Veljum vel hvað við berum á húðina
Við notum húð- og snyrtivörur til að hreinsa, vernda og breyta lykt eða útliti líkama okkar, svo eitthvað sé nefnt. Sífellt fjölgar vörum á markaði og húðrútínur verða æ flóknari með hverju árinu. Það er skiljanlegt - við viljum flest vera besta útgáfan af okkur sjálfum.
Í því sambandi er mikilvægt að skilja hvernig þessi efni haga sér eftir að þeim hefur verið sprautað á húðina, makað í hársvörð, húð, hár eða á varir, og hvort þau geti þar með haft varanlegri áhrif á líkama okkar en einungis þau tímabundnu fegrunar-, varnar- eða vellíðunaráhrif sem við óskuðum eftir.
Húðin er eins og margir vita stærsta líffærið, og gegnir mörgum mikilvægum hlutverkum í líkama okkar. Hún er í raun alveg stórmerkilegt fyrirbæri, og tilgangur hennar nær langt umfram það að vera einungis vörn gegn ytra umhverfi.
Fyrir utan að vera okkar fyrsta varnarlag, sem verndar innri líffæri gegn áverkum er hún einnig hluti af okkar mikilvæga ónæmiskerfi, sem ver okkur fyrir sýklum og ákveðnum efnum í umhverfinu. Hún hefur ákveðna innkirtlavirkni og stuðlar m.a. að myndun D-vítamíns, fyrir tilstilli útfjólublárra geisla sólarinnar. Með svitamyndun og æðasamdrætti eða æðavíkkun, stjórnar húðin líkamshita og vatnsjafnvægi líkamans - og taugaendar í húðinni gera okkur kleift að greina snertingu, þrýsting, hitastig og sársauka. Síðast en ekki síst hjálpar húðin okkur að losna við úrgangsefni úr líkamanum, með aðstoð svitakirtlanna.
En þó svo að eitt af meginhlutverkum húðarinnar sé að virka sem varnarlag og hindrun, þá á sér einnig stað töluvert frásog og upptaka efna sem húðin kemst í snertingu við. Þetta er afskaplega mikilvægt að hafa í huga, í sambandi við heildarútsetningu líkamans fyrir efnum – út frá umhverfislæknisfræðilegu sjónarhorni.
Meðal fyrstu lýsinga á notkun efna á húð í þeim tilgangi að breyta eða betrumbæta útlit, má rekja til Egyptalands til forna, þar sem förðun þótti vera merki um auð og var talið höfða vel til guðanna. Forn-Egyptar og Grikkir voru meðal þeirra fyrstu sem notuðu snyrtivörur eins og dökka liti til að skerpa augnsvæði en þeir virtust einnig gera sér fulla grein fyrir frásogi efna um húðina, þar sem þeir notuðu til að mynda olíur og aðrar staðbundnar remedíur í lækningatilgangi.
Það var svo ekki fyrr en um 1940 að farið var að rannsaka frásog og upptöku efna um húðina, og eftir 1970 lögðu menn aukna áherslu á rannsóknir á því hvernig nýta mætti gegndræpi húðarinnar við lyfjagjöf og einnig í sambandi við húðumhirðu. Við það bættust svo rannsóknir á hugsanlegri skaðsemi og neikvæðum kerfisbundnum áhrifum í líkamanum við atvinnutengda útsetningu efna, eins og t.d. hjá starfsmönnum í skordýra- og illgresissprautun, sem reyndust taka talsvert mikið af efnunum upp um húð og öndunarfæri.
Síðan þá hefur heldur betur bæst í fjölda efna sem finna má í okkar nærumhverfi. Sér í lagi eftir seinni heimsstyrjöldina þegar efnaiðnaður hafði aukist mjög mikið og fjöldinn allur af nýjum manngerðum efnum komu á markað, án þess að vera nokkurn tímann áhættumetin. Sum voru jafnvel þróuð í stríðstilgangi, en eftir stríðslok voru þau nýtt í öðrum tilgangi. Og nú er svo komið að það er ógerlegt fyrir nútímamanneskju að komast í gegnum daginn án þess að vera útsett fyrir tilbúnum efnum af einhverju tagi, ýmist um húð, við inntöku matar eða við innöndun.
Þegar efni eru borin á húð berast þau til dýpri laga húðarinnar og þaðan yfir í blóðrásina og geta þar með valdið kerfisbundnum áhrifum um allan líkamann.
Þetta gerist með nokkrum leiðum. Þar má nefna millifrumuleiðina (intercellular route), þar sem efni finna sér leið á milli húðþekjufrumnanna, og er að einhverju leyti háð stærð sameinda, hleðslu þeirra og formgerð. Efni berast einnig inn um húð við innanfrumuleið, þ.e.a.s. beint í gegnum frumur yfirhúðarinnar (intracellular route) og með hinni svokölluðu viðbótar- eða fylgdarleið (Transappendageal /Shunt Route). Það felur í sér flutning sameinda inn um hársekkina og svitakirtlana.
Ýmsir þættir hafa svo aftur áhrif á magn efna sem frásogast í gegnum húðina, s.s. tegund þeirra og styrkur, leysni í vatni og olíu, tímalengd snertingar við húðina eða jafnvel tilvist annarra efna á sama húðsvæði sem geta aukið eða hindrað frásog. Hitastig og raki geta einnig haft sitt að segja.
Húðgerð og ástand húðar skipta einnig máli, en sködduð húð hleypir talsvert meira af efnum í gegnum sig. Þar fyrir utan er upptaka mjög breytileg eftir húðsvæðum og fer t.d. eftir þykkt húðarinnar og þéttleika hára og svitakirtla, svo eitthvað sé nefnt! Aldur skiptir líka máli. Ung húð er almennt móttækilegri fyrir innihaldsefnum í vörum, þar sem hún er þynnri, opnari og viðkvæmari en húð fullorðinna.
Fyrir utan þetta allt saman geta eiginleikar húðarinnar verið undir áhrifum frá meðfæddum, eðlislægum- og/eða líkamstengdum þáttum, eins og þjóðerni, kyni eða jafnvel lífsstíl og líkamsþyngdarstuðli (BMI).
Þetta útskýrir meðal annars hvers vegna við höfum svo ólíkar þarfir og hvers vegna mismunandi húðvörur henta hverjum og einum.
Rannsóknir sýna að einstaklingar taki upp allt að 1-2 kíló af tilbúnum efnum um húðina úr snyrti- og húðumhirðuvörum árlega. Efni sem forfeður okkar komust aldrei í snertingu við, efni sem líkamar okkar þurfa að taka við og vinna úr.
En hvað gerir líkaminn við efni sem inn í hann berast?
Öfugt við næringarefni sem berast inn um slímhúð í meltingarvegi og nýtast okkur til líkamlegrar virkni eða uppbyggingar, þá eru manngerð efni sjaldnast með slíkt notagildi. Eftir að efni, sem borin eru á húðina, berast með blóðrás til vefja og líffæra reynir líkaminn að losa sig við þau eða geyma þau á ákveðnum geymslustöðum, þar sem þau valda síður skaða. Fituvefur er dæmi um slíka geymslustöð.
Það eru margar mögulegar útskilnaðarleiðir, sem fer eftir um hvaða efni er að ræða. Útskilnaður flestra eitur- og umbrotsefna þeirra fer um nýrun og skolast út með þvagi. Lifrin, sem er eitt af okkar helstu afeitrunarlíffærum, hjálpar einnig til við útskilnað efna. Þá eru fituleysanleg efni líklegri til að skiljast út með galli í gegnum meltingarveginn eða safnast upp í fituvef - en þau vatnsleysanlegu hafa tilhneigingu til að skiljast út um nýrun. Einhver útskilnaður á sér svo stað með brjóstamjólk, svita og munnvatni. Sum efni festast í ákveðinni hringavitleysu, en það er þegar efnasambönd skiljast út um lifur með galli, endursogast úr þörmum og skila sér aftur til lifrar.
Í þessu samhengi vil ég minna á myndlíkinguna um eiturefnaglasið, sem ég hef minnst á hér áður í fræðslumyndbandi á vegum Lyfju, og hvet alla neytendur til að hafa á bak við eyrað í hvert sinn sem þeir velja að kaupa og nota vörur sem þeir setja ofan í sig og á. Maður getur séð fyrir sér að hafi líkaminn ekki undan við að losa sig við efnin, sem berast inn í líkamann með fyrrnefndum leiðum, þá fyllist glasið smám saman og yfirborðið hækkar þar til það flæðir á endanum upp úr. Þá má segja að líkaminn og afeitrunarkerfi hans hafi bugast og þurfi að lúta í lægra haldi fyrir kvilla eða sjúkdómi af einhverju tagi, sem þá hefur náð bólfestu í líkamanum.
Við verðum fyrir eiturefnaáhrifum strax í móðurkviði og þar af leiðandi er eiturefnaglasið ekki einu sinni tómt við fæðingu. Það fer því líka eftir umhverfi og lifnaðarháttum móður, hversu hátt eiturefnayfirborð í glasi hvers og eins er þegar viðkomandi fæðist. Það undirstrikar mikilvægi þess að vanda sig sérstaklega vel við val á snyrti- og húðumhirðuvörum á meðgöngu og fyrir ung börn - fyrir utan auðvitað að passa aðra lífsstílstengda þætti eins og t.d. mataræði. Yfirborð eiturefnaglasa okkar heldur svo áfram að hækka og lækka á lífsleiðinni. Og með þeirri miklu aukningu sem orðið hefur á efnaframleiðslu á síðustu áratugum hefur það því miður haft í för með sér að glös okkar fyllast á ofsahraða, séum við ekki nægilega passasöm.
Þá má ekki gleyma kokteiláhrifunum, sem lýsa því hvernig skaðsemi efna stigmagnast i líkamanum þegar mörg efni hafa áhrif á hann á sama tíma.
Flestum í dag er orðið ljóst að með góðum venjum er hægt að hafa veruleg áhrif á heilsuna til lengri tíma litið til að fyrirbyggja margs konar lífsstíls- og samfélagstengda sjúkdóma. Þá er vert að huga að hreyfingu og heilsusamlegu mataræði til að stuðla að viðhaldi og uppbyggingu líkamans, en það er ekki síður bráðnauðsynlegt að þekkja og forðast það sem veldur niðurbroti og neikvæðum áhrifum. Við viljum flest halda heilsunni sem allra lengst og viljum að líkami okkar endist okkur vel og lengi. Einstaklingar sem setja heilsuna í forgang forgangsraða því gjarnan og taka heilsusamleg og uppbyggjandi matvæli fram yfir þau sem hafa þekkt neikvæð áhrif á líkamann og heilsuna.
Líta þarf á snyrti- og húðvörur með nákvæmlega sömu augum og af fenginni reynslu má fullyrða að það er afar mikilvægt að velja vel það sem borið er á húðina og vera vel upplýstur neytandi. Á markaði er aragrúi af mismunandi snyrtivörum í boði, sem hafa mismunandi samsetningu innihaldsefna. Dæmigerð vara inniheldur allt frá 15–50 innihaldsefni, og miðað við að einstaklingar noti að meðaltali á milli 9 og 15 persónulegar umhirðuvörur dag hvern, hefur verið áætlað að meðaleinstaklingur komist í snertingu við tæplega hundrað til rúmlega fimm hundruð efnafræðileg innihaldsefni dags daglega- eingöngu frá umhirðuvörum.
Þó að formúlur umhirðuvara geti verið afar ólíkar, innihalda flestar snyrtivörur blöndu af að minnsta kosti nokkrum af eftirfarandi kjarnainnihaldsefnum, en þau eru vatn, ýruefni, rotvarnarefni, þykkingarefni, mýkingarefni, litarefni, ilmefni og sýrustillandi efni.
Því miður hafa ansi mörg þeirra reynst skaðleg eftir að dreifing og notkun þeirra hófst. Um er að ræða þúsundir efna, en nákvæm tala er óljós. Dæmi um skaðleg efni sem almennt finnast í snyrtivörum, og valda vísindamönnum áhyggjum, eru til að mynda sum paraben, þalöt, formaldehýð, þungmálmar og sumar gerðir UV sía.
Rannsóknir hafa sýnt að tengsl séu á milli langvarandi útsetningar fyrir tilteknum efnum í snyrti- og húðumhirðuvörum og heilsufarsvandamála eins og ofnæmi, krabbamein og hormónaójafnvægi með þar til heyrandi röskun á frjósemi og æxlun.
Á síðasta áratug hafa rannsóknir EWG og annarra vísindamanna svo staðfest að efni geta borist frá þunguðum konum til fósturs í gegnum naflastrenginn og haft áhrif á framtíðarheilsu og þroska barna. Nú hefur vaxandi fjöldi rannsókna meira að segja sýnt að sum efni geta haft áhrif á genamengi. Áhrif þeirra eru því ekki einungis bundin við okkar heilsu, heldur jafnvel afkomenda okkar og komandi kynslóða.
Í ljósi alls þessa er afar ánægjulegt að sjá þær jákvæðu breytingar sem hafa orðið á markaði húðumhirðu- og snyrtivara. Með aukinni vitund neytenda um áhrif efna sem frásogast um húðina hefur áherslan færst í auknum mæli yfir á hreinar, óeitraðar vörur. Vörumerki sem sérhæfa sig í hreinum innihaldsefnum, þ.m.t. sólarvörnum, eru nú í meira mæli í boði á markaðnum, og úrvalið hefur aldrei verið betra. Þessi þróun er í takt við aukna eftirspurn neytenda sem vilja öruggar og hreinar vörur.
Við getum þakkað fyrirtækjum sem hafa brugðist hratt við þessari þróun og unnið ötullega að því að fjölga slíkum vörum í búðarhillum. Með því að taka upplýstar ákvarðanir, kynna okkur innihaldsefni, gera auknar kröfur og velja vörur frá ábyrgum söluaðilum, getum við haldið þessari jákvæðu þróun áfram. Með því að greiða atkvæði með veskinu getum við öll lagt okkar af mörkum til að tryggja hreinar vörur, sem lausar eru við skaðleg efni, fyrir bæði okkur og komandi kynslóðir. Húð okkar og heilsa á það sannarlega skilið!
Skoða hreinar vörur
Heimildir
- Kladt C, Dennerlein K, Göen T, Drexler H, Korinth G. Evaluation on the reliability of the permeability coefficient (K p) to assess the percutaneous penetration property of chemicals on the basis of Flynn's dataset. Int Arch Occup Environ Health. 2018;91(4). doi:10.1007/s00420-018-1296-5
- Trabaris M, Laskin JD, Weisel CP. Effects of temperature, surfactants and skin location on the dermal penetration of haloacetonitriles and chloral hydrate. J Expo Sci Environ Epidemiol. 2012;22(4). doi:10.1038/jes.2012.19
- Williams PRD, Sahmel J, Knutsen J, Spencer J, Bunge AL. Dermal absorption of benzene in occupational settings: Estimating flux and applications for risk assessment. Crit Rev Toxicol. 2011;41(2). doi:10.3109/10408444.2010.530224
- Morrison GC, Bekö G, Weschler CJ, et al. Dermal Uptake of Benzophenone-3 from Clothing. Environ Sci Technol. 2017;51(19). doi:10.1021/acs.est.7b02623
- Morrison GC, Weschler CJ, Bekö G. Dermal uptake of phthalates from clothing: Comparison of model to human participant results. Indoor Air. 2017;27(3). doi:10.1111/ina.12354
- Lu S, Yu Y, Ren L, Zhang X, Liu G, Yu Y. Estimation of intake and uptake of bisphenols and triclosan from personal care products by dermal contact. Science of the Total Environment. 2018;621. doi:10.1016/j.scitotenv.2017.10.088
- Andersen C, Krais AM, Eriksson AC, et al. Inhalation and Dermal Uptake of Particle and Gas-Phase Phthalates - A Human Exposure Study. Environ Sci Technol. 2018;52(21). doi:10.1021/acs.est.8b03761
- Wang Z, Geng S, Zhang J, et al. Methods for the characterisation of dermal uptake: Progress and perspectives for organophosphate esters. Environ Int. 2024;183. doi:10.1016/j.envint.2023.108400
- Williams FM. New approaches build upon historical studies in dermal toxicology. Toxicol Res (Camb). 2023;12(6). doi:10.1093/toxres/tfad101
- Brown TN, Armitage JM, Egeghy P, Kircanski I, Arnot JA. Dermal permeation data and models for the prioritization and screening-level exposure assessment of organic chemicals. Environ Int. 2016;94. doi:10.1016/j.envint.2016.05.025
- Palmer BC, DeLouise LA. Nanoparticle-enabled transdermal drug delivery systems for enhanced dose control and tissue targeting. Molecules. 2016;21(12). doi:10.3390/molecules21121719
- Sidat Z, Marimuthu T, Kumar P, et al. Ionic liquids as potential and synergistic permeation enhancers for transdermal drug delivery. Pharmaceutics. 2019;11(2). doi:10.3390/pharmaceutics11020096
- Hewitt NJ, Grégoire S, Cubberley R, et al. Measurement of the penetration of 56 cosmetic relevant chemicals into and through human skin using a standardized protocol. Journal of Applied Toxicology. 2020;40(3). doi:10.1002/jat.3913
- Ragnarsdóttir O, Abdallah MAE, Harrad S. Dermal uptake: An important pathway of human exposure to perfluoroalkyl substances? Environmental Pollution. 2022;307. doi:10.1016/j.envpol.2022.119478
- Chu CY. Skin as an immune organ. Dermatologica Sinica. 2012;30(4). doi:10.1016/j.dsi.2012.11.001
- Santoro D, Boyd M. The Skin as an Immune Organ. In: Diagnostics and Therapy in Veterinary Dermatology. ; 2021. doi:10.1002/9781119680642.ch1
- N'Da DD. Prodrug strategies for enhancing the percutaneous absorption of drugs. Molecules. 2014;19(12). doi:10.3390/molecules191220780
Dermal absorption of pesticides – evaluation of variability and prevention
- https://www2.mst.dk/udgiv/publications/2009/978-87-7052-980-8/pdf/978-87-7052-981-5.pdf
- https://www2.mst.dk/udgiv/publications/2009/978-87-7052-980-8/html/kap07_eng.html