Hvað er lús?

Algengir kvillar

  • IStock_88442153_SMALL

Nú er lúsin farin að stinga sér niður eina ferðina enn í skólum landsmanna. Lúsin fer ekki í manngreiningarálit, það geta allir smitast, en smit er algengast hjá 3-11 ára börnum. Lúsin er afar hvimleið, en hún er ekki á neinn hátt hættuleg.

Á hverju ári stingur lúsin sér niður í leikskólum og grunnskólum landsins. Það er mikilvægt að skólayfirvöld séu látin vita strax ef lús finnst í skólabarni því mikilvægt er að stoppa faraldurinn strax. Til þess að það sé hægt þarf að finna og lækna alla sem hafa smitast, í fjölskyldunni, skólanum og á vinnustaðnum.

Höfuðlúsin smitast aðallega við það að höfuð snertast, skipst er á höfuðfötum, hárburstum, koddum eða öðru slíku. Lúsin verður þó fljótt máttvana utan líkamans og er talið að hún deyi á um það bil 15-20 klukkustundum.

Útlit

Höfuðlúsin er lítið en þó sjáanlegt skordýr, 2-4 mm að stærð (svipað sesamfræi), grá eða ljósbrún að lit. Það getur verið erfitt að koma auga á lúsina þar sem hún er oft samlit hörundinu, snör í snúningum og forðast ljós. Þegar lýsnar eru fullþroska um 8 – 10 daga gamlar verpa þær eggjum, allt að tíu á dag. Eggin kallast nit, en nitin sést oft betur en lúsin sjálf er um 1mm að stærð, finnst helst í hnakka, hnakkagróf eða bak við eyru. Nitin er eins og silfraður hnúður á hárinu niðri við hársvörðinn.

Einkenni

Lúsin getur verið einkennalítil, en aðeins einn af hverjum þremur sem smitast fær kláða. Þegar lúsin sýgur spýtir hún deyfiefni með munnvatninu sem gerir það að verkum að einungis einn af hverjum þremur sem smitast fá kláða, en það eru þeir sem hafa ofnæmi fyrir munnvatninu. Finnist lifandi lús í hárinu er það klárt merki um smit. Það er mælt með því að kemba hárið með lúsakambi til að kanna hvort um smit sé að ræða. Gott er að kemba yfir hvítu blaði eða spegli til að greina það strax ef lýs falla niður. Mörgum finnst betra að kemba blautt hár með næringu, sérstaklega ef hárið er sítt. Nauðsynlegt er að fara vandlega í gegnum allt hárið.

Meðferð

Meðferð er ekki alltaf einföld, sérstaklega ef ekki er nægjanlega vandað til hennar í upphafi og oft þarf að meðhöndla aðra í fjölskyldunni eða nánasta umhverfi þess smitaða.

Það er hægt að fá lúsameðal án lyfseðils í næstu lyfjaverslun, þessi efni eru borin í hárið í þeim tilgangi að drepa lúsina og nitin. Afar mikilvægt er að fara nákvæmlega eftir leiðbeiningum sem fylgja. Samhliða því þarf jafnframt að:

  • Skoða aðra í nánasta umhverfi
  • Meðhöndla þá sem eru með lús samtímis
  • Kemba skal daginn eftir að meðferð var beitt til að athuga hvort meðferðin hafi heppnast og síðan er nauðsynlegt að kemba annan hvern dag í 10 daga þar á eftir.
  • Endurtaka skal meðferðina sjö dögum eftir upphaflegu meðferðina
  • Reynst hefur ágætlega að frysta höfuðföt, kodda, tuskudýr og annað þvíumlíkt í að minnsta kosti 4 klst við –20°C.

 Hér á landi eru á markaði nokkrar tegundir efna til meðhöndlunar á lúsasmiti. Þessi efni eru ólík og er nauðsynlegt að kynna sér kosti og galla þeirra þegar ákveðið er hvaða efni skuli valið. Starfsfólk apótekanna er vel að sér um eiginleika efnanna og hefur jafnvel þekkingu á því hvernig þau hafa reynst. Leitið því endilega ráða í næsta apóteki ef upp kemur lúsasmit á heimilinu, fylgið nákvæmlega leiðbeiningum þess efnis sem valið er að meðhöndla með.

Greinin fengi frá Doktor.is

Spurt og svarað

Hvaða lúsakamb á ég að nota?

Vandaður og góður lúsakambur fjarlægir höfuðlús og egg einfaldlega með því að greiða í gegnum hárið. Mörgum finnst gott er að nota stál kamba þar sem þeir gefa ekki jafn mikið eftir. Plast kambar eru samt sem áður alveg jafn nothæfir og þú finnur lúsina mjög auðveldlega með þeim.

Hjá Lyfju færðu margar tegundir af Lúsakömbum, en án efa þá eru vinsælustu kambarnir 

Nitty Gritty kambarnir og Medisana rafmagns lúsakambur.