Munnþurrkur

Algengir kvillar

Munnþurrkur stafar meðal annars af of lítilli munnvatnsframleiðslu og getur komið fram við ákveðna sjúkdóma eða sem aukaverkun við töku vissra lyfja.

Munnþurrkur stafar meðal annars af of lítilli munnvatnsframleiðslu og getur komið fram við ákveðna sjúkdóma eða sem aukaverkun við töku vissra lyfja. Munnþurrkur eykur hættuna á tannskemmdum (tannátu). Þurr munnur getur líka torveldað fólki að tala, tyggja matinn og kyngja honum. Bragðskynið getur líka breyst. Ef þú ert með gervitennur getur þurrkur í munni valdið því að þær sitja verr en ella og særindi geta komið undan þeim (og líkur aukast á sveppasýkingu).

SPURNINGAR OG SVÖR

Hvenær á ég að leita hjálpar?
Leitaðu ráða hjá lækni eða tannlækni ef þú getur ekki ráðið bót á vandanum á eigin spýtur eða ef þú líður vegna þurrks í munni og veist ekki hvað veldur honum. Ef rekja má munnþurrk til lyfja skaltu bera þig upp við lækninn til þess að vita hvort gefa megi annað lyf sem hefur ekki þessar aukaverkanir. Ef þú ert þurr í munni skaltu fara reglulega í skoðun til tannlæknis.

Hvað get ég gert?
Gleymdu ekki að minnast á það við lækninn eða tannlækninn að þú finnir fyrir þurrki í munni. Þú getur linað óþægindin sem fylgja munnþurrki með því að skola munninn oft og drekka vatn eða sódavatn en alls ekki ávaxtasafa eða gosdrykki. Sætir og súrir drykkir skaða tennurnar. Forðastu að narta milli mála. Tyggðu matinn vel því að þá örvast munnvatnsmyndunin. Borðaðu gjarnan fæðutegundir sem eru dálítið harðar undir tönn, til dæmis gróft brauð og grænmeti. Sjúgðu ekki súrar og sætar karamellur eða töflur til þess að auka munnvatnsmyndunina. Sýra og sætindi skaða tennurnar. Hirtu tennurnar vel. Burstaðu tennurnar með flúortannkremi minnst tvisvar á dag, eftir morgunmat og áður en þú tekur á þig náðir, en best er þó að bursta þær eftir hverja máltíð. Flúor styrkir tennurnar og dregur úr líkum á tannátu. Notaðu auk þess tannþráð og eða tannstöngla til þess að hreinsa milli tannanna. Til eru meira að segja tannþráður og tannstönglar með flúor.

Get ég fengið lyf án lyfseðils?

Xerodent er afgreitt án lyfseðils.  Í Lyfju og í Apótekinu eru á boðstólum sykurlausar sogtöflur, s.s. Profyllin, HAp+ sykurlausa mola og tyggigúmmí með sætuefnum sem skaða ekki tennur og örva starfsemi munnvatnskirtlanna. Þú getur auk þess fengið keypta lausn sem getur að minnsta kosti að einhverju leyti komið í stað munnvatns, s.s. Saliva orthana munnúða. Zendium saliva tannkrem, munnsprey og gel vinna gegn munnþurrki og hlífa slímhúðinni í munninum. Munnspreyið er notað eftir þörfum yfir daginn, en gelið hefur áhrif í 6-8 tíma og er notað fyrir máltíðir eða yfir nótt. Zendium saliva tannkremið er notað eins og venjulegt tannkrem. Ef þú ert með munnþurrk nægir sá flúor sem þú færð úr flúortannkremi ekki til þess að vernda tennurnar og því gætirðu þurft að taka flúor aukalega. Þú getur til dæmis notað Fludent banan flúortöflur eða Flux Flúorlausn.