Sinadráttur, betri en enginn?
Sinadráttur er skyndilegur vöðvakrampi sem fylgir oftast mikill sársauki og skert hreyfigeta. Oft er hægt að þreifa fyrir hörðum vöðvahnút sem einnig getur verið sýnilegur undir húðinni.
Ástæður geta verið margvíslegar en algengast eru:
- Of mikið líkamlegt álag t.d. stífar íþróttaæfingar
- Ofþornun
- Mikil kyrrstaða t.d. standa lengi við vinnu
- Vöðvaáverki
- Steinefnaskortur: Skortur á magnesium,kalium eða kalsium geta valdið vöðvakrampa
- Lélegt blóðflæði: Vöðvakrampar í fótleggjum sem eru beint tengdir áreynslu og hverfa þegar áreynslu lýkur eru yfirleitt vegna æðakölkunar í slagæðum. Blóðflæðið er ekki nóg til vöðvanna þegar æðar eru farnar að þrengjast og stífna. Mikilvægt er að leita til læknis með þessi einkenni.
- Klemmd taug: Vöðvakrampi getur komið fram við göngu, þegar taugar neðst í hryggjaliðunum eru klemmdar eða aðþrengdar. Verkur ágerist venjulega því lengra sem gengið er.
Meðferð
Yfirleitt gengur sinadráttur yfir af sjálfu sér. Þegar krampinn stendur yfir getur hjálpað að teygja létt á vöðvanum, nota heitan þrýsting á vöðvann og kælipoka þegar krampinn er yfirstaðinn. Til að fyrirbyggja sinadrátt þarf að passa að drekka vel yfir daginn og aukalega við líkamlega áreynslu. Drykkir með steinefnum í t.d.íþróttadrykkir eða steinefnablöndur og jafnvel b-komplex vítamín hjálpa sumum. Mikilvægt er að teygja lær-og kálfvöðva fyrir og eftir æfingar og eins fyrir svefninn ef maður er gjarn á að fá sinadrátt. Sumum hefur reynst vel að gera léttar æfingar fyrir háttinn t.d. hjóla á þrekhjóli nokkrar mínútur. Í einstaka tilfellum eru gefin vöðvaslakandi lyf ef vöðvakrampar trufla ítrekað svefn.
Greinin birtist first á vef Doktor.is