Astmi á meðgöngu

Sveiflukenndur sjúkdómur

Astmi

Astmi er mjög sveiflukenndur sjúkdómur. Stundum finnur þú lítið sem ekkert fyrir astmanum en síðan koma tímabil með verri líðan og tíðum astmaköstum. Þannig er það einnig með astma á meðgöngu. Sumum konum líður miklu betur en öðrum getur versnað.

Astmi er mjög sveiflukenndur sjúkdómur. Stundum finnur þú lítið sem ekkert fyrir astmanum en síðan koma tímabil með verri líðan og tíðum astmaköstum. Þannig er það einnig með astma á meðgöngu. Sumum konum líður miklu betur en öðrum getur versnað. Hafi astminn versnað á fyrstu meðgöngu er ekki þar með sagt að svo verði einnig á þeirri næstu. Hætta á vandamálum á meðgöngu er ekki aukin ef astmi þinn er vel meðhöndlaður.

Hafir þú astma átt þú alls ekki að reykja, og ef þú ert ófrísk er full ástæða til að hætta. Börn mæðra sem reykja eru helmingi líklegri til að fá astmaeinkenni eða astma heldur en börn mæðra sem ekki reykja og þar sem ekki er reykt á heimilinu.

Eru astmalyfin hættuleg fóstrinu?
Sumir hafa einkum áhyggjur af fyrirbyggjandi lyfjameðferð, s.s. innúðasteralyfjum. Þau lyf sem notuð eru til innöndunar s.s. Flixotide og Pulmicort, virka nær eingöngu í lungunum og ekki er vitað til þess að þau geti haft nokkur áhrif á fóstrið. Sama gildir um innönduðu, berkjuvíkkandi lyfin s.s. Ventolin, Bricanyl og Serevent. Öll þessi innönduðu lyf berast lítt eða ekkert út í blóðrásina og geta því varla haft nokkur áhrif á fóstrið. Illa meðhöndlaður astmi móður getur á hinn bóginn varla verið til góðs, hvorki fyrir móður né barn. Ráðfærðu þig við lækninn þinn hafir þú einhverjar spurningar um lyfin og meðgöngu.

Er aukin áhætta í fæðingunni?
Fæðing er mjög eðlilegur hlutur sem í flestum tilvikum leiðir af sér heilbrigðan og velskapaðan einstakling. Astmaveikar konur eru hræddastar við að fá astmakast í sjálfri fæðingunni. Það er afar sjaldgæft. Líkaminn dælir adrenalíni og kortisóni um kroppinn í þeirri miklu áreynslu sem fæðingin er og virðist þannig hindra að konan fái astmaeinkenni. Mundu að láta ljósmóður eða fæðingarlækninn vita af því að þú sért astmaveik og mundu að taka astmalyfin þín með þér á fæðingardeildina.

Get ég haft barnið á brjósti?
Það er afar mikilvægt að astmaveikar mæður hafi börn sín á brjósti. Rannsóknir benda til þess að brjóstagjöf í minnst 4 mánuði geti dregið úr hættunni á að barnið fái ofnæmi eða astma tengdan ofnæmi. Því er eindregið hvatt til þess að allar mæður, líka astmaveikar, hafi börn sín á brjósti sem lengst. Þau innönduðu astmalyf sem notuð eru skiljast ekki út í brjóstamjólk og eru því alveg skaðlaus fyrir barn á brjósti.

Efni fengið af Astma og ofnæmisvef GlaxoSmithKline