Eiga börn að tileinka sér flókna húðumhirðu?
Við höfum flestöll orðið vör við nýja tískubylgju sem hefur vaxið stórlega síðustu tvö árin en vaxandi fjöldi barna og unglinga eru farin að tileinka sér mjög flókna húðrútínu. Börn allt niður í 7-8 ára aldur eru farin að sýna húðvörum mikinn áhuga og jafnvel óska eftir snyrtivörum og húðkremum í gjafir eða frá foreldrum sínum. Ástæðurnar fyrir þessari þróun eru nokkrar.
Þær helstu eru líklega aukið aðgengi barna að samfélagsmiðlum, vaxandi markaðssókn snyrtivörufyrirtækja og þörf barna til að falla í hópinn. Áhrifavaldar á samfélagsmiðlum hafa einnig mikil áhrif þar sem þeir keppast við að auglýsa hinar ýmsu húðvörur og þá hefur markaðssetning húðvara aukist stórlega en börn laðast sérstaklega að áberandi og litaglöðum umbúðum.
Við fögnum því að ungt fólk er almennt betur upplýst um mikilvægi góðrar húðumhirðu og að það sæki sér fræðslu á samfélagsmiðlum, en þar er einnig að finna mikið af röngum og misgáfulegum upplýsingum.
Húðsjúkdómalæknar víða um heim hafa lýst yfir áhyggjum sínum af þessari þróun sem og margir foreldrar. Því miður eru líka alltof margir foreldrar ómeðvitaðir um hvaða vörur börnin þeirra eru að nota og ýta jafnvel undir notkun húðvara sem engan veginn henta barnshúð.
Nú hefur stór keðja apóteka í Svíþjóð, Apotek Hjärtat, riðið á vaðið og bannað sölu á ákveðnum húðvörum til barna yngri en 15 ára nema með samþykki foreldra eða að staðfest hafi verið af lækni að ákveðin húðvandamál séu fyrir hendi. Þetta felur meðal annars í sér vörur eins og C-vítamín, serum, sýrur og retinól. Hugsanlega munu fleiri fyrirtæki fylgja á eftir og vonandi í framtíðinni verða settar skýrar reglur um hvað megi selja börnum undir vissum aldri.
En hvers vegna ættu börn ekki að nota sömu vörur og fullorðnir?
Ástæðan er sú að barnshúð er viðkvæmari en húð fullorðinna. Húðin er samsett úr þremur húðlögum; fitulagi, leðurhúð og svo efst er yfirhúðin, sem er svokallað varnarlag húðarinnar. Það verndar húðina og okkur fyrir utanaðkomandi áhrifum, efnum og örverum. Yfirhúð barna er mun móttækilegri fyrir innihaldsefnum í vörum þar sem hún er þynnri, opnari og drekkur í sig meira af því sem sett er á hana.
Margar húðvörur og innihaldsefni í þeim geta raskað varnarlagi húðarinnar hjá börnum, sérstaklega húðvörur með mikla virkni eins og retinól og sýrur. Ef varnarlagið raskast fylgir oft þurrkur, roði og bólga en það getur orsakað ýmis önnur vandamál. Dæmi um slík vandamál eru:
- Bólgusjúkdómar eins og t.d. exem, rósroði, perioral dermatitis.
- Snertiofnæmi. Samkvæmt rannsóknum hefur snertiofnæmi aukist hjá unglingsstúlkum vegna útsetningar fyrir rotvarnarefnum, ilmefnum og öðrum ofnæmisframkallandi efnum í húð- og snyrtivörum. Því fleiri vörur sem eru notaðar því meiri líkur eru á ofnæmi.
- Húðsýkingar. Röskun á varnarlaginu getur einnig raskað viðkvæmri húðflóru húðarinnar sem eykur hættu á sýkingum.
- Aukinn skaði vegna útfjólublárrar geislunar. Laskað varnarlag er móttækilegra fyrir skaðsemi útfjólublárra geisla og sérstaklega sólbruna. Stór hluti af þeim sólarskaða sem húð okkar verður fyrir á æviskeiðinu á sér stað á barns- og unglingsaldri. Afleiðingarnar eru litabreytingar, hrukkur, sólarskemmdir og húðkrabbamein, sem koma fram síðar á ævinni.
Hvaða vörur mega börn nota og hvaða vörur ber að forðast?
Málið er því miður ekki svo einfalt að hægt sé að útbúa lista yfir efni sem börn undir 18 ára aldri eiga að forðast eða lista yfir efni sem eru í lagi. En til þess að einfalda þetta getum við flokkað börn niður í:
- Börn undir kynþroskaaldri
- Unglingar með heilbrigða húð
- Unglingar með húðvanda
Í stuttu máli sagt þarf einungis að huga að þrennu; hreinsa húðina kvölds og morgna, að húðin fái raka og sólarvörn þegar við á.
Börn undir kynþroskaaldri þurfa enga sérstaka húðrútínu en gott er að þrífa húðina kvölds og morgna með þvottapoka, nota einfalt ilmefnalaust rakakrem sem hentar ungri húð og sólarvörn með steinefnum þegar við á. Allar aðrar vörur geta haft skaðleg áhrif á húðina.
Húðvörur og innihaldsefni sem eru óþarfi fyrir börn:
- Allt sem heitir anti-aging
- C-vítamín
- Retinól
- Sýrur eins og AHA, BHA, lactic acid, mandelic acid
- Peptides
- Vaxtarþættir, t.d. EGF
- Húðvörur með alkóhóli
- Ilmefni og essential-olíur
- Vörur sem innihalda mikla lykt
Á kynþroskaaldri fer hormónastarfsemi líkamans í auknum mæli að hafa áhrif á húðina og fitukirtlarnir fara að framleiða mun meiri olíu, sérstaklega á T-svæði andlitsins. Í raun er töluvert ójafnvægi á þessari framleiðslu á þessum aldri hjá flestum unglingum sem ýtir undir stíflur í fitukirtlum og bólumyndun. Húðflóran breytist líka á þessum árum þar sem margar húðbakteríur lifa á olíunni í húð okkar. Flestir unglingar fá einhverjar bólur en þó mismikið og það er misjafnt á hvaða aldri. Sumir byrja að fá bólur um tíu ára aldur en aðrir síðar eða í kringum16 ára aldur. Hins vegar eru sumir unglingar með þurra og jafnvel exemgjarna húð sem þarfnast öðruvísi húðvara en bólugjörn olíukennd húð. Af þessum sökum er ekki hægt að ráðleggja öllum unglingum sömu húðrútínu!
Unglingar sem eru farnir að fá stíflur og jafnvel bólur ættu að halda sig við olíulaus rakakrem eða þau sem innihalda ceramíð og nota húðhreinsa sem losa dauðar húðfrumur og umframmagn húðolíu og innihalda t.d. salicylic- (BHA), glycolic- eða mandelic-sýru (AHA). Húðlæknar ávísa auk þess gjarnan sterkum retinólum til unglinga með slæmar bólur og þar af leiðandi er í lagi fyrir unglinga með bólur að prófa retinól sem fæst án lyfseðils.
Innihaldsefni í vörum sem eru í lagi fyrir unga olíukennda húð:
- Ceramides
- Hyaluronic acid
- Niacinamide
- Azelaic acid
- Glycolic acid
- Salicylic acid
- Mandelic acid
- Retinól (með leiðbeiningum og ef viðkomandi er með bólur)
Ef unglingur er hins vegar með þurra eða exemgjarna húð er mikilvægt að leggja áherslu á húðhreinsa fyrir viðkvæma húðgerð, jafnvel olíuhreinsa, og rakakrem sem innihalda hæfilegt fituinnihald. Einnig er mikilvægt að halda sig við einfaldar og lyktarlausar húðvörur þar sem fólk með viðkvæmt varnarlag húðar (eins og exembörn) fær snertiofnæmi frekar en aðrir. Þær vörur sem þarf að forðast eru bóluvörur, sýrur og retinól.
Til að taka þetta saman; börn þurfa enga flókna húðrútínu eða margar vörur en gott er að hreinsa húðina, nota einfalt rakakrem og sólarvörn þegar við á. Unglingar þurfa að koma sér upp einfaldri húðrútínu, sérstaklega ef húðin er olíukennd eða bólugjörn og einungis nokkrar vel valdar vörur þarf að nota við slíka umhirðu. Auk þess er mikilvægt að foreldrar séu góðar fyrirmyndir fyrir börnin sín og taki samtalið um þetta mikilvæga málefni.