Maríuþistill

Náttúruvörur

  • Mariuthistill

Maríuþistill hefur verið ræktaður bæði sem matjurt og skrautjurt. Evrópumenn hafa notað maríuþistil í meira en tvö þúsund ár sem lyf gegn lifrarkvillum, meltingartruflunum, miklum tíðablæðingum og margvíslegum öðrum kvillum.

Fræðiheiti
Silybum marianum L. Gaertn.
Ætt: Körfublómaætt Asteraceae (Compositae)

Ensk heiti
Milk thistle, Marian, Mary thistle, Our Lady´s thistle, St. Mary´s, silybum.

Einkunn
1 = Áralöng notkun og víðtækar, vandaðar rannsóknir benda til þess að þessi vara sé mjög áhrifarík og örugg að því tilskildu að hún sé notuð í því magni sem mælt er með í ábendingunni (ábendingunum) sem koma fram í kaflanum "Gagnleg áhrif : niðurstöður rannsókna".

Hvað er maríuþistill?
Maríuþistill er upprunninn við Miðjarðarhafið en vex nú á mörgum svæðum í Evrópu og Norður- og Suður-Ameríku, til að mynda í Kaliforníu og á austurströnd Bandaríkjanna. Maríuþistill hefur verið ræktaður bæði sem matjurt og skrautjurt. Hann er hávaxin planta, sem þykir sums staðar illgresi, og er með stór, göddótt, fjaðurflipótt blöð sem mynda mikla og breiða hvirfingu. Í stönglinum er mjólkurkenndur safi sem seytlar út ef stöngullinn rifnar eða springur. Lítil aldin sitja eins og egg í hreiðri í fjaðurkenndum, rauðfjólubláum blómum. Úr aldininu er unnið lyfjaþykkni sem kallast silýmarín. Flestar lyfjablöndur eru staðlaðar þannig að þær innihalda a.m.k. 70% af þessu efni. Aðrir hlutar plöntunnar hafa einnig verið nýttir til lækninga, en í mun minni mæli.

Notkun
Evrópumenn hafa notað maríuþistil í meira en tvö þúsund ár sem lyf gegn lifrarkvillum, meltingartruflunum, miklum tíðablæðingum og margvíslegum öðrum kvillum. Í fornum, rómverskum og grískum ritum er þessarar jurtar getið, en á fyrri hluta tuttugustu aldar hafði áhugi manna fyrir henni að mestu horfið. Þýskir rannsakendur fundu þá í aldinum hennar sérvirk efni sem reyndust hafa mikilvæg áhrif á lifrarstarfseminna, og þá vaknaði á ný sú tiltrú sem verið hafði á nytsemi þessarar jurtar fyrir starfsemi lifrarinnar. Nú eru lyfjablöndur úr maríuþistli taldar allra meina bót fyrir þetta mikilvæga líffæri sem er svo mikilvægt fyrir meltinguna, úrvinnslu úrgangsefna í líkamanum og mörg önnur mikilvæg efnaferli líkamans. Kjarni af maríuþistli er tekinn inn til þess að vernda lifrina gegn váhrifum af völdum hvers kyns eiturefna og einnig til þess að stuðla að uppbyggingu hennar og endurhæfingu hafi hún orðið fyrir skaða. Jurtin hefur það orðspor að neysla hennar stuðli að endurmyndun lifrarfrumna og verki örvandi á alla starfsemi þessa líffæris og það hefur ýtt undir notkun hennar við hver kyns langvinnum lifrarsjúkdómum, meðal annars lifrarbólgu og skorpulifur sem hlýst af ofneyslu áfengis. Þúsundum og milljónum saman hafa menn í helstu áhættuhópum, einkum Evrópubúar, notað lyfjablöndur maríuþistils gegn þessum kvillum.

Aldin maríuþistils hefur einnig þótt koma að gagni við vægum meltingartruflunum, stuðla að aukinni mjólkurframleiðslu mæðra með barn á brjósti og reynast vel gegn kvillum í gallblöðru. Í Evrópu eru fáanlegar lyfjablöndur, sem innihalda efni úr maríuþistli, gegn kvillum í meltingarfærum, gallblöðru og bláæðabólgu. Smáskammtalæknar ávísa gjarnan á örlitla skammta af maríuþistli gegn margvíslegum kvillum.

Helstu lyfjaform
Hylki, dropaþykkni, seyði, aldin (sem eru síðan kramin og af þeim lagað te), vökvi til inndælingar, duftupplausn, töflur, te, tinktúra.

Algeng skammtastærð
Þykkni sem er staðlað þannig að það innihaldi 70 % silýmarín er gjarnan notað í ýmsum myndum. Venjulegur dagskammtur er 12 til 15 grömm af aldinum (heilum eða í duftformi) eða um 200 til 400 millígrömm af silýmaríni. Seyði er lagað með því að taka eina kúfaða teskeið (3 til 5 grömm) af krömdum aldinum og er það drukkið þrisvar til fjórum sinnum á dag þrjátíu mínútum fyrir máltíðir.

Gagnleg áhrif: niðurstöður rannsókna
Seint á sjöunda áratug síðustu aldar urðu merk tímamót þegar þýskum vísindamönnum tókst að einangra efni í aldinum maríuþistils sem hafa verndandi áhrif á lifur. 1 Þeir kölluðu þessi efni silýmarín. Ítarlegar rannsóknir hafa verið gerðar í tilraunaglösum, á smáum dýrum og mönnum og þær leiddu í ljós hversu holl þessi flókna blanda flavónóíða (sem eru flokkur litarefna) er fyrir lifrina.

Af því sem sagt hefur verið hrósvert um silýmarín þykir sá eiginleiki að það verndar raunverulega lifrina vera hvað merkilegastur. Rannsóknir benda til þess að þessi verkun stafi af því að silýmarín breytir ytri byggingu frumuhimnu lifrarfrumnanna þannig að sum eiturefni komast ekki lengur inn í frumurnar. Í rannsóknum á tilraunadýrum hefur verið sýnt fram á þessa verndandi verkun gagnvart ýmsum þáttum sem vitað er að verka sem eitur á lifur. Þar er meðal annars um að ræða kolefnisfjórklóríð, geislun og tilteknar fæðutegundir, svo sem baneitraðan svepp sem nefnist helreifill (death cap) og er náskyldur berserkjasveppi. 2 Rannsóknir á mönnum sem hafa fengið helreifilseitrun hafa sýnt að tíðni dauðsfalla lækkaði marktækt miðað við áður þekkta tíðni meðal þeirra sem meðhöndlaðir voru með blöndu af jurtinni sem kallast sílíbínín og er gefin með inndælingu. 3 Silýmarín losar einnig lifrina við hættuleg eiturefni með því að eyða sindurefnum sem geta skaðað hana. 4

Silýmarín býr jafnframt yfir öðrum góðum eiginleika: efnið örvar endurvöxt lifrarfrumna og getur því í reynd bætt skaða sem lifrin hefur orðið fyrir og stuðlað að því að hún endurheimti fyrri getu hvað starfsemi varðar. Fræðilega gangvirkið sem skýrir þetta er að silýmarín örvar nýmyndun prótína (RNA fjölliðara A) með því að stuðla að myndun nýrra lifrarfrumna og þannig eykst hæfni lifrar til endurvaxtar. 5 Í röð tilrauna tókst að fá fram endurvöxt lifrarfrumna í rottum sem búið var að skera hluta af lifur úr með því að gefa þeim silýmarín. Enn mikilvægara er að í klínískum tilraunum á mönnum hefur tekist að staðfesta að silýmarín getur komið að gagni við lifrarsjúkdómum á borð við langvinna skorpulifur og eitrunarlifur (toxic liver). 6

Í vel útfærðri slembitilraun á áfengisháðri skorpulifur, þar sem hópur sem fékk lyfleysu var hafður til samanburðar, lækkaði dánartíðni marktækt í hópnum sem tók þrisvar á dag 140 mg skammta af silýmaríni. 7 Aðrar tilraunir hafa sýnt að einstaklingum með lifrarsjúkdóma af völdum áfengis- eða lyfjaneyslu sem eru meðhöndlaðir með silýmaríni vegnar miklu betur en þeim sem fá lyfleysu. 8 Þýsk heilbrigðisyfirvöld hafa opinberlega lagt blessun sína yfir notkun aldina maríuþistils gegn lifrarskaða af völdum eiturefna og sem stuðningsmeðferð gegn langvinnri lifrarbólgu og skorpulifur. 9

Maríuþistill reynist einnig vel gegn vægum meltingartruflunum. Þýsk heilbrigðisyfirvöld hafa leyft notkun hans í þessum tilgangi (þá tekinn inn sem seyði). 10 Nýleg rannsókn gefur til kynna að silýmarín geti hugsanlega spornað gegn magasári, en þörf er á frekari rannsóknum á því sviði. 11

Þegar meta skal hvort rétt sé að nota maríuþistil í lækningaskyni skal hafa í huga að hin ýmsu lyfjaform henta í mismunandi tilvikum. Sem dæmi má nefna að grasalæknar mæla með því að taka maríuþistil inn sem te, en sá hængur er á því að teið inniheldur ekki nægilega mikið af virkum efnum til að hafa lyfjaverkun. 12 Virka innihaldsefnið silýmarín leysist ekki vel í vatni, þannig að aðeins örlítið magn af því er í tei. Upptaka silýmaríns úr maga og smáþörmum er léleg og því berst mjög lítið ef þá nokkuð af því í blóðrásina. Af þessum sökum er skynsamlegt að neyta jurtarinnar í formi þykknis, t.d. dropaþykknis. Ef til vill er heppilegasti kosturinn sá að nota lausn til inndælingar. Í Þýskalandi er eingöngu mælt með maríuþistilste við kvillum sem lýsa sér með truflun á starfsemi gallblöðru. 13

Skaðleg áhrif: niðurstöður rannsókna
Samkvæmt ítarlegum rannsóknum á síðustu áratugum eru maríuþistill og silýmarín mjög örugg í þeim skömmtum sem oftast er mælt með. Vægur, en skammvinnur niðurgangur, virðist vera eina áhættan. Jafnvel stórir skammtar virðast ekki hafa eituráhrif, ef til vill vegna þess að ofgnótt efnanna skolast einfaldlega út með þvagi. 14 Þýsk heilbrigðisyfirvöld greina ekki frá neinum tilvikum þar sem forðast ætti jurtina eða kjarna úr henni og ekki er heldur vitað til að um skaðlega milliverkun við önnur lyf sé að ræða. 15 Þýskar heimildir gefa til kynna að jurtin sé jafnvel örugg fyrir barnshafandi konur, þótt tryggara sé að ræða þetta við lækni. 16 Lifrarsjúkdómar eru á hinn bóginn alvarlegir kvillar og rétt er að ráðgast við lækni áður en þetta lyf eða eitthvert annað er notað gegn þeim.

Maríuþistill á Íslandi
Í Garðblómabók Hólmfríðar Sigurðardóttur, sem út kom 1995, er þess getið að maríuþistill hafi vaxið í Hveragerði sumarið 1986 og náð þá ágætum þroska. Jurtin verður um metri á hæð og er ámóta mikil um sig. Hún blómgast seint í ágúst eða í september. Þess galla er getið að blöðin séu svo þyrnótt að jurtin sé vart snertandi.

Meginheimildir
American Pharmaceutical Association. Handbook of Nonprescription Drugs. 11. útg. Washington D.C.: American Pharmaceutical Association, 1996. Bisset N.G., ritstj. Herbal Drugs and Phytopharmaceuticals. Stuttgart: medpharm. GmbH Scientific Publishers, 1994. Blumenthal, M., J. Gruenwald, T. Hall og R.S. Rister, ritstj. The Complete German Commission E Monographs: Therapeutic Guide to Herbal Medicine. Boston: Integrative Medicine Communications, 1998. Foster, S. Milk Thistle: Botanical Series. American Botanical Council. Nr. 305, 1991. Review of Natural Products. St. Louis: Facts and Cmparisons, January 1997. Lorenz, D. et al., Planta Medica. 45 (1982): 216. Mayall, M. Off-the-Shelf Natural Health: How to Use Herbs and Nutrients to Stay Well. New York: Bantam Books, 1995. Mindell, E. Earl Mindell´s Herb Bible. New York: Simon & Schuster/Fireside, 1992. Tyler, V.E. Herbs of Choice: The Therapeutic Use of Phytomedicinals. Binghamton, NY: Haworth Press/Pharmaceutical Products Press, 1994. Tyler, V.E. The Honest Herbal. Binghamton, NY: Haworth Press/ Pharmaceutical Products Press, 1993. Valenzuela, V., et al. Planta Medica. 52 (1986): 438. Wagner, H., et al. Arznmeittel-Forschung. 18 (1968): 688-696. Weiss, R.F. Herbal Medicine, þýð. A.R. Meuss úr 6. þýsku útg. Beaconsfield, England: Beaconsfield Publishers, Ltd., 1988.

Tilvísanir
1. H. Wagner et al., Plant Drug Analysis (New York: Springer-Verlag, 1984.) 2. G. Vogel og I. Temme. Arznmeittel-Forschung, 19 (1969): 613-615. 3. C. Hruby, Forum, 6 (1984): 23-26. 4. H. Hikino og Y. Kiso, "Natural Products for Liver Disease", Economic and Medicinal Plant Research, 2. bindi (New York: Academic Press, 1988), 39-72. 5. V.E. Tyler, Herbs of Choice: The Therapeutic Use of Phytomedicinals. (Binghamton, NY: Haworth Press/Pharmaceutical Products Press, 1994). N.G. Bisset, ritstj. Herbal Drugs and Phytopharmaceuticals. Stuttgart: medpharm. GmbH Scientific Publishers, 1994. S. Foster, Milk Thistle: Botanical Series. American Botanical Council. Nr. 305, 1991. 6. Bisset, sama heimild. 7. P. Ferenci et al., Journal of Hepatology, 9 (1989): 105-113. 8. Foster, sama heimild. 9. M. Blumenthal, J. Gruenwald, T. Hall og R.S. Rister, ritstj. The Complete German Commission E Monographs: Therapeutic Guide to Herbal Medicine. (Boston:Integrative Medicine Communications, 1998). 10. Ibid. V. Fintelmann, Planta Medica, 57 (7) (1991): S48-52. 11. A.C. Alarcon de la Lastra et al., Planta Medica, 61 (2) (1995): 116-119. 12. V.E. Tyler, The Honest Herbal. (Binghamton, NY: Haworth Press/ Pharmaceutical Products Press, 1993). 13. Bisset, sama heimild. 14. Sama heimild. 15. Blumenthal et al., sama heimild. 16. R.F. Weiss, Herbal Medicine, þýð. A. R. Meuss úr 6. þýsku útg. (Beaconsfield, England: Beaconsfield Publishers, Ltd., 1988).

© Þýðing: Hálfdan Ómar Hálfdanarson og Þuríður Þorbjarnardóttir

Frá bandaríska lyfjafræðingafélaginu.