf við sveppa- eða bakteríusýkingu eða sæðisdrepandi lyf. Algengustu aukaverkanir kynhormóna, þ.m.t. getnaðarvarnarlyfja og hormónalyfja sem notuð eru við tíðahvörfum, eru höfuðverkur, ógleði, spenna í brjóstum, breytingar á líkamsþyngd, smáblæðingar frá legi og mögulega breytingar á kynhvöt. Munnþurrkur er algeng aukaverkun lyfja með krampalosandi áhrif á þvagfæri. Svimi er sömuleiðis algeng aukaverkun sumra lyfja sem eru notuð við stækkun í blöðruhálskirtli, á meðan önnur lyf við sama kvilla geta dregið úr kynhvöt.

Sjá einnig undirflokka.

Almennar leiðbeiningar um notkun
Lyfin í þessum flokki, svo og öll önnur lyf, verður að nota samkvæmt leiðbeiningum læknis eða meðfylgjandi leiðarvísi lausasölulyfja. Þá er það þýðingarmikið þeim sem nota lyfin að staðaldri, eins og getnaðarvarnartöflur eða önnur hormónalyf, að vera undir nákvæmu og reglulegu eftirliti hjá lækni. Getnaðarvarnartöflur þarf að taka rétt inn og hafa ber í huga að sumar þeirra verður að taka alltaf á sama tíma sólarhringsins. Lyf við tíðahvörfum þarf líka að nota rétt og fylgja vel leiðbeiningum læknis um notkun þeirra. Forðaplástra á að setja á hreina, þurra húð og muna eftir því að bíða litla stund að baði loknu og leyfa húðinni að kólna áður en þeir eru settir á. Sé það ekki gert er meiri hætta á því að þeir losni af. Þá verður að passa vel upp á það að skila notuðum plástrum í apótek til förgunar og þangað til að plásturinn fer í förgun, að tryggja það að börn finni þá ekki vegna þess að leifar af hormónum gætu orðið eftir í plástrinum. Líka ætti að hafa í huga að lyf við sveppasýkingu í kynfærum kvenna þarf að bera oft á og í nokkra daga eftir að einkenni um sýkingu eru horfin til þess að fyrirbyggja endursýkingu og minnka líkur á myndun sýklalyfjaónæmis. Stungulyf við stinningarvanda hjá karlmönnum eru vandmeðfarin, rétt notkun þeirra er mikilvæg og krefst þjálfunar.

Hvað ber að varast
Sumir skeiðarstílar og krem við sveppasýkingum geta eyðilagt hettur og verjur sem innihalda latex og því skal ekki nota hvort tveggja samtímis. Einnig á að hætta meðferð ef ofnæmi eða erting kemur fram sem rekja má til þessara lyfja. Varast skal að lyf berist í augu og gæta þess að þvo hendur vel eftir notkun þeirra. Áfengi milliverkar við eitt lyfjanna sem er notað við sýkingu í kynfærum kvenna, áfengis má því ekki neyta á meðan lyfið er notað, og ekki fyrr en tveimur sólarhringum eftir að meðferð lýkur. Í ljósi þessa sést að það er ávallt mikilvægt að lesa af gaumgæfni leiðbeiningar sem fylgja sérhverju lyfi. Gæta þarf varúðar þegar í hlut eiga einstaklingar með hjarta-, lifrar- eða nýrnasjúkdóma þegar þeir eru meðhöndlaðir með sumum lyfjum úr þessum flokki.

Sjá einnig undirflokka.

Undirflokkar
Allur framansagður texti á við öll lyf í þessum flokki. Allt sem á sérstaklega við einstaka undirflokka kemur hér:

G01 Sýkingalyf og sótthreinsandi lyf við kvensjúkdómum

Þessum undirflokki tilheyra lyf við bakteríu- eða sveppasýkingum í kynfærum kvenna. Hér er um að ræða skeiðarstíla, krem í leggöng og krem sem eru að auki borin á skapabarma og getnaðarlim.

Í eðlilegri flóru líkamans eru margar tegundir örvera og sveppa sem lifa í jafnvægi við líkamann. Við ákveðin skilyrði getur þetta jafnvægi raskast, sumar tegundir náð sér meira á strik en aðrar og valdið óþægindum eins og illa lyktandi útferð, kláða og sviða í leggöngum kvenna svo að dæmi séu nefnd. Ef um ákafan kláða er að ræða og honum fylgir lyktarlaus, kekkjótt og ljós útferð er að öllum líkindum um sveppasýkingu að ræða. Nokkur lyfin hérna við sveppasýkingum er hægt að kaupa án lyfseðils í apótekum. Slíkt hentar konum sem hafa áður gengið í gegnum meðferð við sveppasýkingu hjá lækni og þekkja einkennin. Hins vegar er konum ráðlagt að leita til læknis fái þær sveppasýkingu oftar en tvisvar á hálfu ári.

G02 Önnur kvensjúkdómalyf

Undir þennan flokk falla lyf sem eru notuð til að aðstoða við fæðingar eða fóstureyðingar hjá konum. Sum þeirra flýta fyrir því að fylgja losnar og samdráttur í legi eykst eftir fæðingu, önnur mýkja og auðvelda útvíkkun á leghálsi.

Hér má líka finna lyf sem draga úr magni mjólkurhormóns í blóði og eru m.a. notuð í því skyni að draga úr mjólkurmyndun. Auk þess eru hérna sæðisdrepandi lyf í formi hlaups og froðu.

G03 Kynhormón og lyf, sem hafa mótandi áhrif á kynfæri

Í þessum undirflokki eru mörg lyf. Þar má fyrst telja getnaðarvarnarlyf fyrir konur og hormónalyf sem eru notuð við tíðahvörfum hjá konum. Getnaðarvarnarlyf eru flest í töfluformi, en þau fástlíka sem stungulyf og hormónalykkja í leg. Hormónar við tíðahvörfum eru í ýmsu formi, töflur, forðaplástrar, hlaup, skeiðarstílar og krem og eitt lyfjanna er meira að segja í formi svokallaðs skeiðarhrings.

Sögu getnaðarvarnartaflna má rekja til upphafs 20. aldar, en þá fór tíðahringur konunnar að skýrast betur. Fyrstu hormónalyfin komu síðan á markað upp úr 1960. Þeim fylgdu töluverðar aukaverkanir því að þau höfðu að geyma stóra skammta af hormónum. Í kjölfar þeirra voru þróaðar svokallaðar fjölfasa getnaðarvarnartöflur, sem innihéldu bæði estrógen og prógestín, og reynt var að hafa sem minnst af hormónum í þeim til að komast hjá aukaverkunum. Núna eru framleidd lágskammta getnaðarvarnarlyf með lítið af hormónum, en þó nægilega mikið til þess að lyfin veiti fulla getnaðarvörn. Getnaðarvarnarlyf þolast almennt mjög vel. Helstu aukaverkanir koma fram í höfuðverk, ógleði, þyngdaraukningu og mögulegri breytingu á kynhvöt. Getnaðarvarnartöflur eru með allra algengustu lyfjum sem afhent eru gegn lyfseðli.

Tíðahvörfum fylgja ýmis óþægindi. Þar mætti nefna svita- og hitakóf og skapgerðarbreytingar. Hormónameðferð dregur úr þessum einkennum hjá flestum konum. Að auki dregur meðferðin úr hættunni á beinþynningu og minnkar líkur á hjarta- og æðasjúkdómum. Svokallaðir hormónaplástrar, eða forðalyfjaplástrar, er algengt form þeirra lyfja sem eru notuð við tíðahvörfum. Með þeim berast hormónin í litlum skömmtum úr plástrinum, gegnum húðina og beint í blóðrásina. Lyfið fer ekki í gegnum meltingarveginn og þ.a.l. er hægt að komast hjá því að ýmis líffæri hafi áhrif á lyfið, eins og t.d. lifrin, en mörg lyf brotna niður í lifrinni. Þessi aðferð við að gefa hormón eykur enn frekar möguleikana á því að gefa mun minni skammta af lyfinu en ella. Notkun forðalyfjaplástra má rekja nokkur hundruð ár aftur í tímann til Kína. Þá voru, og eru ennþá til, plástrar sem höfðu að geyma virk efni úr jurtum og ætlað var að verka staðbundið í húð.

Flokkinum tilheyra líka karlhormón, í formi taflna, hlaups, stungulyfja og forðaplástra. Að auki lyf við ófrjósemi karla og kvenna og lyf við tækni- og glasafrjóvganir, en sum hinna síðarnefndu örva starfsemi eggjastokka og heiladinguls.

Einnig eru hérna lyf sem draga úr áhrifum karlhormóna, bæði hjá konum og körlum. Notkun þeirra þjónar ýmsum tilgangi, t.d. í krabbameinsmeðferð ef æxli eru hormónaháð. Líka hjá konum sem eru með of mikið af karlhormónum, en það kemur m.a. fram í bólum á húð, auknum hárvexti í andliti og á líkama.

Að lokum teljast hérna líka lyf við blæðingatruflunum og lyf sem sporna við beinþynningu.

G04 Þvagfæralyf

Þessum flokki tilheyra lyf sem notuð eru við ýmsum þvagfærakvillum. Þar má nefna sem dæmi lyf við góðkynja stækkun í blöðruhálskirtli og lyf með krampalosandi verkun á þvagfæri og eru notuð við bráðum eða tíðum þvaglátum/þvagleka. Lyfin eiga það sammerkt að þau verka á móti taugaboðefni sem veldur samdrætti í vöðvum þvagblöðrunnar. Á þennan hátt næst verkun gegn tíðum þvaglátum og þvagleka. Taugaboðefnið, sem um ræðir og veldur samdrætti í vöðvum þvagblöðrunnar, hefur auk þess víðar áhrif í líkamanum. Það er ástæðan fyrir því að lyfjum, sem vinna á móti því, fylgja margar aukaverkanir.

Lyf við góðkynja vexti blöðruhálskirtils draga úr stækkuninni, bæta þvagflæði og sporna með því móti úr hættunni á bráðri þvagteppu. Lyf við algengum þvagfærasýkingum er hins vegar að finna í flokki J01.

Hérna er líka að finna lyf við stinningarvanda getnaðarlims. Annars vegar er um að ræða stungulyf, en þá er lyfinu sprautað beint í getnaðarliminn þar sem það víkkar æðar og eykur blóðflæði. Lyf þetta er vandmeðfarið og rétt notkun þess krefst þjálfunar. Hins vegar er um að ræða lyf til inntöku, það minnkar niðurbrot á æðavíkkandi efni í getnaðarlimnum og stuðlar þannig að auknu blóðflæði í limnum. Til þess að þetta lyf verki þarf kynferðisleg örvun að koma til.


Nýjungar

Þróun nýrra lyfja og lyfjaforma í þessum flokki er hröð. Aukin þekking og breyttar lífsvenjur kalla á nýjungar sem vísindamenn leitast við að uppfylla jafnóðum. Nútímakonur og -karlar eru vel upplýst og þau vilja einfaldar og hættulausar meðferðir, hvort sem um er að ræða getnaðarvörn, lyf við tíðahvörfum eða stinningarvanda, svo dæmi séu tekin. Framfarir í tækni- og glasafrjóvgun hafa verið gífurlega miklar á undanförnum árum, og þar eiga ný lyf einnig stóran þátt. Hvað framtíðin ber í skauti sér varðandi lyf í þessum flokki er ómögulegt að spá um. Eitt er öruggt, að þeim verður fylgt vel eftir og það verður spennandi að fylgjast með framþróun mála.