Kynfæravörtur
Kynfæravörtur eru sýking af völdum Human Papilloma Virus sem skammstafast HPV. Margar gerðir eru þekktar af þessari veiru og hafa sumar þeirra verið tengdar leghálskrabbameini. Það eru einkum tvær tegundir veirunnar sem valda vörtum sem koma á slímhúð og húð, sérstaklega á ytri kynfæri og við endaþarmsop. Margt bendir til þess að þetta sé algengasti kynsjúkdómurinn á Vesturlöndum. Talið er að meira en helmingur þeirra sem eru virkir í kynlífi hafi sýkst af veirunni.
Hvernig smitast kynfæravörtur?
HPV smitar með snertingu húðar eða slímhúðar við sýkta húð/slímhúð. Við munnmök er hægt að fá þessa veirusýkingu í munninn. Vörtur í munni eru þó sjaldgæfar. Talið er að rakstur kynfærahára geti dreift vörtunum út yfir stærra svæði á líkamanum og ber því að gæta fyllsta hreinlætis ef slíkt er gert.
Hvernig get ég komið í veg fyrir smit?
Smokkur er eina vörnin gegn smiti en hann verndar aðeins þann hluta kynfæranna sem hann hylur. Hann er því ekki fullkomin vörn gegn smiti því að slímhúð og húð sem ekki er hulin geta sýkst við samfarir.
Eru kynfæravörtur hættulegar?
Vörturnar sjálfar valda ekki ófrjósemi eða líkamstjóni. Þær eru í húðinni eða á slímhúð en fara ekki inn í blóðrásina. Vörturnar hverfa oftast af sjálfu sér. Nokkrar tegundir HPV veirunnar geta aftur á móti valdið frumubreytingum sem leitt geta til krabbameins í leghálsi. Nauðsynlegt er því fyrir konur að fara reglulega í leghálsstrok og eftirlit, t.d. á Leitarstöð krabbameinsfélagsins eða til kvensjúkdómalækna.
Hver eru einkenni kynfæravartna?
Þær geta valdið kláða og ertingu. Konur með vörtur í leggöngum eða leghálsi geta fundið fyrir sársauka við samfarir. Vörtur geta einnig komið við þvagrásarop og truflað þvaglát. Flestir finna þó ekki fyrir neinum óþægindum og vita iðulega ekki af því að þeir séu sýktir nema vörturnar séu stórar og á ytri kynfærum.
Hvenær koma einkenni í ljós eftir smit?
Vörturnar koma í ljós frá þremur vikum og allt að tveimur árum eftir smitun.
Hvernig er hægt að greina kynfæravörtur?
Kynfæravörtur greinast í læknisskoðun. Ekki eru tekin sýni til greiningar.
Er hægt að fá meðferð við kynfæravörtum?
HPV-sýkinguna sem slíka er ekki hægt að meðhöndla þar sem engin lyf eru til sem drepa veiruna. Hins vegar er til margskonar meðferð gegn vörtunum sem veirurnar orsaka. Flestar vörtur hverfa fyrr eða síðar af sjálfu sér, en oft getur liðið langur tími eða jafnvel mörg ár þangað til þær hverfa. Dæmi um meðferð við vörtunum:
- Áburður (podophyllotoxin) borinn á vörtusvæðið tvisvar á dag í þrjá daga, þá er tekið fjögurra daga hlé. Þetta er síðan endurtekið eftir þörfum.
- Frysting með köfnunarefni, sem oftast þarf að endurtaka nokkrum sinnum með eins til þriggja vikna millibili.
- Deyfing og brennsla með rafmagni eða leysigeislameðferð.
Veiran sem veldur vörtunum hverfur ekki við meðferð og því geta vörturnar komið fram aftur seinna. Meðferð dregur ekki endilega úr smithættu á meðan veiruna er enn að finna á húð og slímhúð.
Á markaði er bóluefni sem ver gegn algengustu vörtuveirunum. Stúlkur og ungar konur geta fengið bólusetningu, hafi þær ekki þegar orðið fyrir vörtusmiti. Til eru tvær tegundir bóluefna sem veita allgóða vörn gegn leghálskrabbameini.
Efni fengið af heimasíðu Landlæknis , birt með góðfúslegu leyfi.