Höfuðlús

Algengir kvillar

  • Hofudlus

Höfuðlúsin er sníkjudýr sem lifir í hársverði manna. Hún heldur sér fastri með klóm sem grípa um hárlegginn. Lúsin er grágul að lit og er smávaxin, aðeins 2-4 mm löng.

Ef greitt er gegnum hárið með mjög fíngerðri greiðu (lúsakambi) yfir spegli ættu lýsnar að sjást. Þá má líka oft sjá lítil (minni en 1 mm), gulhvít korn föst við hárin. Þetta eru egg lúsarinnar sem kallast nit. Venjulega smitast fólk af lús þegar höfuð þess snertir lúsugt höfuð. Þess vegna er nauðsynlegt að vera á verði ef einhver sem þú umgengst er lúsugur, einkum ef náin snerting hefur verið milli ykkar um langa hríð. Þú þarft á hinn bóginn ekki að hafa miklar áhyggjur af því að fá lús með höfuðfati eða hárbursta sem lúsugur maður hefur notað. Lúsin er nefnilega algerlega háð því að fá blóð og hlýju úr hársverðinum. Hún yfirgefur ekki sinn trygga dvalarstað nema hún verði fyrir einhverjum áföllum. Náin snerting sem leiðir til smitunar er helst innan fjölskyldunnar, við önnur skyldmenni og kunningja. Höfuðlúsin þrífst eingöngu á mönnum, enda líka kölluð mannalús, og fólk smitast því aldrei af dýrum. Ekki er vitað til þess að lúsin beri nokkurn sjúkdóm milli manna.

Fræðslumyndband frá Heilsuveru

SPURNINGAR OG SVÖR

Hvenær á ég að leita til læknis?
Leitaðu ráða hjá heilsugæsluhjúkrunarfræðingi eða lækni ef barn yngra en tveggja ára fær lús. Leitaðu ráða hjá starfsfólki heilsugæslustöðvarinnar eða lækninum ef þú hefur ekki losnað við lúsina með þeim ráðum sem fylgja lúsameðalinu.

Get ég fengið lyf án lyfseðils?
Þú getur keypt lyf gegn lús án lyfseðils. Dæmi um lúsameðul er Tenutex. Lyfin virka eins og skordýraeitur en hafa ekki áhrif á manneskjuna sjálfa. Einnig er hægt að fá silikonlausn sem kallast Hedrin og Hedrin Once og Licener sjampó sem inniheldur Neem extrakt. Hedrinlausn og Licener sjampó hylja lúsina og nit hennar þannig að hún drepst úr súrefnisskorti, þ.e. kafnar. Hagaðu meðferðinni nákvæmlega í samræmi við leiðbeiningarnar á umbúðunum. Helstu aukaverkanir sem geta fylgt lyfjunum eru roði og kláði. Þótt nitin (eggin) drepist við lyfjameðferðina má sjá þau lengi á eftir límd við hárin þótt reynt sé að kemba þau burt eða fjarlægja þau með öðrum ráðum. Ef þú vilt nota meðferð án efna er rafmagns lúsakambur til sölu í apótekum. Láttu starfsfólk dagvistar barnsins eða kennarann vita ef barnið þitt fær lús og kannaðu hvort lús hefur verið að ganga þar. Það er óvenjulegt að aðeins eitt barn úr hópi fái lús. Barnið má fara á dagvistina eða í skólann strax að lokinni fyrstu lyfjameðferð. Ef einhver í fjölskyldunni eða barnahópi er með lús er nauðsynlegt að skoða hár hinna nákvæmlega í tíu daga á eftir. Allir sem greinast með lús verða að fara samtímis í lyfjameðferð til þess að koma í veg fyrir endursmit.

Hvað get ég gert í forvarnarskyni?
Hætta á smiti er mest við beina snertingu við hár. Þess vegna smitast ung börn helst. Skoðaðu hár barnsins þíns reglulega ef það er í dagvist eða í skóla og þú veist að lús hefur verið að ganga. Notaðu lúsakamb. Einnig er hægt að kaupa fyrirbyggjandi sjampó.

GAGNLEGIR TENGLAR