Gallsteinar
Um fimmti hver einstaklingur yfir 65 ára er með gallsteina og mikill fjöldi gengst árlega undir aðgerð þar sem gallsteinar ásamt gallblöðrunni eru fjarlægð.
Talið er að um 10% allra einstaklinga séu með gallsteina og þeir eru um helmingi algengari meðal kvenna en karla. Það sem einkum eykur líkur á að fá gallsteina er offita, hár aldur, fituríkur matur með litlu af trefjum og fjölskyldusaga (ættingjar sem hafa fengið gallsteina).
Orsakir
Orsakir gallsteina eru margvíslegar og ekki að fullu þekktar. Ýmislegt nýtt hefur verið að koma í ljós, t.d. sýndi sig í nýlegri rannsókn að kaffidrykkja virðist vernda fólk fyrir gallsteinum en kaffi hefur hingað til ekki talist holl fæða. Gallsteinar myndast yfirleitt í gallblöðrunni og eru oftast gerðir úr kólesteróli. Kólesteról er betur þekkt sem blóðfita sem kemur við sögu í æðakölkun en mikið af því skilst út með galli og við vissar aðstæður getur það myndað útfellingar og þar með gallsteina. Gallsteinar byrja sem örsmá korn en geta orðið á stærð við golfkúlu. Í gallinu, sem er gulbrúnn vökvi, eru m.a. kólesteról, gallsölt, fita, prótein og galllitarefni. Gallið myndast í lifrinni, safnast fyrir í gallblöðrunni, sem er undir lifrinni hægra megin í kviðarholi, og þegar matur tæmist úr maganum niður í skeifugörn dregst gallblaðran saman og dælir galli inn í skeifugörnina. Gallið tekur þar þátt í að melta fitu úr fæðunni. Í gallinu ríkir viðkvæmt jafnvægi milli hinna ýmsu efna og ekki má verða mikil röskun á samsetningu þess til að þar fari að myndast gallsteinar, oftast úr kólesteróli en einstaka sinnum úr galllitarefnum.
Gallsteinar eru mun algengari hjá konum en körlum og skiptir þar máli að kvenhormónið östrógen stuðlar að myndun gallsteina, einkum þegar mikið er af því eins og á meðgöngu, við töku getnaðarvarnataflna eða notkun hormóna eftir tíðahvörf. Ekkert öruggt samband er milli fæðu og gallsteina en margt bendir til að fæða sem inniheldur mikið af kólesteróli og sykri (sterkju) en lítið af trefjum, auki hættu á gallsteinum. Tíðni gallsteina eykst með aldrinum og þeir sem eru feitir eru í mun meiri hættu en aðrir. Einnig hefur komið í ljós að strangir megrunarkúrar eða fasta auka verulega hættuna á gallsteinum. Erfðir skipta greinilega máli og þeir sem eiga nákomna ættingja sem fengið hafa gallsteina eru í meiri hættu en aðrir.
Einkenni
Gallsteinar finnast oft fyrir tilviljun og valda í fæstum tilfellum óþægindum. Steinar sem ekki valda neinum einkennum gefa yfirleitt ekki tilefni til meðferðar. Gallsteinar geta gefið skyndilega og mikla verki sem oftast eru efst í kviðnum, stundum hægra megin, og geta verið með útgeislun aftur í bak eða hægra herðablað. Þessi verkjaköst standa gjarna í nokkrar klukkustundir og þeim geta fylgt ógleði og uppköst. Gallsteinn getur stíflað gallganginn og valdið verkjum, gulu, ljósum hægðum eða jafnvel brisbólgu. Þegar um slíka stíflu er að ræða kemur iðulega sýking í gallblöðruna, gallblöðrubólga, með sótthita og slappleika. Ef grunur vaknar um gallsteina er tiltölulega auðvelt að greina þá og má gera það með röntgenmynd en nú orðið er algengast að beitt sé ómskoðun.
Til eru lyf sem leysa upp gallsteina en það tekur mjög langan tíma, mánuði eða ár, og vegna þess að gallblaðran er áfram til staðar koma steinarnir aftur í helmingi sjúklinganna. Þessi meðferð getur hentað þeim sem ekki geta eða vilja fara í skurðaðgerð. Skurðaðgerð er venjulega besta meðferðin við gallsteinum sem valda óþægindum og þá eru steinarnir fjarlægðir, ásamt gallblöðrunni. Þegar gallblaðran hefur verið fjarlægð rennur gallið, jafnóðum og það myndast, inn í skeifugörn. Vegna þess að gallið safnast hvergi fyrir geta ekki myndast gallsteinar. Einstaka sjúklingar fá meltingartruflanir af þessu stöðuga gallrennsli en flestir vita ekkert af því. Á undanförnum árum og áratugum hafa orðið gífurlegar framfarir í skurðlækningum sem engan veginn hafa hlotið verðskuldaða athygli. Í flestum tilfellum er gallblaðran fjarlægð með hjálp kviðsjár sem er miklu minni aðgerð en 10-20 cm langur holskurður sem áður tíðkaðist. Gerð eru fáein lítil göt á kviðvegginn, kviðsjá og tækjum stungið þar í gegn og aðgerðin framkvæmd. Sjúklingurinn jafnar sig á fáeinum dögum, sýkingarhætta er lítil og ör verða sáralítil. Samvextir í kviðarholi eða annað sem byrgir skurðlækninum sýn kemur stundum í veg fyrir að hægt sé að gera þessa aðgerð í gegnum kviðsjá og þá verður að grípa til stærri aðgerðarinnar.