Volibris
Blóðþrýstingslækkandi lyf | Verðflokkur: 0 | Lyfseðilsskylt
Virkt innihaldsefni: Ambrisentan
Markaðsleyfishafi: GlaxoSmithKline | Skráð: 1. desember, 2008
Volibris er notað við lungnaháþrýstingi. Lungnaháþrýstingur er hár blóðþrýsingur í lungnaslagæðum, vegna þess hversu þröngar æðarnar eru og þannig verður erfiðara fyrir hjartað að dæla blóði í gegnum þær til lungnanna. Þetta veldur því að fólk verður andstutt, þreytt við litla áreynslu og stundum getur þetta leitt til dauða. Ambrisentan, virka efni lyfsins, víkkar lungnaslagæðarnar með því að draga úr virkni boðefnis í þeim. Við þetta lækkar þrýstingurinn í lungnaslagæðunum og blóðflæðið í gegnum þær eykst.
Notkun á lyfi
Lyfjaform:
Töflur til inntöku.
Venjulegar skammtastærðir:
5-10 mg einu sinni á dag. Töflurnar gleypist heilar með vatnsglasi. Ekki má tyggja eða brjóta töflurnar.
Hversu langur tími líður uns verkun kemur fram:
Lyfið nær hámarksþéttni í blóði eftir u.þ.b 1½ klst.
Þörf á að breyta mataræði meðan lyfið er tekið:
Engin.
Geymsla:
Geymist í lokuðum umbúðum við stofuhita þar sem börn hvorki ná til né sjá.
Ef skammtur gleymist:
Taktu lyfið um leið og þú mannst eftir því. Ef stutt er til næsta skammt skaltu sleppa þeim sem gleymdist og halda áfram að nota lyfið eins og venjulega. Ekki taka tvo skammta í einu.
Hvernig á að hætta töku lyfsins:
Einkenni sjúkdómsins geta versnað þegar töku lyfsins er hætt. Ekki hætta töku lyfsins nema í samráði við lækni.
Ef tekinn er of stór skammtur:
Stakir skammtar sem eru litlu stærri en venjulega ættu ekki að skapa vanda. Ef vart verður við einhver óvenjuleg einkenni eins og t.d. svima eða yfirlið skal hafa samband við lækni.
Langtímanotkun:
Fylgjast skal reglulega með lifrarstarfsemi og blóðhag. Konur á barneignaraldri ættu að framkvæma þungunarpróf reglulega. Lyfið getur hugsanlega dregið úr fjölda sáðfruma.
Aukaverkanir
Aukaverkun | Tíðni | Leitið til læknis vegna einkenna | Leitaðu strax til læknis | Hættu strax töku lyfs | |||
---|---|---|---|---|---|---|---|
Algeng >1% | Sjaldgæf <1% | Ekki þekkt | Sem eru alvarleg | Í öllum tilvikum | |||
Bjúgur á útlimum | |||||||
Hraður hjartsláttur, hjartsláttarónot | |||||||
Höfuðverkur | |||||||
Kviðverkir, hægðatregða | |||||||
Nefstífla eða nefrennsli | |||||||
Útbrot, kláði | |||||||
Þreyta, slappleiki og mæði | |||||||
Almenn vanlíðan | |||||||
Stífla í ennis- eða kinnholum | |||||||
Verkir eða óþægindi fyrir brjósti | |||||||
Roði í húð, hitakóf |
Milliverkanir
Sjá öll lyf sem geta haft áhrif á
Má ekki nota með
Getur haft áhrif á
Varúð
Læknir sem ávísar lyfinu þarf að vita hvort
- þú þjáist af blóðleysi
- þú sért með ofnæmi fyrir virka efninu eða einhverju hjálparefnanna
- þú sért með skerta lifrar- eða nýrnastarfsemi
- þú takir einhver önnur lyf
- þú sért með bjúg
- grunur leiki á um þungun eða hvort þú ráðgerir að verða þunguð
- þú sért með barn á brjósti
Meðganga:
Lyfið eykur líkur á fósturskaða sé það notað á meðgöngu. Það er aldrei gefið á meðgöngu og konur á barneignaaldri eiga að nota örugga getnaðarvörn meðan lyfið er tekið.
Brjóstagjöf:
Ekki er vitað hvort lyfið berst í brjóstamjólk. Hætta skal brjóstagjöf meðan lyfið er tekið.
Börn:
Lyfið er ekki ætlað börnum yngri en 18 ára.
Eldra fólk:
Venjulegar skammtastærðir.
Akstur:
Sjúkdómurinn sjálfur getur valdið skertri aksturshæfni. Ekki aka bíl fyrr en reynsla er komin á það hvaða áhrif lyfið hefur.
Áfengi:
Eykur líkur á aukaverkunum, einnig getur áfengi haft slæm áhrif á sjúkdóminn sjálfan.
Íþróttir:
Leyft við æfingar og í keppni.
Nánari upplýsingar
Nánari upplýsingar um lyfið er að finna í SPC texta og í fylgiseðli lyfsins, sem má finna á heimasíðu Sérlyfjaskrá. Ef upplýsingar hér stangast á við þær upplýsingar ber að fara eftir SPC texta lyfsins og/eða fylgiseðli.