Terunnaolía

Náttúruvörur

  • Terunnaolia

Þessi vellyktandi, fölgula, rokgjarna olía er unnin úr laufblöðum plöntunnar  Melaleuca alternifolia. Þessi runni vex villtur í mýrum og fenjum á afmörkuðum svæðum í Nýja Suður-Wales og Suður-Queenslandi í Ástralíu.

Fræðiheiti 

Melaleuca alternifolia (Maiden & Betche) Cheel.
Ætt: Brúðarlaufsætt (myrtuætt) Myrtaceae.

Ensk heiti
Australian tea tree oil, cajeput, cajeput oil.

Einkunn
2 = Að teknu tilliti til fjölda vel útfærðra tilrauna og mikillar notkunar virðist þetta efni vera tiltölulega áhrifaríkt og öruggt að því tilskildu að það sé notað í því magni sem mælt er með í ábendingunni (ábendingunum) í kaflanum "Gagnleg áhrif: niðurstöður rannsókna".

Hvað er terunnaolía?
Þessi vellyktandi, fölgula, rokgjarna olía er unnin úr laufblöðum plöntunnar Melaleuca alternifolia sem er runni eða lágvaxið tré (5-7 m hátt) af ættkvísl sparviða ( Melaleuca), en tegundin sjálf hefur ekki hlotið íslenskt nafn. (Þessi tegund getur þó ekki borið heiti terunni (eins og heiti olíunnar gefur tilefni til), því að það er heiti runnans sem telaufið er tínt af ( Camellia sinensis). Þessi runni, Melaleuca alternifolia, vex villtur í mýrum og fenjum á afmörkuðum svæðum í Nýja Suður-Wales og Suður-Queenslandi í Ástralíu. Olían er einnig framleidd úr öðrum tegundum sparviða, en þær upplýsingar sem hér eru birtar eiga eingöngu við Melaleuca alternifolia. Runninn er nú ræktaður víða um heim, bæði í Afríku og Asíu, vegna olíunnar.

Notkun
Þótt frumbyggjar Ástralíu hafi lengi þekkt sótthreinsandi og græðandi áhrif terunnaolíu barst hróður hennar ekki þaðan fyrr en á 18. öld þegar Cook kafteinn lagði leið sína þangað. Þegar heim var aftur komið greindu leiðangursmenn frá græðandi áhrifum hennar sem væru nýtt til þess að flýta gróanda áverka og brunasára. 1 Ástralskir landnemar notuðu olíuna sömuleiðis gegn skordýrabiti og öðrum útvortis meinsemdum og löguðu te úr laufi runnans. Í seinni heimsstyrjöldinni báru ástralskir hermenn jafnan terunnaolíu á sér til sótthreinsunar, og olíunni var einnig blandað í vélaolíu í skotfæraverksmiðjum til að draga úr hættu á sýkingum ef starfsmenn yrðu fyrir áverkum vegna óhappa. 2

Á seinni hluta áttunda áratugs og fyrri hluta þess níunda á síðustu öld vaknaði áhugi á terunnaolíu að marki í Bandaríkjunum vegna þess hve mjög grasalæknar, alþýðulæknar og seljendur terunnaolíu héldu þessari vöru á lofti. Nú dásama margir olíuna sem er talin mjög góð til sótthreinsunar og til að meðhöndla aragrúa mismunandi kvilla. Hún er meðal annars notuð við sólbruna, sárum, smáskurðum, ígerðarsárum, kýlum, vöðvaverkjum, æðahnútum, liðagigt, marblettum, skordýrabiti, lúsum, vörtum, leggangabólgu, sveppasýkingu, sárum í munni og flösu.

Helstu lyfjaform
Útvortis: olía (þynnt og óþynnt). Terunnaolía finnst í ýmiss konar áburði, kremi, sápum, tannkremi, hársápu og öðrum vörum.
Innvortis: munnsogstöflur.

Algeng skammtastærð
Til útvortis notkunar er terunnaolía borin á í styrkleikanum 0,4-100 %, eftir því á hvaða líkamshluta hún er notuð og í hvaða tilgangi.

Gagnleg áhrif: niðurstöður rannsókna
Terunnaolía hefur verið rannsökuð gaumgæfilega. Sannað hefur verið að hún hafi sótthreinsandi eiginleika og sífellt hlaðast upp rannsóknagögn sem réttlæta notkun hennar gegn ýmsum kvillum. Margar klínískar skýrslur um jurtina liggja fyrir frá því um miðja síðustu öld þegar kröfur til rannsókna voru minni en nú tíðkast, en einnig eru til nokkrar nýlegar skýrslur sem gefa til kynna að olían geti komið að gagni við sýkingum í húð og leggöngum. 3

Af öllum efnasamböndunum sem finnast í olíunni er mest af svokölluðum terpenum og hafa rannsakendur greint terpínen-4-ól og telja þetta efni helstu sýklavörnina. Þetta efnasamband dregur bæði úr mætti baktería, þannig að líkaminn verst þeim betur, og drepur ýmsa sýkla sem önnur stöðluð sýklalyf verka alls ekki á. 4 Glasatilraun sem var gerð 1995 gaf til kynna að tiltölulega litlir skammtar af terunnaolíu (minni en almennt er að finna í vörum á markaðnum) geti ekki aðeins dregið úr áhrifum ýmissa sýklalyfjaþolinna baktería sem eru algengar á spítölum, svo sem Staphylococcus aureus, heldur einnig upprætt þær. 5 Það eru einnig terpenin sem gefa olíunni sinn þægilega ilm. Í Ástralíu hafa verið settir staðlar sem segja til bæði um hámark og lágmark mismunandi terpena í hinum ýmsu vörum sem innihalda terunnaolíu. Mikilvægt er að olían sem er notuð sé unnin úr Melaleuca alternifolia en ekki einhverri annarri tegund ættkvíslarinnar, þar eð sumar þeirra innihalda efni sem kallað er síneól og getur ert húðina og dregið úr sótthreinsandi verkun terpínen-4-óls. 6

Rannsóknir benda til að fá megi nokkra bót á húðkvillum, svo sem fótsveppum, líkþornum, siggi og bólguhnúðum, ef terunnaolíumeðferð er beitt (olían er þá oftast þynnt). 7 Olían vinnur gegn gelgjubólum samkvæmt rannsókn sem var gerð 1990 á 124 einstaklingum með gelgjubólur, sem voru ýmist vægar eða miðlungi vægar. 8 Fimm prósent terunnaolía í vatnsgrunnshlaupi höfðu ekki jafn skjótvirk áhrif á bólurnar og 5 prósent bensóýlperoxíðáburður, en bæði efnin höfðu fækkað marktækt bólunum undir lok þriggja mánaða meðferðar. Það var þó meira um vert að aðeins 44 % þeirra, sem notuðu terunnaolíu, kvörtuðu undan aukaverkunum, svo sem þurrki, ertingu, sviða, bruna, kláða og roða, en samsvarandi hlutfall var 79 % hjá þeim sem notuðu bensóýlperoxíð.

Ýmsir aðrir kvillar svara meðferð með terunnaolíu einnig vel. Í einni rannsókn fengu sjö af þrettán konum, sem þjáðust af þrálátri blöðrubólgu, nokkurn bata þegar þær tóku hylki með terunnaolíu einu sinni á dag. 9 Leggangastílar sem innihéldu terunnaolíu verkuðu enn fremur vel gegn sveppasýkingum. 10 Rannsakendur hafa komist að því að olían vinnur gegn lífverum sem geta valdið leggangasýkingum, þar á meðal Trichomonas vaginalis og Candida albicans. 11 Aðeins sérblandaðar lyfjablöndur með terunnaolíu duga þó nægilega vel til að lækna leggangakvilla almennilega.

Skaðleg áhrif: niðurstöður rannsókna
Hugsanlegt er að olían erti viðkvæma húð, en hún er þó að mestu leyti talin örugg til notkunar útvortis. Í nokkrum tilfellum hefur hún valdið ertingu í leggöngum. Þótt olían hafi verið notuð í alþýðulækningum til innvortis notkunar mæla margir nútímagrasalæknar gegn inntöku olíunnar vegna hættu á eitrunaráhrifum.

Meginheimildir
American Pharmaceutical Association. Handbook of Nonprescription Drugs. 11. útg. Washington D.C.: American Pharmaceutical Association, 1996. Lawrence Review of Natural Products. St. Louis: Facts and Comparisons, janúar, 1991. Leung, A.Y. og S. Foster. Encyclopedia of Common Natural Ingredients Used in Food, Drugs, and Cosmetics. 2. útg. New York: John Wiley & Sons, 1996. Murray, M.T. The Healing Power of Herbs: The Enlightened Person´s Guide to the Wonders of Medicinal Plants. Aukin og endursk. 2. útg. Rocklin, CA: Prima Publishing, 1995. Tierra, M. The Way of Herbs. New York: Pocket Books, 1990. Tyler, V.E. Herbs of Choice: The Therapeutic Use of Phytomedicinals. Binghamton, NY: Haworth Press/Pharmaceutical Products Press, 1994. Tyler, V.E. The Honest Herbal. Binghamton, NY: Haworth Press/Pharmaceutical Products Press, 1993. Weiner, M.A. og J.A. Weiner. Herbs That Heal: Prescription for Herbal Healing. Mill Valley, CA: Quantum Books, 1994.

Tilvísanir
1. Lawrence Review of Natural Products. (St. Louis: Facts and Comparisons, janúar, 1991). 2. American Pharmaceutical Association. Handbook of Nonprescription Drugs. 11. útg. (Washington D.C.: American Pharmaceutical Association, 1996). 3. A.L. Blackwell, The Lancet, 337 (1991): 300. V.E. Tyler, The Honest Herbal. (Binghamton, NY: Haworth Press/Pharmaceutical Products Press, 1992). 4. C. Carson et al., Journal of Antimicrobial Chemotherapy, 35 (1995): 421-424. 5. C. Carson et al., sama heimild. 6. Tyler, sama heimild. 7. M. Walker, Current Podiatry (April 1972). Lawrence Review of Natural Products, sama heimild. M.T. Murray, The Healing Power of Herbs: The Enlightened Person´s Guide to the Wonders of Medicinal Plants. Endursk. og aukin 2. útg. (Rocklin, CA: Prima Publishing, 1995). 8. B. Bassett et al., Medical Journal of Australia, 153 (1990): 455-458. 9. Lawrence Review of Natural Products, sama heimild. 10. P. Belaiche, Phytotherapie, (1985): 15. 11. E.F. Pena, Obstetrics & Gynecology, 19 (1962): 793-795.

© Þýðing: Hálfdan Ómar Hálfdanarson og Þuríður Þorbjarnardóttir

Frá bandaríska lyfjafræðingafélaginu.