Andleg heilsa og geðrækt
Við þekkjum vel orðið líkamsrækt og erum meðvituð um mikilvægi þess að hreyfa líkamann og gera æfingar sem efla líkamlega heilsu. Orðið geðrækt er kannski ekki alveg eins vel þekkt. Í stuttu máli felst geðrækt í því að hlúa að geðheilsunni eða andlegri heilsu með aðferðum sem miða að því að efla aðstæður, færni og lífsvenjur sem stuðla að aukinni andlegri vellíðan og heilsu.
Þetta er í raun líkamsrækt fyrir geðið okkar. Það eru til margar leiðir til þess að stunda geðrækt og ég ætla að fara hér í gegnum nokkrar þeirra.
Félagsleg tengsl
Mig langar til að byrja að tala um félagsleg tengsl en rannsóknir hafa ítrekað sýnt fram á að það að búa við góð félagsleg tengsl hefur mikil áhrif á líðan okkar og geðheilsu. Það má því líta á samveru með öðrum sem ákveðið form af geðrækt en ekki aðeins afþreyingu eða eitthvað sem við höfum varla tíma fyrir. Við þurfum að gefa okkur tíma til að vera með fólkinu okkar. Þetta snýst um samveru í hvaða formi sem er, til dæmis gönguferðir, sundferðir, kaffiboð, það að elda saman, fara í ferðalög eða hvað sem hentar.
Við getum líka verið í þeirri stöðu að þekkja ekki nógu marga til að verja tíma með og þá er gott að finna sér eitthvað áhugamál til að stunda reglulega, sem eykur líkurnar á því að við kynnumst nýju fólki. Það gæti til dæmis verið að ganga í ferða- eða gönguhóp, félagasamtök, fara á námskeið eða gerast sjálfboðaliði hjá hjálparsamtökum. Þetta snýst í raun um að stunda eitthvað reglulega þar sem við hittum sama fólkið aftur og aftur og þá aukast líkurnar á að við myndum tengsl við aðra.
Bera kennsl á það góða í lífinu
Önnur leið til að stunda geðrækt er að rækta með sér hæfni til að taka eftir því góða í lífinu. Frá náttúrunnar hendi hefur manneskjan tilhneigingu til að taka frekar eftir neikvæðum upplýsingum úr umhverfi sínu heldur en jákvæðum. Sem dæmi má nefna að við smellum frekar á fréttir af neikvæðum atburðum en jákvæðum og við munum frekar eftir neikvæðum athugasemdum sem við fáum um okkur sjálf heldur en jákvæðum.
Það eru til hugrænar æfingar sem hjálpa okkur að rétta af þessa neikvæðniskekkju og taka betur eftir því jákvæða í lífinu. Ein slík æfing felst í því að halda þakklætisdagbók þar sem við skrifum daglega niður eitthvað þrennt sem við erum þakklát fyrir. Þetta getur verið hvað sem er, fólkið í kringum okkur, aðstæður í lífinu, heilsan o.s.frv.
Rannsóknir sýna að það að gera þessa æfingu daglega í tvær vikur getur ýtt undir jákvæðar tilfinningar, gert okkur sáttari við lífið, aukið bjartsýni og hjálpað okkur að finna fyrir meiri tengslum við aðra.
Að láta gott af sér leiða
Önnur aðferð sem við getum stundað markvisst til að auka andlega vellíðan er að gera góðverk og hjálpa öðrum. Það þekkja flestir þá góðu tilfinningu sem fylgir því að rétta fram hjálparhönd eða láta gott af sér leiða með einhverjum hætti. Rannsóknir sýna að áhrifarík leið til að stunda þetta er að velja sér einn dag í viku sem góðverkadag og að gera fimm góðverk á þeim degi. Við gætum til dæmis haft miðvikudaga eða sunnudaga sem góðverkadaga. Þetta geta verið bæði stór og smá góðverk en gott er að skrifa niður nokkrar hugmyndir að góðverkum sem raunsætt er að ná að gera á einum degi.
Rannsóknir benda til þess að það að gera þessa æfingu einu sinni í viku í sex vikur getur aukið andlega vellíðan og jákvæðar tilfinningar, dregið úr einkennum þunglyndis, kvíða og streitu og aukið sjálfsvirði og tilfinningu um að hafa tilgang.
Harka í eigin garð veldur streitu
Að lokum þá langar mig að fjalla aðeins um hvernig of mikil harka í eigin garð getur valdið streitu og haft neikvæð áhrif á andlega heilsu.
Við höfum flest heyrt um mikilvægi þess að draga úr of miklu álagi og streituvöldum í ytra lífi okkar en oft er rótin að streitu og álagi innra með okkur sjálfum vegna þeirra krafna sem við gerum til okkar sjálfra, sem eru stundum óraunhæfar. Við eigum það til að ætlast til mun meira af okkur sjálfum en við myndum ætlast til af öðrum sem okkur þykir vænt um. Þegar við gerum mistök eða verðum vör við galla í eigin fari kemur oft innri gagnrýnandinn upp og rakkar okkur niður fyrir það eitt að vera ekki fullkomin.
Það er ekkert af því að horfa á eigin verk gagnrýnum augum og velta fyrir sér hvað betur megi fara ef við gerum það á uppbyggilegan hátt. En þegar við förum í það að rífa okkur niður með fjandsamlegum hugsunum erum við komin yfir strikið og farin að valda okkur sjálfum streitu og vanlíðan sem getur með tímanum ýtt undir einkenni kvíða og þunglyndis. Mikilvægt er því að þjálfa upp færni í að sýna okkur sjálfum sömu vinsemd, hlýju og þolinmæði og við sýnum okkar nánasta fólki.
Sjálfsumhyggja er færni sem við getum öll þjálfað með okkur en hún felur í sér eftirfarandi þrjá þætti:
- Vinsemd og umhyggja í eigin garð – að vilja sjálfum sér vel.
- Að hafa í huga að við erum öll ófullkomin og gerum öll mistök – það er mannlegt og eðlilegt.
- Færni í að takast á við erfiðar tilfinningar og geta veitt þeim athygli á yfirvegaðan hátt– sem er í raun núvitund.
Við getum unnið í því að rækta með okkur aukna sjálfsumhyggju með því að hafa þessa þrjá þætti í huga. T.d. þegar við gerum mistök þá getum við minnt okkur á að allir gera mistök, það er mannlegt og eðlilegt. Í stað þess að skammast í okkur sjálfum eða rakka okkur niður fyrir að hafa klúðrað málunum. Við getum líka hlúð að okkur á þeim stundum og spurt okkur sjálf: Hvernig líður mér eftir að hafa gert þessi mistök? Hverju finn ég fyrir? Kannski finn ég fyrir sektarkennd, skömm eða eftirsjá. Og þá get ég spurt mig: Hvers þarfnast ég núna? Hvað get ég gert til að hjálpa sjálfum/ri mér núna?
Með þessu erum við að sýna okkur sjálfum umhyggju sem róar og sefar taugakerfið, sem dregur úr streitu.
Það er líka hægt að rækta sjálfsumhyggju með því að stunda hugleiðsluæfingar sem eru sérstaklega hugsaðar til þess að rækta þennan eiginleika, svokallaðar sjálfsumhyggju- eða samkenndaræfingar, en þær má t.d. finna í appi sem heitir Sterkari út í lífið.
Geðrækt alla daga
Það skiptir ekki öllu máli hvaða leið við veljum að fara en það er gott að gera eitthvað daglega til að hlúa að eigin vellíðan og andlegri heilsu. Leiðirnar sem ég hef farið í gegnum í dag eru aðeins nokkrar af fjöldamörgum aðferðum til að hlúa að geðheilsunni. Fleira sem getur stutt við hana er nægur svefn, eða um það bil átta klukkustundir á nóttu, dagleg hreyfing, t.d. hálftíma göngutúr á degi hverjum, núvitundaræfingar, að greina og vinna með eigin styrkleika og að sinna áhugamálum.
Ég hvet ykkur til að stunda geðrækt daglega og velja þær leiðir sem höfða best til ykkar.