Blöðrur og sár í munni
Blöðrur og sár inni í munninum, t.d. munnangur, geta stafað af veirum, bakteríum eða sveppum, en stundum fær fólk sár á slímhúð munns aftur og aftur án þess að orsök liggi fyrir
Sár og blöðrur sem myndast í munni eru yfirleitt hættulaus og gróa á nokkrum vikum. Stundum myndast sár vegna áverka eða ertingar, til dæmis undan hvassri brún á tönn, undan gervitönnum sem passa illa, við tannburstun eða ef maður af slysni bítur sig t.d. í tungu. Ung börn eru stundum svo illa haldin af sársauka vegna sára og blaðra í munni að þau veigra sér við að borða og drekka. Ef þau eru jafnframt með hita eykst hætta á því að þau fái ekki nægan vökva. Munnangur er fremur algengur kvilli sem varir skamman tíma en getur valdið miklum óþægindum.
SPURNINGAR OG SVÖR
Hvenær á ég að leita til læknis?
- Ef óþægindin vara lengur en 2 vikur.
- Ef sár eru alltaf að koma aftur og aftur.
- Ef þú getur ekki komið við eðlilegri tannhirðu nokkra daga í röð sökum óþæginda.
- Ef um ungt barn er að ræða og þú óttast að það fái ekki nægan vökva.
- Ef þú hefur farið eftir þeim ráðum sem hér eru gefin og þau koma ekki að gagni.
Hvað get ég gert?
Góð tannhirða er mikilvæg. Ef þú getur ekki burstað tennurnar vegna tilfallandi óþæginda skaltu nota munnskol tvisvar á dag, t.d. frá GUM eða Listerine eða munnskol frá Oral-B, Reach eða Zendium. Aftamed gel, úði eða munnskol er til staðbundinnar notkunar í munnholi við munnangri, særindum frá gervitönnum og við óþægindum við tanntöku. Það inniheldur hýalúronsýru sem m.a. flýtir fyrir frumuskiptingu, temprar bólgur og bætir rakastig húðar og slímhúðar. Aftamed inniheldur einnig skaðlaust prótein sem húðar sár og bindur hýalúronsýruna við yfirborð þess. Þannig flýtir Aftamed fyrir bata, slær hratt á verki og sviða og hefur fyrirbyggjandi verkun gegn endurteknum sárum í munni.
Corsodyl lausn inniheldur klórhexidín sem er sýkladrepandi efni og er einnig virkt gegn ýmsum sveppum. Corsodyl er m.a. notað gegn munnangri og til munnhreinsunar þegar erfitt er um tannburstun, t.d. vegna mikillar tannsteinsmyndunar eða blæðandi tannholds. Corsodyl er einnig til sem hlaup. Vetnisperoxíð inniheldur hýdrógen peroxíð og er notað til munnskolunar við tannholdsbólgum og bólgum í munnholi. Draga má úr óþægindum vegna blaðra í munni með ýmsum verkjalyfjum sem fást án lyfseðils. Taktu eina töflu fyrir máltíð til þess að auðvelda þér að borða.
Fáðu faglega ráðgjöf hjá lyfjafræðingi um val á lyfjum og notkun þeirra.