Tannverkur
Tannverkur stafar venjulega af bólgu í tannkviku eða í beinvefnum við rótarenda tannar. Tannverkur getur líka stafað af bólgu í tannholdi eða í tannslíðri (tannslíðurbólga). Þessi sjúkdómur stafar líka af gerlum.
Tannverkur stafar venjulega af bólgu í tannkviku eða í beinvefnum við rótarenda tannar. Bólgan orsakast oft af holu í tönn (tannáta) sem ekki hefur fengið viðeigandi meðferð. Bólgan getur breiðst út frá kvikunni til tannbeinsins og valdið ígerð. Hola í tönnum myndast við það að gerlar (bakteríur) á tönnunum sundra fæðuleifum, einkum sætmeti, og við niðurbrotið myndast sýra sem étur upp tannglerunginn. Tannverkur getur líka stafað af bólgu í tannholdi eða í tannslíðri (tannslíðurbólga). Þessi sjúkdómur stafar líka af gerlum.
SPURNINGAR OG SVÖR
Hvenær á ég að leita til læknis?
Leitaðu alltaf ráða hjá tannlækni ef þú færð tannpínu. Þótt verkir minnki um hríð verður að komast fyrir orsakir tannpínunnar. Að öðrum kosti verður skaðinn sífellt meiri og í versta falli verður að taka tönnina.
Hvað get ég gert?
Gættu þess að láta athuga tennur þínar reglulega, þannig dregur þú úr líkum þess að tennur skemmist. Komdu í veg fyrir tannskemmdir og tannslíðurbólgu með því að hirða tennurnar vel. Gott er að hafa eftirfarandi fjórar meginreglur í huga:
- Burstaðu tennurnar reglulega kvölds og morgna með mjúkum tannbursta. Gleymdu ekki að hreinsa milli tannanna. Spyrðu tannlækninn eða starfsfólk í Lyfju og í Apótekinu um heppileg hjálpartæki sem tryggja góða tannhirðu.
- Notaðu flúortannkrem sem styrkir glerung tannanna.
- Borðaðu ekki milli mála. Í hvert sinn sem þú lætur eitthvað upp í þig myndast sýra í munninum sem hefur ætandi áhrif í hálftíma á eftir.
- Stilltu sykurneyslu í hóf eins og hægt er, því að sykur veldur meiri sýrumyndun í munni en nokkuð annað sem þú borðar.
Þú getur þurft að taka flúor aukalega, annaðhvort sem sogtöflur eða flúorlausn, ef:
- þú ert með margar viðgerðar tennur með ójöfnu yfirborði.
- þú ert með tannréttingartæki sem gerir þér erfitt um vik að hirða tennurnar vel.
- tennur þínar eru með beran tannháls.
- þú ert þurr í munni.
Get ég fengið lyf án lyfseðils?
Þú getur keypt lyf án lyfseðils við skyndilegum tannverk. Þessi lyf hafa öll áþekka verkun. Taktu ekki meira en tvær töflur í einu og ekki oftar en segir á lyfjaumbúðunum. Þótt þú takir stærri skammt en gefinn er upp linar það ekki sársaukann meira en hámarksskammturinn. Ef margar verkjatöflur eru teknar á sólarhring geta ýmiss konar alvarlegar aukaverkanir komið fram. Lyf sem innihalda íbúprófen eru sennilega besti kosturinn, þ.e. Íbúfen, Ibuxin, Íbúprófen Portfarma eða Alvofen Express. Aðrir kostir er naproxen, s.s. Naproxen Mylan, Alpoxen eða Naproxen-E Mylan eða díklófenak sem er í lyfinu Voltaren Dolo. Ef ekkert mælir gegn því getur þú tekið verkjatöflur sem innihalda asetýlsalisýlsýru, s.s. Aspirin Actavis eða ASA-ratiopharm töflur eða Treo freyðitöflur.
Ef blóðstorknun er að einhverju leyti áfátt hjá þér skaltu forðast að taka lyf sem innihalda asetýlsalisýlsýru skömmu fyrir tanndrátt. Ef þú ert með magasár eða hefur verið með það, ert með astma eða ert viðkvæm(ur) fyrir asetýlsalisýlsýru gætir þú reynt að taka parasetamól, t.d. Panodil eða Paratabs töflur. Notaðu ekki mismunandi tegundir verkjalyfja án þess að hafa ráðgast um það við lækni.
Mynd eftir Caroline LM frá Unsplash