Sárasótt
Sárasótt (syphilis) er kynsjúkdómur sem orsakast af bakteríu er nefnist Treponema pallidum.
Hvernig smitast sárasótt?
Bakterían sem veldur sárasótt smitar við óvarin kynmök. Sýktir einstaklingar eru aðallega smitandi þegar þeir eru með sár. Áður fyrr óttaðist fólk sárasótt mest allra kynsjúkdóma. Hér á landi hefur hún verið frekar sjaldgæfur sjúkdómur en þó greinast fáeinir á ári. Þá er oftast um gamalt smit að ræða og einstaklingarnir því ekki smitandi. Dæmi eru um að smit komist í gegnum húð, t.d. á fingrum. Sýkt móðir getur smitað fóstur sitt á meðgöngu.
Hvernig get ég komið í veg fyrir smitun?
Smokkurinn verndar einungis þann hluta kynfæranna sem hann hylur en er þó eina vörnin.Slímhúð og húð sem ekki er hulin getur því sýkst.
Er sárasótt hættuleg?
Ef fullnægjandi meðferð er ekki gefin á fyrstu stigum sjúkdómsins getur bakterían valdið ýmsum sjúkdómum síðar á ævinni eins og hjarta-, heila- og taugasjúkdómum.
Einkenni
Sárasótt byrjar sem eitt eða fleiri hörð, eymslalaus, vessandi sár, 3–10 mm í þvermál. Sárin koma oft 1–6 vikum eftir smit á þeim stað sem bakterían komst inn í líkamann. Oft er erfitt að finna sárið ef það er inni í leggöngum, við endaþarminn eða inni í þvagrás þar sem sárið er oftast sársaukalaust. Ef engin meðferð er gefin hverfur sárið af sjálfu sér eftir 3–6 vikur. Þótt sárið hverfi lifir bakterían samt áfram í líkamanum. Eftir 1–3 mánuði kemur sjúkdómurinn oft fram aftur og þá sem útbrot á húðinni. Þessu getur fylgt hiti, flökurleiki, þreyta, liðverkir og hárlos. Jafnvel þessi einkenni geta horfið án meðferðar.
Fylgikvillar
Hafi fullnægjandi meðferð ekki verið gefin á fyrstu stigum sjúkdómsins getur bakterían sest að í ýmsum vefjum líkamans og valdið þar sjúkdómum síðar á ævinni, s.s. hjarta- og taugasjúkdómum. Smitist fóstur á meðgöngu getur bakterían valdið varanlegum skaða á því.
Greining
Sjúkdómurinn er greindur með blóðprófum þó hægt sé að greina hann á frumstigi með sýnatöku úr sári. Ef tekið er penísillín í ófullnægjandi skömmtum getur sýkillinn leynst í marga mánuði áður en hægt er að greina hann í blóðprufum.
Meðferð
Sárasótt er læknuð með penísillíni sem oftast er gefið í sprautum í 10–17 daga. Allir rekkjunautar viðkomandi einstaklings verða að koma í skoðun þar sem afleiðingar sjúkdómsins geta verið alvarlegar.
Efni fengið af heimasíðu Landlæknis birt með góðfúslegu leyfi.