Sínk
Sínk er snefilefni og er nauðsynlegt mörgum ensímum til að geta starfað eðlilega. Engir geymslustaðir virðast vera fyrir sínk í líkamanum, þess vegna þarf það að berast reglulega með fæðu eða vera tekið inn sem fæðubótarefni.
Heiti
Zínk, sínk.
Uppspretta
Korn, lifur, kjöt, fiskur, hnetur og ostrur.
Verkun
- Nauðsynlegt til að viðhalda eðlilegri sjón og dregur úr hættu á sjúkdómnum sjóndílsrýrnun (macular degeneration) en hann veldur blindu hjá eldra fólki.
- Nauðsynlegt til að viðhalda eðlilegu ónæmiskerfi.
- Tekur þátt í kjarnsýruframleiðslu (DNA og RNA).
Með hliðsjón af fjölda vel útfærðra tilrauna með sínk virðist það vera tiltölulega áhrifaríkt og öruggt að því tilskildu að það sé notað í því magni sem mælt er með.
Notkun - verkun
- Viðheldur eðlilegri sjón.
- Fyrirbyggir kvef, húðsjúkdóma, ófrjósemi, alkóhólisma og magasár.
- Virkjar heilann (increase brain-power).
- Dregur úr matarlyst.
- Hreinsar lifrina.
- Sindurvari.
- Dregur úr lykt- og bragðtruflunum hjá eldra fólki.
- Hraðar græðslu sára.
Ráðlagðir dagskammtar
Ungbörn < 6 mán | --- |
Ungbörn 6-23 mán | 5 mg* |
Börn 2-5 ára | 6 mg |
Börn 6-9 ára | 7 mg |
Karlar 10-13 ára | 11 mg |
Karlar 14-17 ára | 12 mg |
Karlar > 18 ára | 9 mg |
Konur 10-13 ára | 8 mg |
Konur 14-17 ára | 9 mg |
Konur > 18 ára | 7 mg |
Konur á meðgöngu | 9 mg |
Konur með barn á brjósti | 11 mg |
*mg = milligrömm
Þeim sem neyta jurtafæðu er ráðlagt að neyta 25-30% meira af sínki.
Sínkskortur
Skortur á sínki er fátíður en getur gert vart við sig hjá sjúklingum sem fá næringu í æð. Eldra fólki er hættara við sínkskorti, bæði er að það neytir síður sínkríkrar fæðu og hæfileikar líkamans til að frásoga sínk fara þverrandi með aldrinum.
Skortur á sínki kemur fram í:
- minni matarlyst,
- lélegri starfsemi kynkirtla,
- hægari græðslu á sárum,
- óeðlilegu bragð-, sjón- og lyktarskyni.
Sínkeitrun
Einkenni frá meltingarvegi eru ógleði, uppköst og niðurgangur. Lækkun á HDL-kólesteróli (góðu kólesteróli) ef of stórir skammtar eru teknir af sínki.
Aukaverkanir
Mjög sjaldgæfar ef teknir eru ráðlagðir dagskammtar af sínki.
Milliverkanir
- Stórir skammtar af sínki geta valdið skorti á kopar og öfugt því að sínk og kopar keppast um frásog frá meltingarvegi.
- Járn og kalk geta dregið úr frásogi sínks.
- Þvagræsilyf auka útskilnað á sínki úr líkamanum.
- Sínk getur minnkað frásog tetrasýklínsambanda (sem eru sýklalyf).
Frábendingar
Engar þekktar.
Heimildir
H. R. Jóhannesson, S. Ó. Ólafsson. Bætiefnabókin, Handbók um vítamín, steinefni og fæðubótarefni. 1995 Mál og menning, Reykjavík. Bls. 77-78.
R. Marcus, A. M. Coulson. The Vitamins, Introduction. Goodman & Gilman´s The pharmacological basis of therapeutics 9th edition. 1996 McGraw-Hill, New York. Bls. 1549.
A.Peirce. Practical Guide to Natural Medicines. 1999, A Stonesong Press Book William Morrow and Company INC, New York. Bls. 696-697.
www.landlaeknir.is
(Ráðlagðir dagskammtar uppfærðir í febrúar 2014 skv. leiðbeiningum frá Embætti landlæknis; Jóna Valdís Ólafsdóttir, lyfjafræðingur).