Musteristré

Náttúruvörur

  • Musteristre

Musteristré er af ættbálki musterisviða, miklum bálki berfrævinga er átti blómaskeið sitt fyrir hartnær tvö hundruð milljónum ára, en síðan hnignaði þessum hópi plantna og allir musterisviðir voru taldir hafa orðið aldauða á síðustu ísöld þar til eina núlifandi tegund þeirra fannst í garði kínversks klausturs um árið 1690.

Fræðiheiti
Ginkgo biloba.
Ætt: Musterisviðarætt Gingkoaceae

Önnur heiti
Gínkó.

Enskt heiti
Gingko biloba.

Einkunn
1 = Áralöng notkun og víðtækar, vandaðar rannsóknir benda til þess að kjarni úr laufblöðum musteristrés (gínkókjarni) sé mjög áhrifaríkur og öruggur að því tilskildu að hann sé notaður í því magni sem mælt er með í ábendingunni (ábendingunum) sem koma fram í kaflanum "Gagnleg áhrif á notanda: Niðurstöður rannsókna".

Hvað er musteristré?
Musteristré er af ættbálki musterisviða, miklum bálki berfrævinga er átti blómaskeið sitt fyrir hartnær tvö hundruð milljónum ára, en síðan hnignaði þessum hópi plantna og allir musterisviðir voru taldir hafa orðið aldauða á síðustu ísöld þar til eina núlifandi tegund þeirra fannst í garði kínversks klausturs um árið 1690.

Steingervingarannsóknir sýna að tréð á sér 200 milljón ára sögu í Asíu. Þetta tré hefur borist víða og orðið vinsælt og er einkum ræktað til skrauts í almenningsgörðum, skrúðgörðum og við stræti borga víðs vegar um heim. Tréð hefur óvenjulegt þol gegn skordýrum og ýmsum sjúkdómum. Bæði kven- og karlkynsplöntur hafa leðurkennd blævængslöguð blöð sem fá á sig gullinn haustlit áður en þau falla. Kventréð ber illa lyktandi aldin á stærð við apríkósu og er kjarni þess ætur. Blöðin eru notuð til lækninga og fræin í sumum tilvikum. Í Bandaríkjunum eru musteristré ræktuð á nokkrum plantekrum og eru blöðin tínd og þurrkuð og úr þeim er unninn þykktur kjarni sem er staðlaður þannig að hann innihaldi 24 % flavónglýkósíð og 6 % terpen. Kjarninn (sem kallast á ensku GBE (gingko biloba extract)) er eina lyfjaformið sem er notað í lækningaskyni. Einnig er verið að prófa einstök innihaldsefni sem kallast gínkólíð með tillit til ýmissa sjúkdóma.

Notkun
Kínverskir læknar hafa vegsamað lækningamátt musteristrésins í árþúsundir. Það var hins vegar ekki fyrr en fyrir fáeinum áratugum að vestrænir læknar sýndu plöntunni áhuga. 1 Nú eru náttúrulyf unnin úr musteristré meðal þeirra lyfja sem mest eru notuð í mörgum Evrópulöndum, þar með talið Þýskalandi, þar sem þau eru seld án lyfseðils. 2

Í Evrópu og Bandaríkjunum er musteristréð notað gegn ýmiss konar kvillum og sjúkdómum, svo sem hjartasjúkdómum, astma, svima, suði fyrir eyrum, getuleysi, truflun á starfsemi heila og æða, augnsjúkdómum, taugahvot, útæðasjúkdómum (þ.m.t. heltiköstum og Raynauds-sjúkdómi) og veikleika í æðum. Kjarninn er einnig notaður til þess að skerpa skammtímaminni og gegn vitsmunatruflun sem tengist þunglyndi, skaða af völdum heilaáverka, andlegri hrörnun og ýmsum kvillum sem tengjast ellihrörnun. Þá þykir gefa góða raun við astma að anda að sér gufu af seyði úr laufi plöntunnar.

Kjarni úr laufblöðunum er meðal annars notaður í hársápu, krem og aðrar snyrtivörur. Kínverskir alþýðulæknar nota fræ plöntunnar meðal annars gegn astma, útferð úr leggöngum, astmakenndri barkabólgu, slímkenndum hósta, berklum og öðrum öndunarfærasjúkdómum. Þeir nota fræin útvortis gegn maurakláða og til að græða sár. 3 Fræið er lítt nýtt af grasalæknum í Bandaríkjunum þar sem hætta er á eitrun ef fræið er ekki verkað og notað á réttan hátt. Kínverskir læknar nýta einnig rótina, innri hluta barkarins og laufblöðin gegn ýmsum kvillum.

Helstu lyfjaform
Staðlaður kjarni úr laufblöðum af musteristré (gínkókjarni) í hylkjum og töflum, ýmist á föstu eða fljótandi formi. Önnur form af kjarna eru þekkt annars staðar í heiminum, meðal annars kjarni sem er sprautað í æð. Sums staðar eru fræ, lauf og aðrir plöntuhlutar notaðir til lækninga.

Algeng skammtastærð
Kjarninn sem unninn er úr laufblöðunum er tekinn inn í 40 millígramma skömmtum þrisvar á dag með máltíð. Kjarninn ætti að vera staðlaður þannig að hann innihaldi 24 % flavónglýkósíð og 6 % terpen. Einnig má taka 30 dropa af kjarna sem er staðlaður þannig að hann innihaldi 0,5 % flavónglýkósíð og er sá skammtur tekinn þrisvar á dag.

Gagnleg áhrif: niðurstöður rannsókna
Flestar rannsóknir sem gerðar hafa verið á lækningamætti musteristrés hafa beinst að kjarnanum úr laufblöðunum, gínkókjarnanum. Þetta hefur reynst nauðsynlegt þar sem sum innihaldsefni musteristrés þurfa að vera í miklum styrk til þess að lyfjaáhrif þeirra komi fram. Þá geti ennfremur þurft að taka lyfið í margar vikur til þess að það verði í svo miklum styrk að greina megi áhrif þess.

Þótt vísindamenn skilji ekki enn til fullnustu hvernig þetta náttúrulyf verkar fjölgar þeim stöðugt sem eru sannfærðir um gagnleg áhrif þess gegn ýmsum sjúkdómum og kvillum. Nú liggja fyrir allmargar niðurstöður lyfjafræðilegra og klínískra rannsókna sem gefa til kynna að lyfið víkki æðar og bæti blóðflæði í háræðum og tilteknum litlum slagæðum. Þessi eiginleiki kemur að gagni í mörgum blóðrásarsjúkdómum, til dæmis þegar um er að ræða æðahnúta, skammtímaminnisleysi, þunglyndi, vitsmunatruflun tengdri þunglyndi, slagæðasjúkdóma í fótleggjum, heilkenni í kjölfar blóðtappa og kvilla í innra eyra, t.d. suð fyrir eyrun og svima. Greinilegur bati hefur komið fram í rannsóknum þar sem aldraðir hafa prófað lyfið.

Sem dæmi má nefna að sársauki sem fylgir heltiköstum (helti sem kemur og hverfur á víxl) minnkaði verulega hjá sjúklingum sem fengu kjarna úr laufi musteristrés. 4 Sjúkdómurinn stafar af hörðnun slagæða í fótleggjum og getur valdið miklum krampa í kálfavöðvum. Í annarri rannsókn kom fram að musteristréð hjálpar mönnum sem þjást af getuleysi sem stafar af ónógu blóðflæði fram í liminn. Í undirbúningsrannsókn tóku sextíu karlmenn, sem áttu við þennan vanda að stríða, kjarna af laufi musteristrés í tólf til átján mánuði. Í lok tímabilsins hafði helmingur mannanna endurheimt getuna, væntanlega vegna þess eiginleika jurtarinnar að auka blóðflæði um þær æðar sem stuðla að reisn limsins. Þessi verkun kemur að því er virðist aðeins fram eftir að lyfið hefur verið tekið alllengi og frekari rannsókna er þörf til þess að staðfesta niðurstöður þessara rannsókna.

Gínkókjarninn eykur blóðflæði í heila manna samkvæmt rannsókn sem var gerð 1973, en niðurstöður hennar gáfu til kynna að blóðflæðið ykist um 70 % í körlum milli fimmtugs og sjötugs sem fengu kjarnann í sprautuformi. 5 Blóðflæðið jókst aftur á móti ekki jafn mikið hjá yngri mönnum, og reyndist aukningin aðeins vera um 20 % hjá mönnum milli þrítugs og fimmtugs.

Samkvæmt rannsókn sem var gerð 1985 dregur musteristré úr þeim einkennum og teiknum sem fylgja hrörnun heilastarfsemi hjá eldra fólki. 6 Í þessari rannsókn voru þátttakendur 112 og meðalaldur þeirra var 70,5 ár. Fengu þeir 120 mg skammt af stöðluðum kjarna úr laufblöðum daglega. Að ári liðnu voru höfuðverkur, skammtímaminnisleysi, svimi, suð fyrir eyrum, geðtruflun, athyglisskortur og ýmis önnur einkenni marktækt minna áberandi en áður hafði verið. Aðrir mikilvægir þættir, svo sem hjartsláttur og blóðþrýstingur, breyttust ekki. Sá galli var þó á þessari rannsókn að hún var ekki lyfleysustýrð, sem merkir að allir þátttakendur vissu að þeir tóku gínkókjarna. Í gagnrýnni yfirlitsgrein um þær rannsóknir sem hafa verið gerðar til þessa er því haldið fram að áður en hægt verði að álykta um áhrif musteristrés á heilastarfsemi þurfi að framkvæma fleiri og víðtækari, tvíblindar rannsóknir þar sem þátttakendur vita ekki hvort þeir taka inn gínkókjarna eða lyfleysu. 7 Gagnrýnendurnir töldu aðeins átta af fjörtíu rannsóknum vera gallalausar frá aðferðafræðilegu sjónarmiði. Þeir tóku einnig eftir því að meðferð var gagnslaus nema hún hefði varað í a.m.k. sex vikur.

Meðferð þar sem kjarni úr laufblöðum musteristrés er gefinn hefur reynst vel gegn ellihrörnun og vitglöpum, sem koma fram snemma á lífsleiðinni, þ.m.t. andlegri hrörnun sem er tengd Alzheimers-sjúkdómi. Í einni rannsókn kom fram að aldraðir karlar sem þjáðust af vægu minnisleysi voru fljótari að vinna úr sjónrænum upplýsingum þegar þeim var gefið fæðubótarefni með innihaldsefnum úr musteristré. 8 Í tvíblindri víxlrannsókn sem var gerð á átta heilbrigðum sjálfboðaliðum (meðalaldur þeirra var þrjátíu og tvö ár) varð árangur þeirra í minnisprófum ennfremur marktækt betri eftir að þeir höfðu tekið inn 600 mg skammt af gínkókjarna miðað við árangur þeirra eftir að þeir höfðu tekið lyfleysu. 9

Musteristré hefur ofnæmishemjandi verkun samkvæmt niðurstöðum úr tilraunum í glasi, á dýrum og mönnum. Gínkólíðin virðast hindra blóðflöguörvandi þátt, sem er lykilboðefni í astma, ofnæmi og bólgumyndun, að því er virðist með því að koma í veg fyrir að hann festist við viðtaka í himnum og þannig draga innihaldsefni úr musteristré úr svörun ónæmiskerfisins. Sýnt var fram á þetta í rannsókn á astmasjúklingum sem fengu ýmist lyfleysu eða staðlaða blöndu af ýmsum gínkólíðum (40 mg þrisvar á dag) og 120 mg lokaskammt áður en þeir gengust undir áreiti. 10 Áreitið fólst í að viðkomandi maður var látinn komast í snertingu við efnið sem vakti venjulega ofnæmissvörun. Niðurstöðurnar gefa til kynna að gínkólíð hjálpi bæði á fyrstu og síðari stigum þegar um er að ræða ofvirkni í öndunarvegi (berkjukrampa). 11

Sýnt hefur verið fram á að gínkókjarni bæti heyrnargalla sem tengjast lélegu blóðflæði til tauga sem liggja til heyrnarfæra. Líklega stafar þetta af auknu blóðflæði um úttaugakerfið. Í einni rannsókn batnaði frammistaða í heyrnarprófi um 40 % hjá þátttakendum sem tekið höfðu inn gínkókjarna í tvo til sex mánuði. 12 Kjarninn reyndist einnig mjög áhrifaríkur gegn jafnvægisleysi og svima sem tengdist sjúkdómum í innra eyra. Hvað varðar rannsóknir á áhrifum kjarnans á eyrnasuðu hafa niðurstöður ekki allar verð á sama veg.

Niðurstöður rannsókna gefa til kynna að gínkókjarni hefti sindurefni, þ.e.a.s. að kjarninn geri óvirkar þessar hlöðnu agnir í vefjum líkamans sem taldar eru hættulegar þar eð þær stuðli hugsanlega að myndun krabbameina. Frekari rannsóknir þarf til að staðfesta þessar niðurstöður.

Skaðleg áhrif: niðurstöður rannsókna
Aukaverkanir eru tiltölulega sjaldgæfar vegna neyslu gínkókjarna sem er í þeim skömmtum sem mælt er með. Minniháttar meltingartruflana verður þó vart hjá nærri 4 % einstaklinga. 13 Í einstaka tilfellum finnur fólk fyrir höfuðverk og svima. 14 Verulega alvarlegra aukaverkana varð ekki vart hjá einstaklingum sem tóku inn allt að 600 mg stakan skammt af gínkókjarna. 15

Kjötið af aldinunum og fræin eru eitruð og snerting við aldinkjötið getur valdið alvarlegum ofnæmisviðbrögðum sem minna á eiturfléttueitrun, en einkennin eru roði, þroti, kláði og blöðrumyndun. 16 Hugsanlegt er að víxlverkun geti orðið milli aldina musteristrés og brennimjólkur og tveggja annarra tegunda af sömu ættkvísl sem vaxa í Norður-Ameríku. Frá Asíu eru þekkt dæmi um börn sem hafa neytt allt að fimmtíu fræja af musteristré og hafa í kjölfarið fengið flog og jafnvel misst meðvitund. 17

Musteristré dregur úr hraða blóðstorknunar og því er nauðsynlegt fyrir fólk, sem tekur blóðþynningarlyf eða er með blóðstorknunargalla, að gæta ýtrustu varúðar. 18

Meginheimildir
American Pharmaceutical Association. Handbook of Nonprescription Drugs. 11. útg. Washington D.C.: American Pharmaceutical Association, 1996. Castleman, M. T he Healing Herbs: The Ultimate Guide to the Curative Power of Nature´s Medicines. New York: Bantam Books, 1995. Dobelis, I.N., ritstj. The Magic and Medicine of Plants: A Practical Guide to the Science, History, Folklore, and Everyday Use of Medicinal Plants. Pleasantville, NY: Reader´s Digest Association, 1986. Lawrence Review of Natural Products. St. Louis: Facts and Comparisons, febrúar 1994. Leung, A.Y. og S. Foster. Encyclopedia of Common Natural Ingredients Used in Food, Drugs , and Cosmetics. 2. útg. New York: John Wiley & Sons, 1996. Murray, M.T. The Healing Power of Herbs: The Enlightened Person´s Guide to the Wonders of Medicinal Plants. Endurskoðuð og aukin 2. útg. Rocklin, CA: Prima Publishing, 1995. Newall. C. A., et al. Herbal Medicine: A Guide for Health-Care Professionals. London: The Pharmaceutical Press, 1996. Tyler V.E. Herbs of Choice: The Therapeutic Use of Phytomedicinals. Binghamton, NY: Haworth Press/Pharmaceutical Products Press, 1994. Sami höfundur. The Honest Herbal. Binghamton, NY: Haworth Press/Pharmaceuticals Products Press, 1993.

Tilvísanir
1. V.E, Tyler, The Honest Herbal (Binghamton, NY: Haworth Press/Pharmaceuticals Products Press, 1993). 2. Sama heimild. 3. A.Y. Leung og S. Foster, Encyclopedia of Common Natural Ingredients Used in Food, Drugs, and Cosmetics, 2. útg. (New York: John Wiley & Sons, 1996). 4. V.E. Tyler, Herbs of Choice: The Therapeutic Use of Phytomedicinals (Binghamton, NY: Haworth Press/Pharmaceutical Products Press, 1994). 5. G.R. Pistolese, Minerva Medica, 79 (1973): 4166. 6. G. Vorberg, Clinical Trials Journal, 22 (1985): 149-57. 7. J. Kleijnen og P. Knipschild, British Journal of Clinical Pharmacology, 34 (1992): 352-358. 8. H. Allain et al., Clinical Therapeutics, 15 (1993): 549-558. 9. S.Z. Hindmarsh, International Journal of Clinical Pharmacological Research, 4 (1984): 89-93. 10. P. Braquet, Drugs of the Future, 12 (1987): 643-699. 11. C.A. Newall et al., Herbal Medicines: A Guide for Health-Care Professionals (London: The Pharmaceutical Press, 1996). 12. Lawrence Review of Natural Products (St. Louis: Facts and Comparisons, febrúar, 1994). 13. American Pharmaceutical Association, Handbook of Nonprescription Drugs, 11. útg. (Washington D.C.: American Pharmaceutical Association, 1996). 14. American Pharmaceutical Association, sama heimild. 15. Newall, sama heimild. 16. Lawrence Review of Natural Products, sama heimild. 17. M. Yagi et al., Yakugaku Zasshi, 113 (1993): 596. 18. Tyler, The Honest Herbal, (Binghamton, NY: Haworth Press/Pharmaceuticals Products Press, 1993).

© Þýðing: Hálfdan Ómar Hálfdanarson og Þuríður Þorbjarnardóttir

Frá bandaríska lyfjafræðingafélaginu.