Matvælatap og matarsóun
Vitundarvakning um heim allan
Samkvæmt Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) þá fer þriðjungur alls matar á heimsvísu í ruslið. Það eru um 1.3 milljarður tonna af mat á ári.
Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna deilir hugtakinu um matarsóun í tvennt. Mavælatap eða food loss snýr að tapi matvæla við framleiðslu á mat, við pökkun á mat og við dreifingu þ.e. á sér stað á framleiðslustiginu. Matarsóun eða food waste snýr að fæðu á heimilum sem hent er í sorpið s.s. á sér stað hjá kaupendum og neytendum.
FAO vinnur að því í samvinnu við ríkisstjórnir, alþjóða stofnanir ásamt fyrirtækjum í einkageiranum að komast að rót vandans, auka meðvitund um þessa sóun og reyna að setja upp ákveðin regluverk svo hægt sé að draga úr matvælatapi og matarsóun á heimsvísu. Unnið er að því að innan ársins 2030 verði búið að draga úr matarsóun, þ.e. hjá kaupendum og neytendum, um 50% ásamt því að draga úr matvælatapi á framleiðslustiginu. (1)
Víða um heim eru þjóðir farnar að gera sér grein fyrir því að leita þarf allra leiða til að draga úr matarsóun. Í Danmörku er talið að 540 þúsund tonnum af mat sé hent á ári eða um 100 kílóum á hvern íbúa. Í Bretlandi er áætlað að matvælasóun kosti hefðbundna breska barnafjölskyldu um 150.000 ISK á ári. Ekki er ástæða til að ætla að sóunin á Íslandi sé hlutfallslega minni en annars staðar á Vesturlöndum.
Heimili, framleiðendur, verslanir, veitingahús og mötuneyti bera öll ríka ábyrgð á þessari þróun og að sama skapi ábyrgð til að rétta úr þeirri þróun.
Hvað getur þú gert?
Á heimasíðu FAO er hægt að finna myndræn yfirlit yfir góðar hugmyndir til að draga úr matarsóun á heimilum. Einnig er heimasíðan matarsóun.is góð uppspretta fyrir bæði upplýsingar sem og góð ráð til að draga úr matarsóun (2). Sem dæmi má nefna er að versla skynsamlega inn, búa til lista yfir máltíðir vikunnar og versla inn samkvæmt því. Einnig að biðja um/útbúa minni skammta eða nýta afgangana af stærri skömmtum. Fyrir áhugasama þá á heimasíðu FAO er hægt að finna stærsta gagnasafn netsins um matvælatap og matarsóun. Þar er hægt að lesa sér til um orsakir matarsóunar o.s.frv.
Um 30% ferskra afurða komast aldrei í verslanir sökum útlitskrafna verslana. Verslanir setja þó ekki þessar kröfur að ástæðulausu heldur hefur reynslan sýnt að við neytendur kaupum ekki útlitsgölluðu vörurnar. Það er því nauðsynlegt að breyta viðhorfi almennt til útlits grænmetis og ávaxta og hvetja verslanir til að koma þeim í sölu.
Eldað úr öllu eru verkleg námskeið sem haldin eru hjá Kvenfélagssambandi Íslands og eru ætluð til að auka meðvitund og hæfni fólks í að nýta matvælin í ísskápnum hjá sér betur. Notaðar eru uppskriftir en fólki er kennt að breyta þeim og aðlaga eftir því hvað er til í ísskápnum. Námskeiðin eru 4 klst löng og fólk er hvatt til að koma bæði með hrávöru að heiman sem og ílát fyrir afganga.
Frekari upplýsingar fást hjá Kvenfélagssambandi Íslands:
Kvenfélagssamband Íslands
Sími: 552 7430
Netfang: kvenfelag@kvenfelag.is
Góð ráð til að hafa í huga
- Egg eru örugg til neyslu ef þau sökkva í skál af vatni, en fljóta ekki við yfirborðið.
- Oft duga mjólkurvörur mun lengur en uppgefnar dagsetningar segja til um. Því er um að gera að treysta á skynvitin þegar svo á við.
- Mjúkan ost með myglu ætti ekki að borða, en ef mygla myndast á hörðum osti er í lagi að skera einfaldlega mygluna af.
- Ávexti og grænmeti á síðasta snúningi má einfaldlega frysta og nýta síðar.
- Sniðugt er að frysta brauð áður en það harðnar, en einnig eru ýmsar leiðir til að nýta harðnað brauð, t.d. í ofnrétti eða brauðristina.
- Einfalt er að auka geymsluþol ferskra kryddjurta með því að vefja þeim í votan eldhúspappír inni í ísskáp eða frysta þær.
Heimildir:
Heimildir sóttar 09.03.2020