Lyfju appið
Í Lyfju appinu getur þú verslað lyfseðilsskyld lyf og fengið þau send frítt heim að jafnaði innan 60 mínútna í stærstu þéttbýlisstöðum landsins eða sótt í næstu Lyfju þegar þér hentar. Í Lyfju appinu getur þú einnig verslað hjúkrunar- og heilsuvörur og fengið sendar heim.
Hægt er að panta símatíma hjá lyfjafræðingi til að fá ráðgjöf varðandi lyf þér að kostnaðarlausu. Lyfjafræðingur hefur þá samband daginn eftir á þeim tíma dags sem hentar þér. Hægt er að velja tíma virka daga á milli 9-12 og 13-16.
Lyfju appið sendir heim á stærstu þéttbýlisstöðum landsins en einnig er hægt að velja að sækja pöntun í apótek.
Í Lyfju appinu getur þú:
- Séð hvaða lyfseðla þú átt í gáttinni
- Pantað lyf
- Pantað lausasölulyf
- Pantað heilsu- og hjúkrunarvörur
- Sótt pöntun í næsta apótek Lyfju
- Sótt um umboð til að versla fyrir aðra
- Fengið lyfin send heim samdægurs í stærstu sveitarfélögum landsins
- Séð verð á lyfjum og stöðuna í greiðsluþrepakerfi Sjúkratrygginga Íslands
- Fengið ráðgjöf sérþjálfaðra starfsmanna í netspjalli Lyfju
- Pantað símatíma hjá lyfjafræðingi til að fá ráðgjöf varðandi lyf þér að kostnaðarlausu.
Algengar spurningar
Hvernig næ ég í appið?
Hægt er að sækja appið fyrir Android og iOS stýrikerfin á markaðstorgum þeirra. Sjá Google Play hér og App store hér.
Hvernig skrái ég mig inn í appið?
Þar sem appið sækir heilbrigðisupplýsingar úr miðlægri gátt Embættis Landlæknis, þá eru rafræn skilríki skilyrði fyrir notkun og innskráningu. Hægt er að nálgast rafræn skilríki hjá bönkum, sparisjóðum og Auðkenni.
Þegar rafræn innskráning hefur heppnast er hægt að skrá sig með fyrirframvöldum fjögurra stafa lykilkóða, en einnig augn- eða fingrafaraskanna sé það leyft af notanda. Slík innskráning nýtist þegar appið og notað innan tveggja klukkustunda frá skráningu með rafrænum skilríkjum af öryggissjónarmiðum.
Hvað gerist ef ég gleymi PIN númerinu?
Ef PIN númerið er gleymt, þá er hægt að taka appið úr símanum og setja það inn aftur. Notendaupplýsingar haldast inni við þessa aðgerð.
Hvaðan koma upplýsingarnar um mig?
Upplýsingar um rafræna lyfseðla og ávísanir eru sóttar úr lyfseðlaskrá Embættis Landlæknis. Upplýsingar um greiðsluþátttöku eru sóttar úr sambærilegri gátt Sjúkratrygginga Íslands, en allar tengingar og vistun gagna hafa verið samþykktar í sérstakri öryggisúttekt. Allar spurningar varðandi gagnaöryggi sendist á app@lyfja.is
Hvaða upplýsingum hef ég aðgang að?
Innskráður einstaklingur sér upplýsingar um sig sjálfan og þá aðila sem skráðir eru á sama fjölskyldunúmer. Börn á fjölskyldunúmeri notanda eru sýnilegir upp að 16 ára aldri, en við þann aldur öðlast börn sjálfstæðan rétt til að fá læknisþjónustu án vitundar foreldra/forráðamanna.
Hvernig virkar umboðslausnin?
Umboðslausn Lyfju er sérsmíðuð lausn sem gerir innskráðum notendum kleyft að sækja um aðgang að lyfjaupplýsingum þriðja aðila. Þegar sótt hefur verið um umboð og það undirritað rafrænt, þá birtist umboðsveitandi í skjámynd innskráða notandans, rétt eins og um aðila á hans fjölskyldunúmeri væri að ræða.
Umboðin eru vistuð í öruggu gagnaskýi, eru sjálfvalin með eins árs gildistíma (sem hægt er að breyta) og afturkallanleg með því að senda póst á appumbod@lyfja.is .
Vegna breytinga á reglugerð um umboð í appi höfum við uppfært umboðsferlið í Lyfju appinu. Nú samþykkir umboðsveitandi tvö umboð. Það er mjög mikilvægt að samþykkja bæði umboðin, umboð til afhendingu lyfja og umboð til upplýsinga úr lyfjaávísanagátt. Það þarf að haka í samþykki neðst á skjánum og staðfesta með rafrænum skilríkjum tvisvar sinnum.
Hvers vegna koma ekki upp sem val öll Lyfju apótek í appinu þegar maður ætlar að sækja lyf ?
Appið birtir aðeins þau apótek Lyfju þar sem lyf eru til á lager í viðkomandi apóteki. Athugið að oft eru lyf ekki til hjá heildsala og einnig er möguleiki á að fá sama lyf frá öðrum framleiðenda. Hafið samband við netspjall Lyfju eða það apótek sem þið ætlið að sækja lyfið í til að fá nánari upplýsingar.
Hvernig reiknast lyfjaverð?
Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) niðurgreiða lyf samkvæmt greiðsluþrepakerfi. Lyfja ber ekki ábyrgð á breytingu á þrepastöðu viðskiptavinar gagnvart SÍ, sem á sér stað frá kaupum til afhendingar vöru, óháð því hvort hún hefur áhrif á verð eða ekki. Endanlegt verð vörunnar miðast ávallt við afhendingu og þrepastöðu viðskiptavinar á þeim tíma.
Lyfja áskilur sér rétt til að hafna keyptri körfu verði endanlegt uppgjör hennar til þess að misræmi myndist gagnvart SÍ frá kaupum að afhendingu.
Hvað kostar heimsending?
Ef karfa inniheldur lyfseðilsskyld lyf er ókeypis heimsending á útsendisvæði Lyfju. Heimsending pantana sem innihalda aðeins aðra apóteksvöru kostar 990 kr.
Hvar og hvenær eru lyfin keyrð út?
Á höfuðborgarsvæðinu eru lyf keyrð út alla daga (nema stórhátíðardaga) frá klukkan 10:00 til 22:00. Í Reykjanesbæ, á Selfossi og Akureyri miðast útkeyrslutími við afgreiðslutíma lyfjabúðanna.
Pantanir á höfuðborgarsvæðinu þurfa að hafa borist fyrir klukkan 21:00 til að útkeyrsla sama dag sé tryggð, en eftir það eru þau keyrð út daginn eftir.
Hvernig er afhendingu háttað?
Í appinu er hægt að velja um að sækja lyfin í næsta apótek þar sem þau eru til, eða að fá þau send heim í stærstu þéttbýliskjörnum landsins.
- Ef valið er að sækja er hægt að fylgjast með ferli afgreiðslunnar í appinu og sækja vöruna um leið og gengið er inn í lyfjaverslun. Framvísa þarf skilríkjum við móttöku.
- Í heimsendingu þarf að framvísa skilríkjum við afhendingu og skrifa undir móttöku lyfja. Sérstakt eftirlit er með útkeyrslu lyfja, þar sem hvert skref er rekjanlegt og vottuð móttaka vistuð með lyfjaafgreiðslunni. Athygli er vakin á því að sé viðtakandi ekki á staðnum til móttöku, þá eru lyfin send aftur í það apótek sem þau voru afgreidd frá og mótttakandi þarf að nálgast þau þar.
Get ég séð yfirlit viðskipta í appinu?
Já, hægt er að smella efst hægra megin og sjá þar ýmsar stýriaðgerðir. Undir liðnum "Færslulisti" er hægt að sjá öll viðskipti sem hafa verið kláruð í appinu.
Hvernig get ég fengið hjálp varðandi appið?
Þjónustver Lyfju er opið frá 10:00 til 22:00 alla daga nema stórhátíðardaga. Í appinu er einfalt að komast í samband við þjónustuverið í netspjalli Lyfju. Hægt er að senda tölvupóst á app@lyfja.is fyrir allar almennar upplýsingar og ábendingar.
Lyfja er með heimild Lyfjastofnunar til lyfsölu á netinu.