Augnþurrkur

Algengir kvillar

  • Augnthurrkur

Það sem oft er kallað augnþreyta lýsir sér gjarnan með særindum, sviða og kláða og er oft á tíðum vegna augnþurrks. Helsta orsök þurrks í augum er skortur á táravökva.

Það sem oft er kallað augnþreyta lýsir sér gjarnan með særindum, sviða og kláða og er oft á tíðum vegna augnþurrks. Helsta orsök þurrks í augum er skortur á táravökva. Tárakirtlarnir framleiða táravökva í sífellu og augnlokin miðla honum jafnt yfir allt yfirborð augans. Framleiðslan helst jafnan í hendur við uppgufun af yfirborði augans, en ef hún verður umfram uppgufunina hverfur umframvökvinn inn í táragöngin sem tæmast inn í nefholið. Táravökvinn myndar þunnt lag á auganu sem jafnar ljósbrot hornhimnunnar (glærunnar), smyr augað og kemur í veg fyrir ofþornun þess. Í táravökvanum er auk þess efni (lýsósým) sem eyðir örverum. Augnþurrkur einkennist oft af særindum, sviða, kláða, hitakennd og þreytu í augum.

Þurrkur í augum getur meðal annars:

  • Stafað af stíflu í táragöngum.
  • Stafað af hvarmabólgu.
  • Stafað af minnkaðri myndun táravökva hjá rosknu fólki.
  • Verið aukaverkun vegna töku lyfja.
  • Stafað af skaða á tárakirtlum sem hlotist hefur af geislameðferð.
  • Versnað í þurru veðri, ef fólk er lengi í ryki eða reyk og ef fólk vinnur langtímum saman við slæmar aðstæður eða áreynslu á augun, t.d. við tölvuskjái.


SPURNINGAR OG SVÖR

Hvenær á ég að leita til læknis?

  • Ef þig verkjar í augun og sérstaklega ef sjónin versnar.
  • Ef óþægindin ná aðeins til annars augans.
  • Ef þú finnur fyrir særindum, kláða og sviða í augu og finnst eins og korn séu á glærunni.
  • Ef þú hefur farið eftir þeim ráðum sem hér eru gefin og þau koma ekki að gagni.


Hvað get ég gert?
Forðastu staði eða aðstæður sem auka óþægindin, til dæmis dragsúg, mikinn hita, þurrt loft og þar sem ertandi efni eru í lofti. Þegar fólk situr tímunum saman við skjái er mikilvægt að þeir séu vandaðir að gerð og í fullkomnu lagi, það er að þeir séu ekki flöktandi, séu með góðri upplausn og frá þeim stafi lítil útgeislun. Ef þú þarft að velja á milli þess að nota svarthvítan skjá eða litaskjá skaltu hafa í huga að augun þreytast meira af litaskjá en svarthvítum og það getur gert meira en að vega upp þann kost að auðveldara er að lesa á litaskjáinn. Gættu þess að hafa skjáinn ekki of hátt uppi, því að þá þarftu að horfa upp svo að augnlokin lyftast og táravökvinn gufar upp af stærri fleti en ella og augun þorna enn frekar.

Get ég fengið lyf án lyfseðils?
Reyna má að slá á óþægindin með því að baða eða skola augun með saltlausn (saltvatni). Ef það kemur ekki að gagni getur þú fengið tilbúin tár (táralíki), s.s. Hyprosan, Oculac, Thealoz Oftagel eða Vidisic. Enn hefur ekki tekist að búa til tilbúin tár sem búa yfir öllum eiginleikum táravökva líkamans, en þessir vökvar milda þó óþægindin til mikilla muna. Vidisic eru rotvarið með cetrimíði og ekki má nota augnlinsur samtímis notkun þeirra. Það sama gildir um Oculac augndropa sem eru rotvarnir með benzalkónklóríði. Hinsvegar eru einnig til Oculac, Hyprosan og Oftagel augndropar án rotvarnarefna sem hægt er að nota með augnlinsum. Almennt er þó ekki mælt með notkun augnlinsa ef augnþurrkur er til staðar.