Lifðu heilbrigðu lífi með sykursýki – Hagnýtar ráðleggingar og fræðsla

Almenn fræðsla Sykursýki

Sykursýki er langvinnur sjúkdómur sem veldur háum blóðsykri vegna truflana á framleiðslu eða virkni insúlíns. Insúlín er hormón sem lækkar blóðsykur og tryggir að frumur geti nýtt sykur sem orkugjafa.

Helstu tegundir sykursýki

  • Tegund 1: Sjálfsofnæmissjúkdómur þar sem brisið framleiðir ekki insúlín.
  • Tegund 2: Algengasta tegundin. Líkaminn framleiðir insúlín en nýtir það ekki nógu vel.
  • Meðgöngusykursýki: Kemur fram á meðgöngu og hverfur oftast eftir fæðingu en getur aukið líkur á tegund 2 sykursýki síðar á ævinni.

Hversu algeng er sykursýki?

Tegund 2 sykursýki er mun algengari cirka 90-95% allra tilfella sykursýki og er vaxandi heilsufarsvandamál um allan heim. Tegund 1 sykursýki er mun sjaldgæfari, um 5-10% tilfella.

Nýleg rannsókn sem kannaði algengi og nýgengi sykursýki tegundar 2 á Íslandi frá 2005-2018 sýndi að árið 2018 voru 10 600 einstaklingar með sykursýki tegund 2 1. Algengið var 4.1 % hjá karlmönnum og 3.5 % hjá konum og út frá þessum tölum var áætlað að árið 2040 myndu 24 000 einstaklingar vera með sykursýki tegund 2 á Íslandi.

Orsakir sykursýki

Tegund 1: Sjálfsofnæmissjúkdómur þar sem ónæmiskerfið ræðst á og eyðileggur insúlínframleiðandi frumur í brisi. Orsakir eru samspil erfða og umhverfisþátta.

Tegund 2: Orsakast af insúlínviðnámi, þar sem frumur líkamans hætta að svara insúlíni eðlilega, sem veldur hækkun á blóðsykri. Erfðaþættir skipta máli, en helstu áhrifaþættir lífsstíls eru offita, hreyfingarleysi og óhollt mataræði sem inniheldur mikið af einföldum kolvetnum og unnum matvælum.

Meðgöngusykursýki: Verður þegar hormónabreytingar á meðgöngu draga úr áhrifum insúlíns, sem leiðir til aukins insúlínviðnáms. Þetta veldur hækkun á blóðsykri hjá sumum konum á meðgöngu. Áhættuþættir eru meðal annars offita, fjölskyldusaga um sykursýki, háþrýstingur og hækkaður blóðsykur í fyrri meðgöngum. Konur sem fá meðgöngusykursýki eru í aukinni hættu á að þróa með sér sykursýki tegund 2 síðar á ævinni.

Einkenni sykursýki

  • Aukinn þorsti og tíð þvaglát – Hár blóðsykur eykur þvagmyndun og veldur ofþornun.
  • Þreyta og orkuleysi – Frumur fá ekki nægilega orku vegna skorts á virkni insúlíns.
  • Þokusýn – Hækkaður blóðsykur getur haft áhrif á augun og valdið óskýrri sjón.
  • Sár gróa illa og sýkingar eru tíðari – Hátt sykurmagn í blóði getur veikt ónæmiskerfið og dregið úr gróanda.
  • Breytt tilfinning, doði eða verkir í útlimum – Merki um taugaskemmdir vegna langvarandi hás blóðsykurs.

Greining sykursýki

Sykursýki er greind með blóðprufum sem mæla blóðsykur og langtímablóðsykur (HbA1c). Sjúkdómsgreining byggist á eftirfarandi viðmiðum, þar sem amk. eitt skilyrði þarf að vera uppfyllt.

  • Fastandi blóðsykur yfir 7.0 mmol/L.
  • HbA1c yfir 6.5%.
  • Blóðsykur yfir 11.1 mmol/L tveimur klukkustundum eftir sykurþolpróf.

Mæling á sjálfsofnæmismótefnum, er notuð til að greina á milli tegundar 1 og 2 sykursýki.

   Tegund 1 Tegund 2 
Orsök  Sjálfsofnæmissjúkdómur – ónæmiskerfið eyðileggur insúlínframleiðandi frumur í brisi Insúlínviðnám – líkaminn framleiðir insúlín en notar það ekki rétt
Aldur við greiningu  Algengast hjá börnum, unglingum og ungu fólki, en getur komið á hvaða aldri sem er Yfirleitt greind hjá fullorðnum, oft eftir 40 ára aldur, en sífellt algengari hjá yngra fólki
Byrjunareinkenni sjúkdóms Skyndileg – einkenni koma oft hratt fram á nokkrum vikum Hægfara – getur þróast yfir mörg ár með vægum einkennum í byrjun
Líkamsþyngd Flestir eru í kjörþyngd eða grannir við greiningu Margir eru með yfirþyngd eða offitu við greiningu
Insúlínframleiðsla Engin – líkaminn framleiðir ekkert insúlín Minnkuð – en líkaminn getur framleitt eitthvað insúlín í upphafi
Meðferð Insúlín er lífsnauðsynlegt frá upphafi Lífsstílsbreytingar og lyf
Einkenni við greiningu  Þorsti, tíð þvaglát, þyngdartap, orkuleysi, þokusýn Vægari einkenni í upphafi – þreyta, þorsti, þokusýn, oft greint fyrir tilviljun
Sykursýki í fjölskyldu  Getur verið til staðar en er sjaldgæfari Algengt að vera með fjölskyldusögu um sykursýki
Mótefni í blóði Já – mæld sjálfsofnæmismótefni (GAD, IA2, ZnT8) Nei – engin sjálfsofnæmismótefni

Tafla 1. Samanburður á sykursýki tegund 1 og 2

Meðhöndlun sykursýki

Meðferð sykursýki, bæði af tegund 1 og tegund 2, felur í sér lyfjameðferð, lífsstílsbreytingar og reglulegt eftirlit til að halda blóðsykri í jafnvægi og minnka líkur á fylgikvillum. Þó að tegundirnar séu ólíkar í orsökum og meðferð, er markmiðið ávallt að viðhalda stöðugum blóðsykri og draga úr hættu á langtímaáhrifum sjúkdómsins. 

1. Metformín (Bigvaníð)

Bæta insúlínnæmi frumna og draga þannig úr insúlínviðnámi, sem er helsta orsök sykursýki af tegund 2.

Hvernig virkar það?

  • Minnkar framleiðslu glúkósa í lifur.
  • Bætir næmi frumna fyrir insúlíni.
  • Minnkar frásog glúkósa úr þörmum.

Áhrif á fylgikvilla

  • Dregur úr hættu á hjarta- og æðasjúkdómum.
  • Getur stuðlað að hóflegri þyngdartapi.
  • Hefur góð áhrif á blóðfitur.

Aukaverkanir

  • Meltingaróþægindi (niðurgangur, ógleði).
  • Getur valdið B12-vítamínskorti við langtímanotkun.

2. GLP-1 viðtakaörvar (Glucagon-Like Peptide-1 Agonistar)

Þessi lyf líkja eftir hormóninu GLP-1, sem losnar úr þörmum eftir máltíðir og hjálpar til við að stjórna blóðsykri.

Helstu lyf í þessum flokki:

  • Semaglutíð (Ozempic, Rybelsus)
  • Liraglutíð (Victoza)

Hvernig virka þau?

  • Örva insúlínlosun eftir máltíðir.
  • Hægja á tæmingu magans og minnka matarlyst.
  • Minnka framleiðslu glúkagons, sem dregur úr blóðsykri.

Áhrif á fylgikvilla:

  • Draga úr hjartaáföllum og dauðsföllum vegna hjartasjúkdóma.
  • Lækka blóðsykur án þess að valda blóðsykursfalli.
  • Hjálpa til við þyngdartap, sem er mikilvægt fyrir marga með sykursýki.

Aukaverkanir:

  • Ógleði og meltingaróþægindi, sem minnka oft með tímanum

3. SGLT2-hemlar (Nýrnasykurhemjandi lyf)

Þessi lyf hindra upptöku glúkósa í nýrum, sem veldur því að blóðsykur skilst út með þvagi.

Helstu lyf í þessum flokki:

  • Dapagliflozin (Forxiga)
  • Empagliflozin (Jardiance)

Hvernig virka þau?

  • Lækka blóðsykur með því að auka útskilnað glúkósa um nýru.
  • Hjálpa til við að lækka blóðþrýsting og stuðla að þyngdartapi.

Áhrif á fylgikvilla:

  • Minnka hættu á hjartabilun og nýrnabilun.
  • Draga úr hættu á hjarta- og æðasjúkdómum.
  • Lækka blóðþrýsting og stuðla að þyngdartapi.

Aukaverkanir:

  • Aukin hætta á sveppasýkingum í kynfærum og þvagfærasýkingum.

4. DPP-4 hemlar (Dipeptidyl Peptidase-4 inhibitors)

Þessi lyf hindra niðurbrot GLP-1 hormónsins, sem hjálpar til við að stjórna blóðsykri eftir máltíðir.

Helstu lyf í þessum flokki:

  • Sitagliptín (Januvia)
  • Vildagliptín (Galvus)
  • Saxagliptín (Onglyza)

Hvernig virka þau?

  • Auka magn GLP-1 í líkamanum.
  • Örva insúlínlosun og minnka framleiðslu glúkagons.

Áhrif á fylgikvilla:

  • Hjálpa til við að stjórna blóðsykri án hættu á blóðsykursfalli.
  • Hafa lítil áhrif á líkamsþyngd.

5. Sulfónýlúreulyf (Insúlínörvandi lyf)

Þessi lyf hafa verið notuð lengi til að örva briskirtillinn til að framleiða meira insúlín.

Helstu lyf í þessum flokki:

  • Gliclazíð (Diamicron, Glimeryl)

Hvernig virka þau?

  • Örva insúlínframleiðslu briskirtilsins.

Aukaverkanir:

  • Geta valdið blóðsykursfalli.
  • Geta stuðlað að þyngdaraukningu.

6. Insúlínmeðferð

Insúlín er grunnmeðferð fyrir alla með tegund 1 sykursýki, þar sem líkaminn framleiðir ekki insúlín. Hjá einstaklingum með tegund 2 sykursýki getur insúlínmeðferð verið nauðsynleg ef briskirtillinn hættir að framleiða nægilegt magn insúlíns eða ef önnur lyfjameðferð skilar ekki nægilegri blóðsykurstjórnun.

Helstu gerðir insúlíns:

  • Hraðvirkt (NovoRapid, Humalog, Apidra) – Tekið rétt fyrir máltíðir.
  • Langvirkt (Lantus, Tresiba, Toujeo) – Gefið einu sinni eða tvisvar á dag til að viðhalda blóðsykursstjórnun yfir nótt og á milli máltíða.

Aukaverkanir:

  • Getur valdið blóðsykursfalli.
  • Getur stuðlað að þyngdaraukningu.

 

Lífstílinn og sykursýki.

Sykursýki af tegund 2 tengist oft lífsstíl, en það er mikilvægt að hafa í huga að bæði erfðir og umhverfisþættir spila hlutverk í þróun sjúkdómsins. Þó erfðir geti aukið áhættu, geta daglegar venjur haft mikil áhrif á blóðsykurstjórnun og almenna heilsu til lengri tíma.

Lífsstílsþættir skipta einnig miklu máli fyrir einstaklinga með tegund 1 sykursýki. Regluleg hreyfing, næringarríkt mataræði og góð streitustjórnun geta bætt líðan, hjálpað til við að halda blóðsykri stöðugum og dregið úr hættu á fylgikvillum.

Hér eru helstu atriðin sem geta haft jákvæð áhrif á blóðsykurstjórnun og vellíðan:

  • Regluleg hreyfing – bætir insúlínnæmi og hjálpar frumum að nýta glúkósa betur.
  • Hollt mataræði – trefjarík fæða, góðar fitur og hæfilegt magn kolvetna styðja við stöðugan blóðsykur.
  • Góður svefn – stuðlar að betri hormónajafnvægi og dregur úr blóðsykurssveiflum. 
  • Streitustjórnun – langvarandi streita getur hækkað blóðsykur, því er mikilvægt að finna leiðir til að draga úr álagi.

Með því að einblína á heilbrigðan lífsstíl er hægt að bæta lífsgæði, auka orku og stuðla að betri blóðsykurstjórnun, bæði hjá þeim sem eru með tegund 1 og tegund 2 sykursýki.

Fylgikvillar sykursýki og forvarnir

Langvarandi hár blóðsykur getur skemmt æðar og taugar, sem eykur hættu á fylgikvillum, sérstaklega hjá þeim með sykursýki af tegund 2. Sykursjúkir eru í meiri áhættu á hjarta- og æðasjúkdómum; karlar með sykursýki eru tvöfalt líklegri til að fá hjartaáfall en aðrir, en konur fjórfalt líklegri. Hjarta- og æðasjúkdómar eru ein algengasta dánarorsök sykursjúkra. 

Hægt er að draga úr fylgikvillum með réttri meðferð

Á síðustu árum hafa rannsóknir staðfest að hægt er að draga verulega úr fylgikvillum sykursýki með markvissri meðferð. Með því að halda blóðsykri, blóðþrýstingi og blóðfitum í góðu jafnvægi og stunda heilbrigðan lífsstíl ásamt góðri fótaumhirðu og reglulegum augnskoðunum má minnka áhættu á: Hjartaáföllum og heilablóðfalli, nýrnabilun, sjónskerðingu og blindu, fótameinum og taugaskemmdum.

Samantekt. Betri forvarnir og meðferð skila árangri

Góð blóðsykurstjórn, heilbrigður lífsstíll og reglulegt eftirlit skipta sköpum til að draga úr fylgikvillum sykursýki. Regluleg hreyfing, hollt mataræði, streitustjórnun og nægur svefn hjálpa til við að viðhalda heilbrigði og bæta lífsgæði sykursjúkra. Með nútímameðferð og fræðslu eru meiri líkur en nokkru sinni fyrr á að sykursjúkir geti lifað heilbrigðu og virku lífi með minni hættu á alvarlegum fylgikvillum.

Sigríður Björnsdóttir, Innkirtla- og efnaskiptalæknir.
Heilsuklasinn, Reykjavík.

Heimildir

1. Læknablaðið, 2021; 107; 227-233, Algengi og nýgengi sykursýki 2 á Íslandi frá 2005 til 2018