Kvöldvorrósarolía

Náttúruvörur

  • Kvoldvorrosarolia

Kvöldvorrós er stór, fínleg blómplanta af ættkvísl næturljósa og vex villt í austanverðri Norður-Ameríku. Plantan er ræktuð í mörgum heimshlutum og er olían úr fræinu seld sem fæðubótarefni eða sem innihaldsefni í sérstökum matvælum í yfir þrjátíu löndum.

Fræðiheiti
Oenothera biennis L.
Ætt: Eyrarrósarætt Onagraceae.

Ensk heiti
Evening primrose oil, King´s cure all.

Einkunn
2 = Að teknu tilliti til fjölda vel útfærðra tilrauna og mikillar notkunar virðist þetta efni vera tiltölulega áhrifaríkt og öruggt að því tilskildu að það sé notað í því magni sem mælt er með í ábendingunni (ábendingunum) í kaflanum "Gagnleg áhrif: niðurstöður rannsókna".

Hvað er kvöldvorrósarolía?
Kvöldvorrós er stór, fínleg blómplanta af ættkvísl næturljósa og vex villt í austanverðri Norður-Ameríku. Í litlu, rauðleitu fræjunum er olía sem inniheldur mikilvægt efni sem heitir gamma-línólsýra (GLA). Plantan er ræktuð í mörgum heimshlutum og er olían úr fræinu seld sem fæðubótarefni eða sem innihaldsefni í sérstökum matvælum í yfir þrjátíu löndum. Í Bandaríkjunum og Kanada einum eru framleidd þrjú til fjögur hundruð tonn af fræjum árlega. Skærgulu blómin springa oftast út á kvöldin og haldast útsprungin aðeins fram á næsta dag.

Notkun
Frumbyggjar Ameríku notuðu kvölvorrós til matar og sem lyf gegn ýmsum kvillum löngu áður en Evrópumenn kynntust plöntunni á sautjándu öld. Síðan þá hafa alþýðulæknar mælt með seyði gert úr allri plöntunni, því að það verkaði herpandi og róandi og einnig var það notað gegn meltingartruflunum, astmahósta og kíghósta. Bakstrar gerðir úr slíku seyði voru notaðir til að örva gróanda sára. Margir grasalæknar mæla enn með plöntunni allri við kvíða og til að viðhalda heilbrigði húðar.

Olían er þekktasti þáttur kvöldvorrósarfræjanna. Hún inniheldur mikið af lífsnauðsynlegum fitusýrum, einkum gamma-línólsýru, og sis-línólsýru sem líkaminn breytir í mikilvæg hormón. Báðar þessar fitusýrur eru mikilvægar fyrir lífeðlisfræðilega starfsemi. Sérfræðingar deila um það hvort rekja megi orsök margra kvilla til skorts á nauðsynlegum fitusýrum eða truflunar á efnaskiptum þeirra. Stuðningsmenn jurtarinnar halda því fram að gamma-línólsýra geti bætt kvilla á borð við liðagigt, húðbólgu og aðrar bólguhúðsjúkdóma (t.d. exem), fyrirtíðaspennu , hárlos, verk í brjóstum, ófrjósemi (einkum í körlum), lélega virkni ónæmiskerfis og hjartasjúkdóma. Dýratilraunir og vaxandi fjöldi rannsókna á mönnum styðja sumar þessara fullyrðinga, en niðurstöðurnar eru umdeildar og gagnrýnendur eru enn vantrúaðir. Olía í sólberjarunna og hjólkrónu inniheldur einnig lífsnauðsynlegar fitusýrur og er notuð í svipuðum tilgangi.

Helstu lyfjaform
Hylki (vökvafyllt), vökvi, olía, töflur.

Algeng skammtastærð
Skammtastærð er breytileg eftir því hvers konar kvillar eru meðhöndlaðir. Algengur skammtur er 250 mg sem er tekinn allt að þrisvar sinnum á dag. Þegar náttúrulyfið er tekið við fyrirtíðaspennu er olían tekin tveimur til þremur dögum áður en gert er ráð fyrir að einkenni geri vart við sig. Til að fyrirbyggja bólgusjúkdóma og blóðrásarsjúkdóma þarf 270-720 mg af olíu daglega, en þessi olíuskammtur samsvarar 1-2 grömmum af gamma-línólsýru. Oftast er mælt með minni skömmtum fyrir ofnæmiskennt exem, eða 250-500 mg af gamma-línólsýru á dag.

Gagnleg áhrif: niðurstöður rannsókna
Fræ kvöldvorrósar innihalda um 14 % af stöðugri olíu, kvöldvorrósarolíu, en í henni eru u.þ.b. 7-10 % af gamma-línólsýru, sem er lífsnauðsynleg, fjölómettuð fitusýra, og sis-línólsýra (um 50-70 %). Rannsóknir gefa til kynna að þegar olíunnar er neytt geti líkaminn ummyndað gamma-línólsýruna í henni yfir í forefni hormónsins prostaglandíns. Þótt gamma-línólsýra sé eitt helsta innihaldsefnið í móðurmjólk kemur það aðeins fyrir í litlu magni í mörgum algengum matvælum. Mikið kólesteról í blóði, öldrun, streita, alkóhól, sykursýki, fyrirtíðaspenna, veirusýkingar og fleiri þættir virðast geta truflað eðlilega ummyndun línólsýru í gamma-línólsýru. 1 Plöntusérfræðingar fullyrða að þeir einstaklingar, sem fá lítið eða ekkert af gamma-línólsýru í fæðu, og þeir, sem geta ekki breytt sis-línólsýru á eðlilegan hátt í gamma-línólsýru við efnaskiptin, fái bót við það að neyta kvöldvorrósarolíu og annarra fæðubótarefna sem innihalda mikið af efninu. 2

Á hinn bóginn deila menn enn um hvort gamma-línólsýra komi að haldi gegn liðagigt, fyrirtíðaspennu, háum blóðþrýstingi og hjartasjúkdómum eins og sumir talsmenn efnisins halda fram. Dýratilraunir og nýjar rannsóknir á mönnum gefa til kynna að sumar þessar fullyrðingar eigi við rök að styðjast, þótt niðurstöður séu umdeildar og gagnrýnendur eru enn vantrúaðir. Þegar meta skal gildi þessara rannsókna ber að hafa í huga að í nær öllum tilvikum voru hylki notuð. Mikilvægt er að kaupa þau frá áreiðanlegum birgjum þar sem komið hefur í ljós að dæmi eru um að ódýr olía, svo sem sólblómaolía, hafi verið sett í hylki og seld sem kvöldvorrósarolía. 3

Sumar rannsóknir benda til að gamma-línólsýra geti minnkað líkur á hjartasjúkdómum og heilablóðfalli með því að minnka magn kólesteróls í blóði og draga úr samloðun blóðflagna sem er forsenda blóðtappamyndunar eða veitt bata í kjölfar slíkra áfalla. 4 Í rannsókn, sem var gerð árið 1983, kom fram marktæk minnkun á kólesteróli í blóði (31,5 %) í 179 sjúklingum sem tóku kvöldvorrósarolíu í þrjá mánuði. Engin sambærileg lækkun kom fram hjá litlum hópi manna sem fékk lyfleysu. 5 Í nýlegum læknisfræðilegum heimildum er ekki getið um aðrar rannsóknir á mönnum um þetta efni.

Vaxandi fjöldi rannsóknaniðurstaðna bendir til þess að einstaklingar, sem þjást af ofnæmiskenndu exemi, séu með galla í efnaskiptum lífsnauðsynlegra fitusýrna (nánar til tekið galla í starfsemi ensíms sem gamma-línólsýra tekur þátt í að virkja.) 6 Niðurstöður úr klínískum tilraunum á áhrifum kvöldvorrósarolíu (og þar með gamma-línólsýru) til að draga úr kláða og öðrum einkennum sem tengjast ofnæmiskenndu exemi og öðrum húðkvillum hafa verið mismunandi. Sumar sýna lítils háttar bata, en aðrar engan bata. Í ýmsum rannsóknum hefur inntaka fæðubótarefna með gamma-línólsýru ekki aðeins reynst áhrifarík og bætt ofnæmiskennt exem 7, m.a .þar sem börn fengu stórkostlega bót eftir fjögurra vikna meðferð 8, heldur hefur einnig komið í ljós að þessi efni sefa kláða marktækt betur en lyfleysa og minnka þannig þörf á steralyfjum. 9 Hins vegar hafa ekki allar rannsóknir sýnt jafn jákvæðan árangur. 10 Kvöldvorrósarolía í lyfjablöndum til að bera á ofnæmiskennt exem er opinberlega viðurkennd og mikið notuð, til dæmis á Englandi. 11

Mismunandi niðurstöður hafa einnig fengist úr rannsóknum á gagnsemi kvöldvorrósarolíu við liðagigt. Olían hefur verið rannsökuð ítarlega sem meðferð við þessum sjúkdómi sem leiðir oft til fötlunar 12 og hafa niðurstöður sumra rannsókna sýnt marktæka bót umfram lyfleysu, til dæmis við rannsókn á aumum og bólgnum liðum. 13 Í að því er virðist vel hannaðri, tvíblindri rannsókn sem greint var frá 1988 staðhæfðu liðagigtarsjúklingar að kvöldvorrósarolíuhylki bættu ástand þeirra marktækt miðað við lyfleysu. 14 Sama jákvæða niðurstaðan fékkst hjá sjúklingum sem fengu kvöldvorrósarolíu ásamt lýsi. Útkoman var reyndar sú að sumir fengu svo mikla bót að þeir íhuguðu að hætta meðferð með bólguhemjandi lyfjum sem voru ekki sterar.

Einnig hefur verið greint frá athygliverðum niðurstöðum gegn kvillum á borð við ristilbólgu (ulcerative colitis) (takmarkaður árangur í lyfleysustýrðri rannsókn) 15, sykursýki (áhrif þar sem skemmdir á taugavef ganga til baka, auk þess að tilteknir fituefnaskiptaþættir urðu eðlilegir á ný) 16, mýlisskaða (MS-sjúkdómi) (lítils háttar bót í tilraunum á mönnum) 17, verkjum í brjóstum sem stafa til dæmis af blöðrum í brjóstum (polycystic breast disease) (veruleg bót í tilraunum á mönnum) 18 og fráhvarfseinkennum eftir alkóhólneyslu (auk þess sem lifrarbati varð hraðari). 19 Rannsakendur greina frá því að kvöldvorrósarolía geti drepið sumar gerðir krabbameinsfrumna, bæði í tilraunaglösum og lifandi dýrum, en virkni gegn krabbameini í mönnum er enn óljós. 20 Inndæling kvöldvorrósarolíu í tilraunadýr hafði í för með sér marktæka minnkun æxla í samanburði við lyfleysu. 21

Í nokkrum rannsóknum á fyrirtíðaspennu dró marktækt úr einkennum eins og viðkvæmni í brjóstum, pirringi, þunglyndi og þembu hjá konum sem tóku inn kvöldvorrósarolíu í samanburði við lyfleysu. 22 Ekki hafa þó allar rannsóknir um þetta efni gefið jákvæðar niðurstöður 23 og er notkun olíunnar gegn fyrirtíðaspennu enn umdeild. 24

Skaðleg áhrif: niðurstöður rannsókna
Þegar kvöldvorrósarolía er tekin í þeim skömmtum, sem eru oftast ráðlagðir, er öryggi hennar með ágætum. Í læknisfræðilegum ritum er hvergi greint frá alvarlegum hliðarverkunum þrátt fyrir víðtæka notkun. Framleiðandi, sem gerði eiturefnatilraunir á dýrum, greindi frá niðurstöðum sem vitnuðu um mikið öryggi. 25

Meginheimildir
American Pharmaceutical Association, Handbook of Nonprescription Drugs, 11. útg., Washington D.C.: American Pharmaceutical Association, 1996. Lawrence Review of Natural Products. St. Louis: Facts and Comparisons, November 1993. Leung A.Y. og S. Foster. Encyclopedia of Common Natural Ingredients Used in Food, Drugs, and Cosmetics. 2. útg. New York: John Wiley & Sons, 1996. Mindell, E. Earl Mindell´s Herb Bible. New York: Simon & Schuster/Fireside, 1992. Trease, G.E. og W.C. Evans. Trease and Evans´ Pharmacognosy, 13. útg. Philadelphia:Balliere Tindall, Weiss, R.F. Herbal Medicine, þýð. A.R. Meuss úr 6. þýsku útg. Beaconsfield, England: Beaconsfield Publishers, Ltd., 1988.

Tilvísanir
1. American Pharmaceutical Association, Handbook of Nonprescription Drugs, 11. útg., (Washington D.C.: American Pharmaceutical Association, 1996). 2. V.E. Tyler, Herbs of Choice: The Therapeutic Use of Phytomedicinals (Binghamton, NY: Haworth Press/Pharmaceutical Products Press, 1994). H. Traitler et al., Lipids, 19 (12) (1984): 923-928. 3. Lawrence Review of Natural Products.( St. Louis: Facts and Comparisons, nóvember 1993). 4. J. Poulaka et al., Journal of Reproductive Medicine, 30 (1985): 149. Lawrence Review of Natural Products, sama heimild. 5. D.F. Horrobin og M.S. Manku, grein kynnt á árlegum fundi International Conference on Oils, Fats, and Waxes, Auckland, 1983. Lawrence Review of Natural Products, sama heimild. 6. American Pharmaceutical Association, sama heimild. 7. S. Wright, Acta Dermato-Venereologica. Supplementum, 114 (1985): 143-145. M.J. Kerscher og H.C. Korting, Clinical Investigator, 70 (2) (1992): 167-171. 8. P.L. Biagi et al., Drugs Under Experimental & Clinical Research, 14 (4) (1988): 285-290. 9. Lawrence Review of Natural Products, sama heimild. 10. J. Berth-Jones og R.A. Graham-Brown, The Lancet, 341 (8860) (1993): 1557-1560. 11. American Pharmaceutical Association, sama heimild. 12. L.A. Joe og L.L. Hart, Annals of Pharmacotherapy, 27 (12) (1993): 1475-1477. 13. L.J. Leventhal et al., Annals of Internal Medicine 119 (9) (1993): 867-873. 14. J.J. Belch et al., Annals of the Rheumatic Diseases, 47 (2) (1988): 96-104. 15. S.M. Greenfield et al., Alimentary Pharmacology and Therapeutics, 7 (2) (1993): 159-166. 16. G.A. Jamal, The Lancet, 1 (1986): 1098. R. Takahashi et al., Prostaglandins, Leukotrienes, and Essential Fatty Acids, 49 (2) (1993): 569-571. 17. E.F. Field, The Lancet, 1 (1978): 780. D. F. Horrobin, Medical Hypotheses, 5 (1979): 365. Lawrence Review of Natural Products, sama heimild. 18. C.A. Gately og R.E. Mansel, British Medical Bulletin, 47 (1991): 284. 19. I. Glen et al., Alcoholism, Clinical & Experimental Research, 11 (1987): 37-41. 20. G. Ramesh et al., Nutrition, 8 (5) (1992): 343-347. 21. T. Ghayor og D.F. Horrobin, IRCS Medical Science, 9 (1981): 582. 22. D.F. Horrobin, Journal of Reproductive Medicine, 28 (7) (1983): 465-468. 23. Lawrence Review of Natural Products, sama heimild. 24. A. Stewart, Journal of Reproductive Medicine, 32 (6) (1987): 435-441. 25. Lawrence Review of Natural Products, sama heimild.

© Þýðing: Hálfdan Ómar Hálfdanarson og Þuríður Þorbjarnardóttir

Frá bandaríska lyfjafræðingafélaginu.