Höfuðverkur
Höfuðverkjaköst fylgja oft sótthita, til dæmis ef um inflúensu og kvef er að ræða. Þreyta, reykingar og neysla áfengis geta einnig orsakað höfuðverk.
Höfuðverkjaköst fylgja oft sótthita, til dæmis ef um inflúensu og kvef er að ræða. Þreyta, reykingar og neysla áfengis geta einnig orsakað höfuðverk. Spennuhöfuðverkur er ákveðin tegund höfuðverkjar sem er meira eða minna viðvarandi og lýsir sér með þrýstingi í enninu, hnakkanum og spennu sem leiðir út í axlir. Verkurinn stafar af spennu í vöðvum höfuðsins. Hann getur líka stafað af öðrum orsökum, til dæmis erfiðri vinnu, rangri líkamsbeitingu við vinnu, lélegri lýsingu á vinnustað eða óróleika. Höfuðverkurinn getur líka stafað af skökku biti tanna. Mígreni er sérstök tegund höfuðverkjar sem kemur í köstum. Oft hefst kastið með flöktandi ljósum. Venjulega finnst höfuðverkurinn öðrum megin í höfðinu og honum fylgir oft ógleði og jafnvel uppköst. Fólk verður oft sérlega viðkvæmt fyrir ljósi og hávaða. Köstin geta komið í kjölfar streitu eða svefnleysis eða stafað af flöktandi lýsingu og ákveðnum fæðutegundum, svo sem súkkulaði eða léttu víni, einkum rauðvíni.
SPURNINGAR OG SVÖR
Hvenær á ég að leita til læknis ?
- Ef þú finnur fyrir höfuðverk í hnakka og annars staðar í höfðinu aftanverðu, svo og höfuðverk á nóttum og morgnana.
- Ef þú færð sótthita og ákafan höfuðverk, einkum ef hann tengist stirðleika í hnakka og sljóleika.
- Ef þú færð höfuðverk sem kemur mjög skyndilega yfir þig.
- Ef þú færð höfuðverk með ógleði og uppköstum.
- Ef þú færð tvísýni eða sérð allt í þoku.
- Ef höfuðverkjaköst byrja eftir að fimmtugsaldri er náð.
- Ef þú færð höfuðverkjarköst sem hverfa ekki á nokkrum vikum.
- Ef barn kvartar yfir daglegum eða mjög tíðum höfuðverk.
Gættu þess að hafa lesefnið í réttri fjarlægð þegar þú lest og að lýsingin sé góð. Láttu mæla sjónina. Ef þú ert með spennuhöfuðverk getur stundarslökun, göngutúr eða hjólreiðatúr komið að góðu gagni. Gættu hófs í neyslu áfengis. Gættu þess að hafa reglu á svefntíma þínum og sofðu helst í svölu herbergi. Ráðfærðu þig við tannlækni ef þú hefur grun um að bitið geti verið skakkt. Reyndu að komast að því hvaða vöðva þú spennir og þjálfaðu þig í að slaka einmitt á þeim.
Get ég fengið lyf án lyfseðils?
Þú getur keypt lyf án lyfseðils við öllum venjulegum höfuðverk. Lyf sem innihalda paracetamól eru gott fyrsta val. Paracetamól er til undir ýmsum heitum s.s. Paratabs, Panodil og Dolorin. Eins er hægt að fá ýmsar útfærslur af paracetamóli, Panodil Zapp sem er fljótverkandi, Panodil Brus sem eru freyðitöflur, Panodil Extra með koffeini sem eykur verkjastillinguna.
Treo freyðitöflur eru kröftugur kostur við höfuðverk en þær innihalda asetýlsalisýlsýru og koffein.
Asetýlsalisýlsýra og bólgueyðandi verkjalyf eru ekki heppileg fyrir þá sem eru með undirliggjandi hjarta- og æðasjúkdóma, eru með astma eða eru viðkvæmir í maga (hafa fengið magasár eða magabógu). Þeir ættu að taka parasetamól, t.d. Panodil eða Paratabs töflur.
Ef þú ert með höfuðverk sem ógleði fylgir er vert að reyna paracetamól endaþarmsstíla. Forðastu að taka verkjastillandi lyf við spennuhöfuðverk. Það linar sársaukann en þar sem spennan er enn fyrir hendi kemur sársaukinn aftur um leið og lyfin hætta að verka. Það býður heim hættu á að fólk venji sig á að taka lyf í óhófi.