Næring á breytingaskeiðinu
Breytingaskeiðið er ferli sem hefst þegar tíðahringir fara að verða óreglulegir og færri, oftast í kringum fimmtugsaldurinn. Þetta tímabil getur varað í 7 til 14 ár og kallar á sérstaka athygli á mataræði og lífsstíl þar sem hormónastarfsemi breytist verulega, einkum vegna minnkandi estrógenframleiðslu.
Hormónabreytingar og áhrif þeirra
Hormónabreytingarnar valda ekki bara hvimleiðum einkennum eins og hitakófum og þreytu, heldur hafa þær lík áhrif á andlega og líkamlega heilsu. Minnkað estrógen getur haft bein áhrif á efnaskipti, beinþéttni og hjartaheilsu. Þá verður ennþá mikilvægara en áður að vera ekki í skorti á ákveðnum næringarefnum, sérstaklega kalki, D-vítamíni, próteinum og andoxunarefnum.
Áhrif minnkandi estrógens á beinheilsu
Estrógen hefur verndandi áhrif á beinþéttni, svo þegar estrógenframleiðsla minnkar, veikjast oft beinin. Þess vegna er mikilvægt að tryggja nægilegt magn af beinverndandi næringarefnum eins og kalki og D-vítamíni í daglegu mataræði. Góðir kalk og D-vítamíngjafar eru meðal annars mjólkurvörur, grænt laufgrænmeti og feitur fiskur eins og lax og sardínur – ef þörf krefur, bætið við bætiefnum.
Áhrif minnkandi estrógens á hjartaheilsu
Þegar estrógenmagn minnkar á breytingaskeiði, á meðan frjáls andrógen aukast, getur það haft áhrif á fitudreifingu og blóðfitur. Estrógen stuðlar að fitusöfnun á útlægum svæðum, eins og lærum og mjöðmum, á meðan andrógen stuðla frekar að fitusöfnun á kviðnum. Þetta þýðir að kviðfita verður algengari og blóðfitur, eins og kólesteról og þríglýseríð, eiga það til að hækka. Þetta eykur hættuna á hjarta- og æðasjúkdómum. Hér koma hjartvænar fitur sterkt inn! Bætið ólífuolíu á salöt, borðið feitan fisk í hverri viku og bætið við hollum fitugjöfum eins og hörfræjum og valhnetum. Ekki gleyma trefjum! Þær bæta hjartaheilsu, styðja við þarmaflóruna,
minnka blóðsykursveiflur og stuðla að meiri seddu. Og svo eru það andoxunarefnin! Þessi öflugu efni hjálpa til við að draga úr bólgum og vinna gegn oxunarálagi, sem verður algengara á breytingaskeiði. Góð regla er að fylla diskinn með litríku grænmeti, ávöxtum, hnetum – og já, jafnvel smá dökku súkkulaði! Vökvun er líka mikilvæg. Hormónabreytingar geta valdið þurri húð og öðrum óþægindum, svo drekkið nóg af vatni og jurtatei til að halda líkamanum vel vökvuðum.
Að lokum snýst allt um jafnvægi. Leggið áherslu á að borða í það minnsta 80% af
tímanum lítið unna og næringarríka fæðu sem er trefjarík og inniheldur hjartvæna fitu. Þetta stuðlar að stöðugri orku, góðu efnaskiptajafnvægi og betri vellíðan á þessu tímabili lífsins.