Almennt um kynsjúkdóma
Sjúkdómar sem smita við samfarir nefnast kynsjúkdómar. Smit á sér oftast stað við beina snertingu slímhúða.
Hvað er kynsjúkdómur?
Sýklar sem valda kynsjúkdómum lifa einungis við líkamshita og deyja utan líkamans. Allir vita um tilvist kynsjúkdóma en fáir tala um þá. Fordómar gagnvart kynsjúkdómum eru útbreiddir og vanþekking á þeim er algeng. Vegna fordóma dregur fólk oft að leita læknis, finnst það bæði óþægilegt og skammarlegt. Líkurnar á því að fá kynsjúkdóm aukast eftir því sem rekkjunautar eru fleiri. Hins vegar geta allir fengið kynsjúkdóm, jafnvel þótt rekkjunautur hafi aðeins verið einn. Sjúkdómarnir eru algengastir hjá ungu fólki sem ekki er á föstu. Við ný kynni eru mestar líkur á að smitast af kynsjúkdómi. Mögulegt er að hafa fleiri en einn kynsjúkdóm samtímis og af sumum þeirra er hægt að smitast oftar en einu sinni.
Hver eru einkenni kynsjúkdóma?
Kynsjúkdómar valda oft litlum sem engum einkennum. Því er hægt að ganga með þá lengi og smita aðra án þess að vita af því. Þá er talað um að sýkingin sé í dvala eða að hún blundi. Algengustu sjúkdómseinkenni eru útferð, kláði og sviði við þvaglát. Hjá körlum er útferð nær alltaf merki um sýkingu. Útferð hjá konum getur aftur á móti verið eðlileg og breytileg eftir því hvar í tíðahringnum konan er stödd. Sumir kynsjúkdómar valda sárum og vörtum á kynfærum.
Hvaða skaða geta kynsjúkdómar valdið? Sumir kynsjúkdómar geta valdið varanlegum skaða ef rétt meðferð er ekki gefin fljótlega eftir smit. Algengust er bólga í eggjaleiðurum en hún getur valdið utanlegsfóstri og jafnvel ófrjósemi. Bólga í eistum getur orsakað ófrjósemi hjá körlum. Sumir kynsjúkdómar geta valdið alvarlegum, síðkomnum einkennum. Sárasótt getur m.a. valdið skemmdum í æða- og miðtaugakerfi og alnæmi er ólæknandi sjúkdómur sem kostar ævilanga meðferð á dýrum lyfjum sem geta valdið bagalegum aukaverkunum.
Hvernig er hægt að verjast kynsjúkdómum?
Notkun smokks er góð getnaðarvörn og getur einnig komið í veg fyrir kynsjúkdóma, sé smokkurinn notaður allan tímann meðan á samförum stendur. Þannig má forðast afleiðingar sýkinga og forðast ófrjósemi af völdum þeirra. Einnig er hægt að láta vel hvort að öðru með kossum, gælum eða náinni snertingu án þess að samfarir eigi sér stað. Skyndikynni eru sérlega varasöm. Best er að forðast þau, nota smokk á réttan hátt eða gera kröfu um að rekkjunauturinn geri það. Því færri rekkjunautar, þeim mun minni líkur á smiti!
Hvað ber að gera við grun um kynsjúkdóm? Leita læknis! Tillit og umhyggja er hluti af góðu kynlífi. Það er því sjálfsögð tillitsemi við núverandi eða fyrrverandi rekkjunauta að gera þeim viðvart ef grunur leikur á smiti af völdum kynsjúkdóms eða það hefur verið greint þannig að þeir geti einnig leitað læknis. Ef erfitt er að láta fyrrverandi rekkjunauta vita af hugsanlegu smiti getur hjúkrunarfræðingur eða læknir aðstoðað, t.d. með bréfi til viðkomandi. Ef eitthvert atriði er óljóst er alltaf hægt að leita ráða hjá lækni eða hjúkrunarfræðingi með símtali eða heimsókn. Þessi atriði eru sérstaklega mikilvæg til að hefta útbreiðslu þeirra sjúkdóma sem valda litlum einkennum. Allt heilbrigðisstarfsfólk er bundið þagnarskyldu. Þeir sem vinna við meðferð og varnir gegn kynsjúkdómum hlíta þessu út í ystu æsar.
Efni fengið af heimasíðu Landlæknis birt með góðfúslegu leyfi. Sóttvarnalæknir Landlæknisembættinu september 2001.