Næring á meðgöngu

Almenn fræðsla Móðir og barn Nýtt líf – nýtt hlutverk

Næring á meðgöngu skiptir ekki aðeins sköpum fyrir vöxt og þroska barnsins í móðurkviði – hún er líka lykilatriði fyrir vellíðan og heilsu þeirra sem ganga með barn.

Næringarefni og grunnþarfir

Þegar fjallað er um næringarefni og upptalningu þar á, er mikilvægt að hafa í huga að lykilatriðið er að tryggja að líkaminn sé ekki í skorti. Það skilar engum ávinningi að fá meira af ákveðnu næringarefni en líkaminn hefur raunverulega þörf fyrir – og það á sérstaklega við á meðgöngu!

Ekki er þörf á sérfæði á meðgöngu, en fjölbreytt og næringarríkt mataræði sem inniheldur að mestu leyti mat sem er í sínu upprunalega formi — fullnægir næringarþörfum bæði móður og barns. Þá erum við að tala um grænmeti og ávexti, hnetur, fræ, baunir og ber, kjöt, fisk, egg og hreinar mjólkurafurðir og hjartvænar olíur.

Fæðuöryggi og bætiefni

Þó er öllum sem barnshafandi eru ráðlagt að taka fólínsýru og D-vítamín. ólínsýra dregur úr líkum á fósturskaða og D-vítamín styrkir bein og ónæmiskerfi, bæði móður og barns. Það er líka mikilvægt að gæta öryggis í fæðuvali. Ráðlagt er að forðast hráar eða ógerilsneyddar afurðir eins og hráan fisk, hrá egg og ógerilsneyddar mjólkurvörur. Hráar baunaspírur ætti að sleppa alveg, og túnfisk í dós ætti ekki að borða oftar en tvisvar í viku.

Fjölbreytni lykilatriði

Fjölbreytni er lykilatriði. Borðið nóg af grænmeti, ávöxtum, heilkorni og hollri fitu. Fiskur er líka mikilvægur – mælt er með því að borða hann tvisvar til þrisvar sinnum í viku á meðgöngu, þar af amk einu sinni feitan fisk. Síðustu 13 vikur meðgöngunnar þrefaldast heili barnsins að þyngd og litli heili eykur yfirborð sitt um 30-falt. Á þessum tíma eru góðar fitusýrur eins og DHA-ríkar omega-3 fitusýrur sérstaklega mikilvægar – svo ekki sleppa fisknum! Gott er samt að muna að allir eru með næringarforða í líkamanum, þar sem fituleysanleg vítamín eins og A, D, E og K eru geymd og nýtt eftir þörfum. Hins vegar eru vatnsleysanleg vítamín eins og B-vítamín og C ekki geymd á sama hátt, svo það þarf að fá þau reglulega úr fæðunni. Svo gætið þess að borða nóg af grænmeti, og íhuga bætiefni ef ekki sést fram á að fá öll nauðsynleg vítamín úr daglegu mataræði. Að skera niður grænmeti að kvöldi eða morgni og setja í nestisbox til að japla á yfir daginn er frábær leið til að fá meira af trefjum og næringarefnum – og fáðu fjölskyldumeðlimi til að hjálpa til!

Meðgangan er einstakt tímabil þar sem næring skiptir jú máli, en stundum gera ógleði, skyndileg matvendni eða yfirþyrmandi þreyta vart við sig —og þá er allt í lagi að gera það sem þarf til að komast í gegnum daginn og sýna sér sjálfsmildi. Við erum öll að gera okkar besta.

LYF_Appid_Heim_2025_700x350