Sykursýki og augnheilsa

Almenn fræðsla Augun Sérfræðingar Lyfju

Jóhannes Kári augnlæknir fræðir um áhrif ómeðhöndlaðrar sykursýki á augun. Sykursýki er ein algengasta orsök blindu meðal ungra og miðaldra vesturlandabúa. Orsök þessa eru sértækar skemmdir sem sykursýki getur unnið í augnbotni/sjónhimnu einstaklinga með sykursýki.

https://www.youtube.com/watch?v=6g88gVuMTrA

Þessar skemmdir eru algengari eftir því sem viðkomandi hefur verið lengur með sjúkdóminn og eru mjög háðar því hversu vel sykursýkinni er haldið niðri, þ.e. hversu góður langtímablóðsykur er. 

Sykursýkisskemmdir í sjónhimnu er skipt í ekki-nýæðamyndandi og nýæðamyndandi. Í fyrrnefnda hópnum er um að ræða blæðingar og leka frá æðum, en sykursýkin er sjúkdómur sem leggst fyrst og fremst á miðlungsstórar og minni slagæðar, svokallaða slagæðlinga um allan líkama. Í augunum verða þessar æðar stundum gegndræpar og leka próteini og jafnvel blóði. Því einkennast þessar skemmdir af hvítum próteinútfellingum og blæðingum. Stundum verður bjúgur eða vökvasöfnun í sjónhimnu og getur það haft áhrif á sjón ef bjúgurinn verður í þeim stað sjónhimnu þar sem skarpa sjónin er. Nýæðamyndun getur síðan skapast þegar verður vöntun á blóði og þar með súrefni í sjónhimnu. Þessar æðar eru viðkvæmar, blæða auðveldlega og geta valdið skyndilegu sjóntapi. Minnka má líkur á sjóntapi í sykursýki um a.m.k. helming með reglubundnu eftirliti og tímabærri meðferð með laser eða lyfjum. Því er mikilvægt að sykursjúkir séu í reglulegu augneftirliti, til viðbótar við sitt almenna sykursýkiseftirlit, á a.m.k. á 2 ára fresti.

Augun_vorur_1350x350_vorur