Q10

Náttúruvörur

  • Q10

Q10 er eitt úbíkvínóna, en þau eru náttúruleg efnasambönd sem myndast í nær öllum frumum líkamans. Þessi efni voru ekki uppgötvuð fyrr en 1957. Q10 tekur þátt í að vinna orku úr fæðuefnum í grunnefnaskiptum frumnanna. Það er einnig andoxunarefni.

Fræðiheiti
Á ekki við.
Ætt: Á ekki við.

Önnur heiti
Kóensím Q10, mítókvínón, úbídekarenón, úbíkvínón.

Ensk heiti
Coenzyme Q10, motoquinone, ubidecarenone, ubiquinone.

Einkunn
3=Rannsóknir um áhrif og öryggi þessa efnis stangast á eða rannsóknir eru ekki nægilegar til að hægt sé að draga ályktun af þeim.

Hvað er Q10?
Q10 er eitt úbíkvínóna, en þau eru náttúruleg efnasambönd sem myndast í nær öllum frumum líkamans. Þessi efni voru ekki uppgötvuð fyrr en 1957. Q10 tekur þátt í að vinna orku úr fæðuefnum í grunnefnaskiptum frumnanna. Það er einnig andoxunarefni.

Notkun
Q10 er selt sem fæðubótarefni í Bandaríkjunum. Ráðlagður dagskammtur af þessu efni hefur enn ekki verið ákvarðaður. Framleiðendur og margir aðrir ráðleggja töku efnisins í forvarnarskyni eða sem meðferð við ótrúlega margvíslegum sjúkdómum og kvillum. Margir halda því fram að það verndi og styrki hjartað, stuðli að lækningu þegar um hjartabilun er að ræða, vinni gegn hjartsláttaróreglu, háum blóðþrýstingi og öðrum blóðrásarsjúkdómum, sporni gegn öldrun, styrki vöðva og auki þrótt og þol manna, örvi ónæmiskerfið, dragi úr aukaverkunum vegna lyfjameðferðar gegn krabbameini, stuðli að þyngdartapi og gagnist við meðhöndlun sykursýki, offitu og Alzheimers-sjúkdómi.

Margar heimildir benda á að japanskir, rússneskir og evrópskir læknar hafi gefið sjúklingum Q10 við ýmsum sjúkdómum, meðal annars blóðrásarsjúkdómum og tannholdssjúkdómum. 1 Sumir mæla með því að það sé tekið sem fæðubótarefni þar sem magn þess líkamanum minnkar með aldri og áreynslu. Í einni heimild er því haldið fram að Q10 sé eitt af þeim næringarefnum sem „gegni mikilvægu hlutverki í að viðhalda sem bestri heilsu“. 2

Helstu lyfjaform
Hylki, vökvi, olía.

Algeng skammtastærð
Algengt er að 15–30 millígramma skammtar séu teknir daglega.

Gagnleg áhrif: niðurstöður rannsókna
Sem andoxunarefni er talið að Q10 haldi myndun svokallaðra sindurefna í skefjum en þau geta skemmt frumur með oxun. Með þessu móti, og einnig e.t.v. með því að gera frumuhimnur stöðugri, getur verið að Q10 sporni gegn myndun útfellinga innan á æðum og hindri þar með eða stuðli að lækningu sumra blóðrásarsjúkdóma, svo sem hjartabilunar og hugsanlega hás blóðþrýstings. Þetta á einkum við í þeim tilfellum þegar vefir líkamans líða blóðskort og þar með súrefnisskort í langan tíma. 3 Fyrstu vísbendingar um andoxunaráhrif Q10 komu fram í dýratilraunum sem voru gerðar á níunda áratug síðustu aldar. Verndandi áhrif efnisins komu í ljós þegar rottulifrar voru græddar í aðrar rottur; þegarnir lifðu lengur og sýndu aðrar merkjanlegar framfarir þegar lifrargjafarnir höfðu fengið Q10. 4 Sú fullyrðing að andoxunarefni geti hægt á öldrun er byggð á ótraustum og lítt vísindalegum grunni.

Hópur rannsakenda sem fór yfir vísindagreinar um Q10 og hjartabilun árið 1994 fann í heildina niðurstöður sem „lofuðu góðu“ í þeim átta klínísku rannsóknum sem höfðu verið gerðar á þeim tíma. Hópurinn dæmdi rannsóknirnar vel hannaðar (lyfleysustýrðar og tvíblindar) en tók jafnframt fram að niðurstöður þeirra væru ekki alltaf samrýmanlegar og að í fáeinum þeirra nálguðust rannsakendur viðfangsefnið með vafasömum aðferðum. 5 Lítið úrtak flestra takmarkaði einnig gildi þeirra. Hópurinn ályktaði að gera þyrfti fleiri rannsóknir áður en hægt væri að draga ályktun um gagnsemi Q10 í meðferð gegn hjartabilun. Rannsóknir sem hafa verið gerðar til að kanna áhrif Q10 gegn sjúkdómum í hjartavöðvanum (þ.e. hjartabilun af völdum hjartastækkunar) hafa gefið mismunandi niðurstöður þar sem t.d. vel hönnuð rannsókn frá 1989 á 25 einstaklingum sýndi engin áhrif 6 og önnur frá 1988 á 88 einstaklingum sýndi marktæka framför á tveimur mælanlegum þáttum hjartastarfseminnar. 7 Gildi Q10 við meðhöndlun á tannholdssjúkdómum er óljóst þrátt fyrir að nokkrar rannsóknir hafi verið gerðar. Í yfirlitsgrein sem var birt 1995 í tímariti breskra tannlækna (British Dental Journal) um gagnsemi þess að nota Q10 til að meðhöndla tannholdssjúkdóma var sagt að engar haldbærar vísbendingar hefðu komið fram sem styddu gagnsemi notkunarinnar. Þar með var dregin sú ályktun að ekki fæðubótarefnum yrði „ekki fundinn staður“ í nútímameðferð tannholdssjúkdóma. 8

Fáar vísbendingar finnast sem styðja notkun Q10 gegn öllum þeim kvillum öðrum sem staðhæft hefur verið að það bæti. Enn er deilt um hvort fæðubótarefnin hafi einhver áhrif þegar þeirra er neytt þar sem ýmsar vísbendingar hafa komið fram um að þau eyðileggist við meltingu.

Skaðleg áhrif: niðurstöður rannsókna
Q10 virðist vera tiltölulega öruggt fæðubótarefni þótt vitað sé um fáein tilvik magaólgu, ógleði, niðurgang og lystarleysi. 9 Kanna þarf betur áhrif langvarandi notkunar eða stórra skammta af efninu svo og öryggi þess fyrir barnshafandi konur og þær sem eru með barn á brjósti.

Meginheimildir
Balch, J.F. og P.A. Balch. Prescription for Nutritional Healing: A Practical A to Z Reference to Drug-Free Remedies Using Vitamins, Minerals, Herbs & Food Supplements. 2. útg. Garden City Park, NY: Avery Publishing Group, 1997. Barrett, S. og V. Herbert. The Vitamin Pushers: How the “Health Food” Industry Is Selling America a Bill of Goods. Amherst, NY: Prometheus Books, 1994. Lawrence Review of Natural Products. St. Louis: Facts and Comparisons, maí 1988. Mayall, M. Off-the-Shelf Natural Health: How to Use Herbs and Nutrients to Stay Well. New York: Bantam Books, 1995.

Tilvísanir
1. Lawrence Review of Natural Products. (St. Louis: Facts and Comparisons, May 1988). 2. M. Mayall, . Off-the-Shelf Natural Health: How to Use Herbs and Nutrients to Stay Well. (New York: Bantam Books, 1995). 3. Lawrence Review of Natural Products. (St. Louis: Facts and Comparisons, May 1988). 4. K. Sumimoto et al., Surgery, 102 (1987):243. 5. O. Spigest, Tidsskrift for den Norske Lægeforening, 114 (8) (1994): 939–942. 6. B. Permanetter et al., Zeitschrift für Kardiologie, 78 (6) (1989):360–365. 7. P.H. Langsjoen et al., Klinische Wochenschrift, 66 (13) (1988): 583–590. 8. T.L. Watts, British Dental Journal, 178 (6) (1995): 209–213. 9. Lawrence Review of Natural Products, sama heimild.

© Þýðing: Hálfdan Ómar Hálfdanarson og Þuríður Þorbjarnardóttir

Frá bandaríska lyfjafræðingafélaginu.