Fæðuofnæmi og fæðuóþol
Áætlað hefur verið að um 2% af fólki þjáist af fæðuofnæmi eða fæðuóþoli en sumir telja að þessi vandamál séu mun algengari vegna þess að vægari tilfellin komist aldrei á blað.
Reikna má út að meðalmaður neyti 50-100 tonna af fæðu á ævinni og sé þannig útsettur fyrir miklu magni af alls kyns eiturefnum sem geta valdið sjúkdómum. Yfirleitt þolist þetta allt vel og má m.a. þakka það saltsýru magans, meltingarhvötum, ónæmiskerfinu og þarmabakteríum.
Efni í fæðunni sem geta valdið okkur vandræðum eru t.d. náttúruleg eiturefni (sveppaeitur, bakteríueitur) eða efni sem bætt er í fæðuna, oftast til að bæta útlit og auka geymsluþol (litarefni, rotvarnarefni, o.fl.). Þessi efni valda sjaldan sjúkdómum nema hjá þeim sem hafa ofnæmi eða óþol fyrir efnunum. Sumir hafa einnig ofnæmi eða óþol fyrir einhverjum af eðlilegum innihaldsefnum fæðunnar.
Fæðuofnæmi er algengast í æsku og eldist oft af fólki en það getur einnig komið fram hvenær sem er ævinnar. Kannanir hafa leitt í ljós að mjög margir telja sig hafa fæðuofnæmi eða fæðuóþol en við nánari athugun hefur komið í ljós að fæstir þeirra hafa nokkuð slíkt. Sem dæmi ná nefna að rannsókn á 23 einstaklingum sem töldu sig hafa ofnæmi eða óþol fyrir fæðu leiddi í ljós að aðeins 4 þjáðust raunverulega af slíku.
Mikilvægt er að gera greinarmun á fæðuofnæmi og fæðuóþoli. Fæðuofnæmi er það þegar ónæmiskerfið er óeðlilega viðkvæmt og snýst gegn efni, oftast próteini, í fæðunni. Fæðupróteinið kallast þá mótefnavaki og ónæmiskerfið fer að framleiða mótefni sem ræðst gegn fæðupróteininu. Þetta setur í gang eins konar keðjuverkun efnabreytinga sem valda bólgu og ertingu á vissum stöðum í líkamanum. Þessi óþægindi geta komið strax eftir að fæðunnar hefur verið neytt eða nokkrum mínútum eða jafnvel klukkustundum síðar. Fæðuóþol hefur yfirleitt ekkert með ónæmiskerfið að gera heldur stafar oft af því að vissa efnahvata vantar í meltingarfærum eða annars staðar í líkamanum. Óþægindin sem fylgja fæðuofnæmi og fæðuóþoli eru í stórum dráttum þau sömu; þau eru einkum frá húð (útbrot, kláði), öndunarfærum (bjúgur í hálsi og barka, hnerrar, hósti, nefstífla, öndunarerfiðleikar) og meltingarfærum (uppköst, niðurgangur, verkir). Í versta falli getur orðið ofnæmislost með öndunarerfiðleikum, blóðþrýstingsfalli, meðvitundarleysi og jafnvel dauða.
Það gerir greiningu erfiðari að sama fæða getur valdið mismunandi einkennum í mismunandi einstaklingum og sami einstaklingur getur fengið mismunandi einkenni af mismunandi fæðu. Greining getur verið erfið og er sjálfsagt að láta sérfræðing í ofnæmissjúkdómum um slíkt. Ein af aðferðunum til greiningar er að útiloka alla fæðu sem liggur undir grun í eina viku og bæta síðan við einni fæðutegund í einu á 3-7 daga fresti. Nauðsynlegt er að skrá allt sem neytt er og öll einkenni sem koma fram. Stundum er beitt húðprófum, sem gefa niðurstöðu fljótt en eru af mörgum talin frekar óáreiðanleg við að greina fæðuofnæmi.
Mjög margar fæðutegundir geta valdið ofnæmi eða óþoli og sumar hafa meiri tilhneigingu til þess en aðrar. Nokkrar fæðutegundir sem valda oft ofnæmi eru jarðhnetur, fiskur, skelfiskur, egg, mjólkurprótein, hveiti og sojabaunir. Dæmi um fæðutegundir og efni sem bætt er í fæðu og valda óþoli er mjólkursykur, glúten, natríumglútamat og súlfít. Þeir sem eru til dæmis með ofnæmi fyrir próteinum í mjólk verða að forðast allar matvörur sem innihalda mjólk eða mjólkurafurðir. Þetta getur verið snúið vegna þess að innihaldsefnalýsingum á matvöru er oft ábótavant. Hér á landi eru skýr fyrirmæli um merkingar matvæla, m.a. innihaldsefnalýsingar. Mér sýnist þessar reglur oft vera brotnar, einkum af innlendum matvælaframleiðendum og er greinilega þörf á aðhaldi í þeim efnum. Hollustuvernd ríkisins hefur gefið út ágætan bækling um fæðuofnæmi og fæðuóþol þar sem ýmsar nánari upplýsingar er að finna m.a. um merkingar matvæla.
Þeir sem greinst hafa með fæðuofnæmi eða fæðuóþol geta lítið annað gert en að forðast viðkomandi fæðutegund og allar matvörur sem innihalda hana. Einnig ættu þeir að bera á sér viðvörunarmerki (t.d. Medic Alert) þar sem greint er frá ofnæminu eða óþolinu.