Hvað er Bólusetning?
Bólusetning er ónæmisaðgerð sem ætlað er að koma í veg fyrir alvarlegan smitsjúkdóm.
Bóluefnin eru ýmist unnin úr veikluðum veirum, bakteríum eða þau innihalda efni sem finnast í þessum sýklum. Bóluefnin sjálf valda oftast litlum einkennum en vekja upp mótefnasvörun í líkamanum sem kemur í veg fyrir eða dregur úr líkum á að fólk veikist af sjúkdómum sem bólusett er gegn.
Bólusetningar hafa verið almennar hér á landi í marga áratugi og þátttaka í þeim er mikil, einkum í bólusetningu barna. Þetta er mjög mikilvægt þar sem farsóttum verður ekki haldið í skefjum nema þorri fólks sé bólusettur. Brýnt er að bólusetningar barna nái til nær allra barna í hverjum fæðingarárgangi. Með því móti er unnt að mynda svonefnt hjarðónæmi gegn skæðum smitsjúkdómum, sem þýðir að ónæmi gegn þeim verður nægilega algengt í landinu til þess að koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdómanna, jafnvel þótt vart verði við einstök tilfelli.
Vegna almennrar þátttöku landsmanna í bólusetningum hefur ekki verið talin þörf á að gera bólusetningu að skyldu. Bólusetningar barna sem eiga lögheimili á Íslandi eru forráðamönnum þeirra að kostnaðarlausu en fullorðnir og ferðamenn greiða sjálfir kostnað við bólusetningar. Sérstakar bólusetningar, sem gripið er til vegna opinberra sóttvarnaráðstafana, eru fólki að kostnaðarlausu.
Alvarlegar aukaverkanir bólusetninga eru mjög fátíðar en geta sést hjá u.þ.b einum af hverjum 500.000-1.000.000 bólusettum. Hugsanlegur skaði af bólusetningu er því margfalt minni en sá skaði sem hlýst af sjúkdómnum sem bólusetningin kemur í veg fyrir.
Bólusetningar byggja á reglugerð nr. 221/2001 sem á sér stoð í sóttvarnalögum nr. 19/1997
Síðast uppfært á síðu embættis landlæknis 09.01.2019