Mangan

Steinefni og snefilefni

  • Mangan

Mangan er lífsnauðsynlegt efni og er því ætíð til staðar í líkamanum. Mangan er aðallega geymt í orkukornum í líkamsfrumunum.

Heiti
Mangan, manganese. Manganviðbætur eru annað hvort manganglúkónat eða mangansúlfónatsölt.

Uppspretta
Óunnið korn og hnetur, kjöt, skelfiskur og mjólk.

Verkun
Mangan er hjálparefni fyrir ensím en þau stuðla að samtengingu kólesteróls og fitusýra í líkamanum.

Notkun - verkun

  • Virðist nauðsynlegt til eðlilegrar æxlunar hjá dýrum. 
  • Áhrif á myndun taugaboðefnisins dópamíns í heila.

Ráðlagðir dagskammtar
Embætti landlæknis hefur ekki gefið út ráðlagða dagskammta fyrir mangan en eftirfarandi upplýsingar eru fengnar erlendis frá:

Ungabörn 0-6 mán 0,3-0,6 mg
Ungabörn 6-12 mán 0,6-1,0 mg
Börn 1-3 ára 1,0-1,5 mg
Börn 4-6 ára 1,5-2,0 mg
Börn 7-10 ára 2,0-3,0 mg
Fullorðnir >10 ára 2,0-5,0 mg    

Manganskortur
Skortseinkenni í mönnum eru óþekkt en hjá dýrum koma þau fram í minnkaðri blóðstorknun og hár- og naglavöxtur stöðvast. Mangan virðist hafa áhrif á taugakerfið því að tilraunadýr er skortir mangan fá krampa sem minnir á flogaveiki.

Manganeitrun

  • Skammtar allt að 10 mg virðast vera hættulitlir. 
  • Mangan sem við fáum úr fæðu fylgja óverulegar eiturverkanir. 
  • Mangan í andrúmslofti getur valdið geðrænum eiturverkunum, svokölluðu manganbrjálæði.

Aukaverkanir
Óþekktar fyrir utan eiturverkanir.

Milliverkanir
Sýrubindandi lyf, trefjar og til að mynda sútunarefni (sem er í tei) draga úr frásogi mangans frá meltingarvegi. Gæti milliverkað við lyf sem hafa áhrif á boðefnið dópamín en það eru sum geðlyf og lyf við parkinsonssjúkdóm.

Frábendingar
Engar þekktar.

Heimildir
H. R. Jóhannesson, S. Ó. Ólafsson Bætiefnabókin, handbók um vítamín, steinefni og fæðubótarefni. Mál og Menning, Reykjavík 1995. Bls 81-82.

Anna Elín Kjartansdóttir, Valdís Beck og Þóra Jónsdóttir, lyfjafræðingar.