Librax

Lyf gegn starfrænum meltingartruflunum | Verðflokkur: G | Lyfseðilsskylt

Virkt innihaldsefni: Klídín Klórdíazepoxíð

Markaðsleyfishafi: Viatris ApS | Skráð: 1. desember, 1972

Librax inniheldur tvö virk efni, klídín og klórdíazepoxíð. Klídín dregur úr hreyfingum meltingarfæra og virkar krampalosandi. Það dregur líka úr samdrætti í þvagblöðru auk þess sem það minnkar munnvatns- og svitamyndun. Verkunarmáti klídíns er að draga úr áhrifum boðefnisins asetýlkólíns á þessi líffæri en það hefur líka áhrif á boðefnið víðar í líkamanum. Aukaverkanir fylgja lyfinu, s.s. sjóntruflanir, hraður hjartsláttur og svimi. Klórdíazepoxíð tilheyrir flokki lyfja sem kallast benzódíazepín. Lyf í þeim flokki auka áhrif hamlandi boðefnis (GABA) á vissum stöðum í heila. Klórdíazepoxíð slær á ótta, kvíða og spennu. Það hefur líka róandi, krampastillandi og nokkur vöðvaslakandi áhrif. Í Librax eru þessi tvö virku efni notuð saman. Librax er gefið við óþægindum frá meltingarfærum, gallvegum eða þvagfærum sem stafa af spennu eða kvíða. Í sumum tilfellum er lyfið notað við óeðlilega mikilli munnvatns- eða svitamyndun.


Notkun á lyfi

Lyfjaform:
Töflur til inntöku.

Venjulegar skammtastærðir:
1-4 töflur á dag. Lyfið er tekið fyrir máltíðir eða fyrir svefn. Takist með vatnsglasi. Hver tafla innheldur 5 mg klórdíazepoxíð og 2,5 mg klídín.

Hversu langur tími líður uns verkun kemur fram:
Um 1 klst.

Verkunartími:
Ekki að fullu þekktur.

Þörf á að breyta mataræði meðan lyfið er tekið:
Engin.

Geymsla:
Geymist í lokuðum umbúðum við stofuhita þar sem börn hvorki ná til né sjá.

Ef skammtur gleymist:
Taktu lyfið ef færri en 1 klst. líða frá því að taka átti skammtinn. Annars skaltu sleppa skammtinum sem gleymdist og halda áfram að taka lyfið eins og venjulega. Ef taka átti skammtinn fyrir svefn og þú vaknar vegna óþæginda skaltu taka hann. Ekki taka tvo skammta í einu.

Hvernig á að hætta töku lyfsins:
Ef lyfið hefur verið tekið í 2 vikur eða styttri tíma má hætta töku þess þegar þess gerist ekki lengur þörf. Hafi það verið tekið í langan tíma geta fráhvarfseinkenni komið fram þegar töku þess hættir skyndilega. Hafðu samband við lækni.

Ef tekinn er of stór skammtur:
Hafðu samband við lækni í öllum tilfellum. Ef einkenni eins og hraður hjartsláttur, hjartsláttarónot, öndunarerfiðleikar eða skert meðvitund koma fram skal leita neyðarhjálpar þegar í stað.

Langtímanotkun:
Lyfið inniheldur klórdíazepoxíð sem er vanabindandi og fráhvarfseinkenni geta komið fram þegar notkun þess er hætt eftir langan tíma. Lyfið hentar því ekki til langtímanotkunar.


Aukaverkanir

Aukaverkanir lyfsins eru skammtaháðar, meiri líkur eru á því að þær komi fram eftir því sem skammtar eru stærri.

Aukaverkun Tíðni Leitið til læknis vegna einkenna Leitaðu strax til læknis Hættu strax töku lyfs
Algeng >1% Sjaldgæf <1% Ekki þekkt Sem eru alvarleg Í öllum tilvikum    
Hraður hjartsláttur          
Hægðatregða          
Höfuðverkur, svimi          
Munnþurrkur          
Sjóntruflanir          
Skapgerðarbreytingar          
Útbrot, kláði          
Þreyta, sljóleiki          
Þvagtregða          

Milliverkanir

Öll lyf sem hafa sljóvgandi áhrif á miðtaugakerfið geta aukið sljóvgandi áhrif lyfsins og ætti því að forðast að taka þau samtímis. Lyfið dregur auk þess úr áhrifum lyfja, sem örva hreyfingar í meltingarvegi, og getur aukið líkur á aukaverkunum og eitrunarhættu af mörgum sefandi lyfjum séu þau tekin samtímis.

Sjá öll lyf sem geta haft áhrif á

Má ekki nota með

Getur haft áhrif á


Varúð

Læknir sem ávísar lyfinu þarf að vita hvort
  • grunur leiki á um þungun eða að þú sért með barn á brjósti
  • þú sért með hjartasjúkdóm
  • þú sért með hækkaðan augnþrýsting eða gláku
  • þú sért með langvarandi lifrar- eða nýrnasjúkdóm
  • þú sért með ofnæmi fyrir virka efninu eða einhverju hjálparefnanna
  • þú sért með ofvirkan skjaldkirtil
  • þú sért með vöðvaslensfár (myasthenia gravis)
  • þú sért með öndunarfærasjúkdóm
  • þú sért með þvagtregðu, t.d. út af stækkuðum blöðruhálskirtli
  • þú hafir einhvern tíma greinst með sjúkdóm í meltingarvegi
  • þú hafir einhvern tíma misnotað áfengi eða lyf
  • þú takir einhver önnur lyf

Meðganga:
Lyfið getur haft áhrif á fóstur og er venjulega ekki notað á meðgöngu.

Brjóstagjöf:
Lyfið berst í brjóstamjólk. Áhrif lyfsins á barn á brjósti eru óþekkt.

Börn:
Lyfið er ekki ætlað börnum.

Eldra fólk:
Viðkvæmara fyrir aukaverkunum, minni skammtar eru notaðir.

Akstur:
Lyfið getur skert athygli og viðbragðsflýti og þar með aksturshæfni. Ekki aka bíl meðan lyfið er tekið.

Áfengi:
Eykur sljóvgandi áhrif lyfsins. Æskilegt er að halda áfengisneyslu í lágmarki meðan lyfið er tekið.

Íþróttir:
Leyft við æfingar og í keppni.

Fíknarvandamál:
Librax getur verið vanabindandi. Ávanahætta er meiri eftir því sem skammtar eru stærri eða lyfið er notað í lengri tíma og hjá þeim sem hafa tilhneigingu til misnotkunar lyfja eða áfengis.


Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar um lyfið er að finna í SPC texta og í fylgiseðli lyfsins, sem má finna á heimasíðu Sérlyfjaskrá. Ef upplýsingar hér stangast á við þær upplýsingar ber að fara eftir SPC texta lyfsins og/eða fylgiseðli.