Gyllinæð

Algengir kvillar

Gyllinæð stafar af víkkun bláæða (æðahnútar) við endaþarmsop. Talið er að þessi kvilli hrjái um það bil annan hvern mann einhvern tíma ævinnar.

Gyllinæð stafar af víkkun bláæða (æðahnútar) við endaþarmsop. Talið er að þessi kvilli hrjái um það bil annan hvern mann einhvern tíma ævinnar. Algengasta orsök gyllinæðar er að líkindum hreyfingarleysi og langvarandi harðlífi. Gyllinæð kemur oft fram hjá þunguðum konum og fólki sem er í yfirþyngd. Helstu einkenni gyllinæðar eru blæðing úr endaþarmi við hægðir ásamt sviða og kláða við endaþarmsopið. Ef bólga fylgir gyllinæð getur það lýst sér með sársauka. Þessi einkenni geta líka fylgt krabbameini í endaþarmi og bólgusjúkdómum í þörmum. Þess vegna er mikilvægt að láta rannsaka þetta, sérstaklega ef þú ert fjörutíu ára eða eldri.

SPURNINGAR OG SVÖR

Hvenær á ég að leita til læknis?

  • Í fyrsta sinn sem blæðir úr endaþarmi.
  • Ef slím eða hægðir renna úr endaþarmi.
  • Ef þú finnur fyrir miklum sársauka þegar þú hefur hægðir.
  • Ef þér batnar ekki þrátt fyrir að þú hafir fylgt ráðunum sem gefin eru hér á eftir.


Hvað get ég gert? 
Ef þú átt við harðlífi að stríða skaltu reyna að koma hægðunum í lag með því að borða trefjaríkan mat, drekka vatn fyrir máltíð og hreyfa þig meira. Þá er einnig hægt að taka inn Husk sem er einstaklega trefjaríkt ásamt því að vera rúmmálsaukandi og eykur þar með hægðalosun. Ef trefjarík fæða nægir ekki til þess að mýkja hægðirnar skaltu reyna hægðalyf sem þú getur fengið án lyfjaávísunar. Dæmi um hægðalosandi lyf eru Magnesía Medic og Medilax sem hafa osmótíska hægðalosandi verkun og þar með mýkja hægðir ásamt því að auka þarmahreyfingar. Gættu ýtrasta hreinlætis. Þvoðu alltaf endaþarminn þegar þú hefur haft hægðir og helst eingöngu með vatni. Ef þú kýst að nota sápu skaltu nota súra og milda sápu (með lágu pH-gildi). Skolaðu þig vel á eftir og þurrkaðu þér varlega.

Get ég fengið lyf án lyfseðils?

Endaþarmsstílar eru notaðir við innri gyllinæð en smyrsli eða krem ef óþægindin eru við og í endaþarmsopinu. Endaþarmsstílar og gyllinæðalyf eru lyfsseðilsskyld en til eru froður og önnur krem sem fást án lyfseðils sem draga úr óþægindum við endaþarmsopið. Skoða hér

Proctosedyl smyrsli hefur verkjastillandi, sýklaeyðandi og kröftuga bólgueyðandi verkun. Proctosedyl dregur úr bjúg, miklu blóðflæði og kláða. Lyfið ætti ekki að nota lengi eða í miklu magni á meðgöngutíma. Xylocain smyrsli inniheldur staðdeyfandi efni og það getur dregið úr sársauka við hægðir. Smyrslið er borið á það svæði við endaþarmsopið sem verkjar í. Ef sársaukinn finnst inni í endaþarminum er smyrslið sett inn fyrir opið úr túbu.

Fáðu faglega ráðgjöf hjá lyfjafræðingi um val á lyfjum og notkun þeirra.