Flatlús?

Kynsjúkdómar

Flatlús (Phthirus pubis) er sníkjudýr sem er aðallega að finna í hárunum í kringum kynfærin. Hún getur líka verið í handarkrika, bringuhárum, augnabrúnum og augnhárum. Flatlús er sjaldgæf í hársverði.

Hvernig smitar flastlús?
Flatlús smitar helst við nána snertingu, s.s. við kynmök. Ef flatlús greinist þarf ætíð að athuga hvort um aðra kynsjúkdóma er að ræða hjá viðkomandi og rekkjunautum hans. Flatlús getur einnig borist af nærfötum og sængurfatnaði sé ekki þvegið nægilega vel. Smit getur einnig átt sér stað á sólbaðsstofum ef bekkir eru ekki vel þrifnir.

Hver eru einkenni af völdum flatlúsar?
Þegar lúsin sýgur blóð ertist húðin. Þetta veldur kláða. Hann er mestur í kringum kynfærin en getur komið á aðra staði þar sem lúsin þrífst. Kláðinn kemur oft nokkrum vikum eftir smit. Nitin klekst út á 5–10 dögum en skelin verður eftir og er oft ógerningur að sjá hvort um er að ræða tóma skel eða nit.

Greining
Yfirleitt þarf læknir að skoða viðkomandi til að greina sjúkdóminn og einnig til að taka sýni vegna annarra kynsjúkdóma sem oft eru til staðar samtímis. Flatlús er greind með því að sjá lifandi lús eða nit á hári.

Meðferð
Það er hægt að fá lyf án lyfseðils í apótekum, t.d. Tenutex. Áburður gegn lús og nit er borinn á alla hærða staði nema hársvörð og er síðan þveginn af samkvæmt leiðbeiningum sem fylgja með lyfinu. Skoða lyf í Lyfjabók Lyfju hér

Efni fengið af heimasíðu Landlæknis birt með góðfúslegu leyfi.