Alnæmi/HIV
HIV er alvarlegur og lífshættulegur sjúkdómur, þróist sjúkdómurinn án meðferðar.
Smitar HIV í daglegri umgengni?
HIV smitar ekki í daglegri umgengni. Algjörlega hættulaust er því að búa á sama heimili eða vera í daglegu samneyti við þann sem er smitaður að HIV/alnæmi.
Hvernig get ég komið í veg fyrir smit?
Smokkurinn er EINA vörnin gegn smiti. Til þess að hann veiti hámarksvörn verður að nota hann rétt. Sprautufíklar skulu gæta þess að deila aldrei sprautum eða sprautunálum með öðrum.
Er HIV hættulegur sjúkdómur?
HIV er alvarlegur og lífshættulegur sjúkdómur, þróist sjúkdómurinn án meðferðar. Engin lækning er til við honum og hún er heldur ekki í augsýn.
Hver eru einkenni HIV og hvenær koma þau í ljós?
Hluti nýsmitaðra fá einkenni fáeinum dögum eða vikum eftir smit. Helstu einkennin eru almennur slappleiki, hálssærindi, eitlastækkanir, útbrot, höfuðverkur og vöðva- og liðverkir sem ganga oftast yfir á 1-2 vikum. Eftir það eru flestir einkennalausir í mörg ár, en veiran vinnur smám saman á vörnum líkamans og skemmir ónæmiskerfið.
Hvað er alnæmi?
Alnæmi er lokastig sjúkdómsins og vísar orðið til sjúkdóma og einkenna sem HIV-jákvæðir fá þegar ónæmiskerfið fer að bresta. Þetta gerist oftast mörgum árum eftir smit. Þegar fólk er komið með alnæmi fær það sjúkdóma sem ósmitað fólk fær sjaldan, þar sem ónæmiskerfi þeirra hefur misst getuna til að berjast við sjúkdóma. Sá sem er kominn með alnæmi deyr oftast innan fárra ára, sé ekki beitt lyfjameðferð, en hún bætir horfurnar verulega.
Hvernig er hægt að greina HIV/alnæmi?
HIV-smit er greint með blóðprufu sem hægt er að taka hjá hvaða lækni sem er. Blóðprufan er ókeypis og farið er með hana í trúnaði. Þegar HIV kemst inn í blóðið þróar líkaminn mótefni sem hægt er að finna með HIV-mótefnamælingu allt að þremur mánuðum eftir smit. Jákvætt HIV-próf þýðir að það hafa fundist mótefni gegn HIV í blóðinu og að þú sért því HIV-smitaður. Neikvætt HIV-próf þýðir aftur á móti að þú sért ekki smitaður af HIV. Niðurstöður HIV-prófs fást nokkrum dögum eftir að blóðprufa er tekin.
Er hægt að fá meðferð við HIV/alnæmi?
Dagleg inntaka HIV-lyfja það sem eftir er ævinnar getur dregið úr fjölgun veirunnar í líkamanum og þar með bætt líðan og lengt líf HIV-jákvæðra. Lyfjatökunni geta fylgt aukaverkanir.
Hvað með þá sem ég hef sofið hjá?
Hafir þú sofið hjá einhverjum frá því þú smitaðist, getur verið að einhver þeirra hafi smitast af HIV. Því er mikilvægt að fyrri bólfélagar séu látnir vita. Þú getur sjálf/sjálfur látið þá vita eða þú getur beðið lækninn þinn um að skrifa þeim án þess að nafn þíns sé getið. Í öllum tilvikum er þó skylt að gefa upplýsingar um bólfélaga. Með því að hvetja þá sem þú hefur sofið hjá til að fara í skoðun getur þú komið í veg fyrir að þeir smiti þá sem þeir sofa hjá í framtíðinni. Þannig getur þú komið í veg fyrir útbreiðslu þessa alvarlega sjúkdóms.
Efni fengið af heimasíðu Landlæknis birt með góðfúslegu leyfi.
Gagnlegir tenglar
Staðreyndir um HIV og alnæmi - bæklingur
HIV-Ísland