Svefn ungbarna - nokkur góð ráð
Góð ráð frá Örnu Skúladóttur barnahjúkrunarfræðingi um svefn ungbarna. Arna veitir m.a ráð um reglulegan svefntíma barna og huggunartækni.
- Reglulegur svefntími (dag- og nætursvefn)
Best er að svefntímar barna séu þeir sömu alla daga vikunnar. Kröfur foreldra til barna sinna þurfa að vera raunhæfir. Skynsamlegt er að foreldrar skoði vökutíma barna ekki síður en svefntíma. - Huggunartæki
Mörg börn vilja hafa einhvers konar huggunartæki eins og bangsa, teppi eða snuð þegar þau fara að sofa. Ef venja á barn á öryggis- eða huggunartæki þarf að hafa það hjá barninu þegar því líður vel til dæmis þegar barnið er knúsað, það er að drekka, lesið er fyrir það eða þegar barnið er nuddað. - Fyrir svefn
Síðasti klukkutíminn fyrir svefn ætti að vera rólegur og notalegur tími. Síðustu mínútur þess klukkutíma er gott að framkvæma nokkrar athafnir í reglubundinni röð tiul dæmis að lesa, kúra eða drekka og síðan er barnið lagt í rúmið sitt, talað rólega við það eða sungið og því boðið góða nótt. Setjið barnið syfjað í rúmið sem það á að sofa í, en ekki þegar það er sofnað. - Sömu aðstæður
Barnið þarf að sofa við sömu aðstæður og það á að vera í yfir nóttina til dæmis í sama herbergi og það á að sofa í, í sama rúmi, með sama bangsann og svo framvegis. Einnig er gott að sá sem ætlar að sinna barni fyrir nóttina, leggi það líka til svefns. Það er eðlilegt að börn rumski yfir nóttina en ef barn rumskar og sér að það er á öðrum stað og hugsanlega við allt aðrar aðstæður en það var við þegar það sofnaði, er mun líklegra að það gráti eða finni fyrir óöryggi eða reiði.
Horfðu á fyrirlestur um svefn ungbarna sem tekin var upp í lifandi streymi með Örnu Skúladóttir á facebooksíðu Lyfju, Smelltu hér.
Mynd: Luma Pimentel on Unsplash