Trönuber
Amerísk trönuber eru rauð, súr aldin eða ber lítils, sígræns runna, trönuberjarunnans, sem vex villtur í mýrlendi í Kanada og austanverðum Bandaríkjunum.
Berjasafinn er notaður í lækningaskyni og er hann m.a. talinn áhrifaríkur sem forvörn gegn þvagfærasýkingu.
Fræðiheiti
Vaccinium macrocarpon Ait.
Ætt: Lyngætt Ericaceae
Önnur heiti
Kalkúnaber.
Ensk heiti
Cranberry, trailing swamp cranberry.
Einkunn
1 = Áralöng notkun og víðtækar, vandaðar rannsóknir benda til þess að þessi vara sé mjög áhrifarík og örugg að því tilskildu að hún sé notuð í því magni sem mælt er með í ábendingunni (ábendingunum) sem koma fram í kaflanum "Gagnleg áhrif: niðurstöður rannsókna".
Hvað eru amerísk trönuber?
Amerísk trönuber eru rauð, súr aldin eða ber lítils, sígræns runna, trönuberjarunnans, sem vex villtur í mýrlendi í Kanada og austanverðum Bandaríkjunum. Þessi runni er ræktaður í stórum stíl í mörgum ríkjum Bandaríkjanna, einkum í Washington og Massachusetts. Berjasafinn er notaður í lækningaskyni.
Notkun
Fyrir meira en öld neyttu frumbyggjar Ameríku kraminna trönuberja til þess að koma í veg fyrir þvagfærasýkingu og einnig til að lækna þann kvilla. Margar konur um öll Bandaríkin tóku þetta læknisráð upp í kjölfarið, einkum gegn þvagrásarsýkingu, oft með því að drekka trönuberjasafa sem hanastél. Þrátt fyrir tilkomu öflugra sýklalyfja halda margar konur enn tryggð við þetta læknisráð gegn þessum algenga og oft þráláta sjúkdómskvilla. Einnig drekka margar konur trönuberjasafa í forvarnarskyni gegn blöðrubólgu og til þess að ráða bót á henni. Safinn er einnig sagður eyða þvaglykt.
Helstu lyfjaform
Ber, hylki, safi (til í mörgum gerðum, m.a. án viðbætts sykurs og í trönuberjasafahanastéli). Í 90 millílítra glasi af trönuberjahanastéli, sem inniheldur um þriðjung af hreinum safa, er trönuberjasafi sem svarar til sex hylkja af þurrkuðu trönuberjadufti.
1
Algeng skammtastærð
Til að fyrirbyggja þvagfærasýkingu eru 90 millílítrar af trönuberjahanastéli, eða samsvarandi magn af trönuberjasafa, drukknir daglega. Gegn sýkingu, sem er þegar komin upp, á að drekka 360-960 millílítra á dag. Tvö til fjögur hylki eru tekin þrisvar á dag til að meðhöndla sýkingu.
Gagnleg áhrif: niðurstöður rannsókna
Margir læknar, flestir grasalæknar og fjölmargar konur, sem þjást af þrálátri þvagfærasýkingu, telja að trönuberjasafi geti komið í veg fyrir þvagfærasýkingu. Enn er deilt um hve stóra skammta þarf til að ná þessum áhrifum og sumir efasemdarmenn telja nauðsynlegt að gera fleiri tilviljanakenndar, klínískar rannsóknir áður en hægt er að staðhæfa nokkuð.
2 Margar elstu rannsóknirnar voru smáar í sniðum og mótsagnakenndar og ekki var samanburður við annan hóp kvenna sem voru ekki haldnar þvagfærasýkingu. Ennfremur hafa sumar rannsóknir þann galla að þvagsýni voru ekki tekin samkvæmt vísindalegum kröfum, þannig að sýnin gátu hafa mengast af bakteríum úr leggöngum.
Enginn veit nákvæmlega hvernig trönuber verka. Verkun trönuberja gegn þvagfærasýkingu var fyrst rannsökuð snemma á þriðja áratug síðustu aldar, en þá uppgötvaði hópur rannsakenda að þvag þeirra, sem drukku mikið af trönuberjasafahanastéli, varð súrara en annarra. 3 Samkvæmt kenningunni verður þetta til þess að þvagfærin verða síður ákjósanlegur dvalarstaður baktería, en þær þrífast einkar vel í basísku umhverfi. Nýlegar rannsóknir gefa til kynna að jákvæð áhrif trönuberjasafans megi frekar rekja til annars eiginleika sem vinnur gegn bakteríum í þvagfærum. Sá eiginleiki er að safinn virðist varna því að bakteríur festist við þvagblöðruvegginn, þannig að þær skolast burt áður en þær ná að valda skaða. 4
Mikilvæg rannsókn, sem var gerð 1994 og greint var frá í Journal of American Medical Association, leiddi í ljós að trönuberjasafi er áhrifaríkari sem ráð við gerlasýkingu í þvagfærum en til þess að fyrirbyggja slíka sýkingu. 5 Þessi tilraun var einnig eftirtektarverð fyrir þær sakir að hún var fyrsta stóra, lyfleysustýrða rannsóknin sem sýndi fram á að trönuberjasafi fækkar bakteríum í þvagi, auk þess sem fækkun varð á hvítfrumum, en þeim fjölgar eftir að sýking kemur upp. Hjá þeim 153 eldri konum, sem drukku lyfleysu daglega í sex mánuði, varð minni lækkun á þessum gildum en hjá þeim konum sem drukku 300 millílítra af trönuberjahanastéli daglega. Þessar niðurstöður og aðrar benda til þess að gamla ráðið standi að öllum líkindum fyllilega fyrir sínu, þótt ekki sé erfitt að finna þá sem gagnrýna rannsóknina. 6 Nú er trönuberjasafi talinn áhrifaríkur sem forvörn gegn þvagfærasýkingu.
Nýlegar niðurstöður gefa til kynna að trönuberjasafi geti dregið úr óþægilegri lykt af þvagi fólks með þvagleka með því að hægja á starfsemi baktería (einkum Escherichia coli), en lyktin stafar af því að þvagið verður súrara fyrir tilstilli bakteríanna. 7 Glas sem inniheldur 180 millílítra af trönuberjasafa og er drukkið tvisvar á dag getur fyrirbyggt endurmyndun nýrnasteina (urinary stone recurrence) og dregið úr einkennum þrátlátra nýrna- og skjóðusýkingar (pyelonephritis), a.m.k. samkvæmt atviksskýrslum. 8
Skaðleg áhrif: niðurstöður rannsókna
Ekki hefur verið greint frá neinum vandkvæðum sem stafa af notkun trönuberjasafa til lækninga. Reyndar geta sumir haft ofnæmi fyrir safanum. Einnig ættu barnshafandi og konur með börn á brjósti, svo og þeir taka önnur lyf sem hafa áhrif á þvagfærakerfið, t.d. nýrun, að ráðfæra sig við lækni áður en byrjað er að nota trönuberjasafa til lækninga. Ef mikið er drukkið af safanum er hætta á niðurgangi og magaverkjum.
9 Mikilvægast er þó að hafa í huga að enginn ætti að reyna að lækna þvagfærasýkingu á eigin spýtur, þar sem sýklalyf eru nær alltaf nauðsynleg og ómeðhöndluð þvagfærasýking getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér.
Skoðaðu þvagfærasýkinga sjálfspróf frá Prima hér
Meginheimildir
American Pharmaceutical Association, Handbook of Nonprescription Drugs. 11. útg. Washington D. C.: American Pharmaceutical Association, 1996. Castleman, M. The Healing Herbs: The Ultimate Guide to the Curative Power of Nature´s Medicines. New York: Bantam Books, 1995. Lawrence Review of Natural Products. St. Louis: Facts and Comparisons, July, 1994. Nursing Times. 87 (1991): 36-37. Tyler, V.E. Herbs of Choice: The Therapeutic Use of Phytomedicinals. Binghamton, NY: Haworth Press/Pharmaceutical Products Press, 1994. Tyler, V.E. The Honest Herbal. Binghamton, NY:Haworth Press/Pharmaceutical Products Press, 1993.Tilvísanir
1. Tyler, V.E. Herbs of Choice: The Therapeutic Use of Phytomedicinals. (Binghamton, NY:Haworth Press/Pharmaceutical Products Press, 1994). 2. W.J. Hopkins et al., Journal of the American Medical Association (bréf), 272 (8) (1994): 588-589. 3. N.R. Blatherwich og M.L. Long, Journal of Biological Chemistry, 57 (1923): 815-818. 4. I. Ofek et al., New England Journal of Medicine, 324 (1991):1599. M.S. Soloway og R.A. Smith, Journal of the American Medical Association 260 (1988): 1465. A.E. Sabota, Journal of Urinology, 131 (1984): 1013-1016. 5. J. Avor et al., Journal of the American Medical Association, 271 (1994): 751. 6. R. Goodfriend, Journal of the American Medical Association, 72 (8) (1992): 588. 7. Lawrence Review of Natural Products.( St. Louis: Facts and Comparisons, July, 1994). 8. Á sama stað. H.H. Zinsser et al., New York State Journal of Medicine, 68 (1968): 3001. 9. Lawrence Review of Natural Products, sama heimild.
© Þýðing: Hálfdan Ómar Hálfdanarson og Þuríður Þorbjarnardóttir
Frá bandaríska lyfjafræðingafélaginu.