Barnaexem
Nafnið exem er notað um ýmsar tegundir útbrota sem lýsa sér með roða, blöðrum, hreistri, brúnum lit, þykknun og kláða og útbrotin geta verið vessandi.
Sérstök tegund exems er ofnæmisexem (atopic eczema eða dermatitis) og þegar það kemur fram hjá ungum börnum er það oftast kallað barnaexem. Barnaexem gerir venjulega ekki vart við sig fyrr en barnið er 2-3 mánaða gamalt. Það er algengara hjá strákum en stelpum og venjulega er ættarsaga um ofnæmissjúkdóma eins og ofnæmisexem, ofnæmiskvef, astma eða annað þess háttar til staðar. Eins og með svo marga aðra sjúkdóma þá erfist tilhneigingin að fá barnaexem og síðan þurfa vissir umhverfisþættir að vera til staðar til að sjúkdómurinn geri vart við sig. Einn áberandi umhverfisþáttur er t.d. að brjóstmylkingar fá síður barnaexem en pelabörn.
Einkenni
Barnaexem byrjar venjulega þegar barnið er nokkurra mánaða gamalt með rauðum, vessandi og klæjandi skellum í andliti, hársverði, bleyjusvæði og útlimum. Hjá eldri börnum er staðsetningin oft dálítið önnur, í hnésbótum, olnbogabótum, við ökkla og úlnliði, á augnlokum og hnakka. Þó að þetta séu algengustu staðirnir getur ofnæmisexem verið nánast hvar sem er á líkamanum. Barnaexemi fylgir kláði sem stundum getur verið mikill og börnin reyna að sjálfsögðu að klóra sér eða nudda útbrotunum við eitthvað. Mikilvægt er að hindra þetta með öllum tiltækum ráðum, m.a. stífum naglaklippingum og jafnvel spelkum á handleggi; þau geta auðveldlega klórað sig til blóðs og þá er hætta á sýkingu og örmyndun. Þetta ástand getur reynt mjög á þolrif barns og foreldra og sumir þurfa aðstoð og hvíld af og til. Flest börn losna við útbrotin innan 2-4 ára en þau eru í dálítilli hættu að fá þau aftur á unglings eða fullorðinsárum.
Ekki er hægt að lækna ofnæmisexem, en ýmislegt er hægt að gera til að halda því í skefjum. Stundum er hægt að finna og síðan forðast eitthvað sem gerir ástandið verra og má þar nefna streitu, hita- og rakabreytingar, ilmefni, mýkingarefni fyrir þvott og föt úr ull eða öðrum efnum sem geta ert húðina. Einstaka sinnum (hjá um 10% sjúklinganna) er hægt að bæta ástandið eitthvað með því að forðast vissar fæðutegundir og má þar nefna kúamjólk, soja, egg, fisk, hveiti og jarðhnetur. Þetta er mjög einstaklingsbundið og verður að finna í hverju tilfelli hvaða fæðutegund ætti að forðast. Rykmaurar í rúmfatnaði, dýnum, bólstruðum húsgögnum og teppum geta í sumum tilfellum gert ofnæmisexem (barnaexem) verra. Oft þarf að grípa til sterasmyrsla eða krema og er þá mikilvægt að nota einungis mildustu tegundirnar, eða þær sem fást án lyfseðils, og ekki bera þau á nema í mesta lagi þrisvar á dag. Ef grípa þarf til sterkari lyfja á einungis að nota þau í stuttan tíma í senn. Stundum er hægt að minnka notkun sterasmyrsla með því að bera matarolíu á húðina á milli þess sem sterasmyrslið er notað. Matarolía (eða önnur heppileg jurtaolía) mýkir húðina og kemur í veg fyrir að hún þorni of mikið.