Hvítlaukur
Hvítlauksplantan Allium sativum, sem kallast líka hvítlaukur, er alþekkt matar- og lækningajurt og laukurinn er sá hluti plöntunnar sem er notaður.
Fræðiheiti
Allium sativum L.
Ætt: Liljuætt Liliaceae.
Önnur heiti
Geirlaukur.
Enskt heiti
Garlic.
Einkunn
1 = Áralöng notkun og víðtækar, vandaðar rannsóknir benda til þess að þessi vara sé mjög áhrifarík og örugg að því tilskildu að hún sé notuð í því magni sem mælt er með í ábendingunni (ábendingum) sem koma fram í kaflanum "Gagnleg áhrif: niðurstöður rannsókna".
Hvað er hvítlaukur?
Hvítlauksplantan
Allium sativum, sem kallast líka hvítlaukur, er alþekkt matar- og lækningajurt og laukurinn er sá hluti plöntunnar sem er notaður. Plantan ber bleik eða fjólublá blóm og blómgast í júlí til september. Hún tilheyrir liljuættinni og aðrar áþekkar og kunnar nytjaplöntur í þessari ætt eru matarlaukur, púrrulaukur og skalotlaukur (sjalottulaukur), auk graslauks sem er talsvert ræktaður hér á landi og nýttur sem krydd.
Notkun
Hvítlaukur hefur verið ræktaður í meira en fimm þúsund ár. Egypsku faraóarnir höfðu miklar mætur á honum, svo og keisararnir í Kína til forna. Þrælar í Egyptalandi fengu sinn daglega skammt af hvítlauk.
1 Laukurinn hefur verið notaður kynslóð fram af kynslóð sem fyrirbyggjandi lyf og allra meina bót og á miðöldum héldu alþýðulæknar því fram að hvítlaukur gæti jafnvel hrakið brott vampírur, nornir og aðrar óæskilegar verur. Franski örverufræðingurinn Louis Pasteur veitti sýklaeyðandi verkun hvítlauks athygli á miðri 19. öld og læknirinn Albert Schweitzer notaði hvítlauk til að meðhöndla blóðkreppusótt í Afríku,
2 og aðrir læknar annars staðar í heiminum mæltu með því að berklasjúklingar önduðu að sér hvítlauksgufum. Hvítlaukur hefur verið notaður til sóttvarnar í margar kynslóðir og var kallaður "rússneskt penisillín" á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar þegar penisillín var af skornum skammti. Læknar báru þá safa úr hvítlauk á sár sem ígerð hafði komist í.
3
Grasalæknar, bæði til forna og nú á dögum, hafa ráðlagt hvítlauk gegn ýmsum krankleika, þ.á m. kvefi (einkum þrálátu), hósta, flensu, þrálátri barkabólgu, kíghósta, hringormum, astma, ormasýkingu í þörmum, sótthita og truflunum í meltingarfærum, gallblöðru og lifur. Sérstaka athygli hefur hvítlaukur vakið á síðustu árum vegna þess að talið hefur verið að neysla hans geti spornað gegn fituhrörnun æða og áhættuþáttum hjartasjúkdóma, t.d. háum blóðþrýstingi, of miklu kólesteróli og myndun blóðtappa, en auk þess þykir hann góður gegn slæmsku í maga og þörmum.
Helstu lyfjaform
Laukur (ferskur, þurrkaður), hylki, kjarni, seyði, safi, vökvi, olía, síróp, töflur, tinktúra. Hvítlaukur sem er á markaði sem náttúrulyf er mjög breytilegur hvað varðar framleiðsluaðferð og magn virka innihaldsefnisins alliíns sem breytist í efnið allisín í líkamanum. Best er að taka húðaðar, þurrkaðar hvítlaukstöflur eða -hylki sem berast heil og ósködduð til smáþarmanna, því að þar á sér stað umbreytingin úr alliíni í allisín.
4 Notagildi hvítlaukslyfjaforma, sem eru leyst upp í olíu, er ekki að öllu leyti ljóst, þar eð allisín helst ekki alltaf óbreytt í olíu. Í mörgum heimildum er efast um lækningamátt svokallaðra lyktarlausra forma af hvítlauk og margir telja að lækningamátturinn sé nátengdur hvítlaukslyktinni, enda stafar lyktin af virka innihaldsefninu.
Algeng skammtastærð
Algengt er að mælt sé með því að nota skammt sem svarar til eins til fimm hvítlauksrifja á dag. Eitt rif (4 grömm) inniheldur um 100 millígrömm af alliíni sem getur umbreyst í allt að 4 millígrömm af allisíni. Daglegur skammtur af þroskuðum (aged) hvítlaukskjarna er 10-20 grömm.
Gagnleg áhrif: niðurstöður rannsókna
Í ljós hefur komið að hvítlaukur hefur margvísleg læknandi áhrif. Hann heldur bakteríum og veirum í skefjum, kemur í veg fyrir blóðtappa, lækkar blóðþrýsting, dregur úr bólgu, minnkar styrk blóðsykurs, hefur sefandi áhrif á meltingarveginn, minnkar kólesterólmagn í blóði og vinnur gegn kvefi og flensu. Sumir þessara eiginleika hafa verið staðfestir tryggilegar en aðrir, en allir eru þeir studdir vísindalegum rökum.
Helsta innihaldsefnið í hvítlauk, lyktarlausa amínósýruafleiðan alliín, umbreytist í efnasambandið allisín þegar hvítlauksrif er marið eða heilleiki þess er rofinn á annan hátt. Efnafræðingar einangruðu þessi efni fyrst á fimmta áratugnum og áhugi á hvítlauk og rannsóknir á honum hafa verið miklar æ síðan. Þetta sést á því að á undanförnum áratugum hafa hið minnsta eitt þúsund skýrslur um hann verið gefnar út. 5
Niðurstöður rannsókna gefa til kynna að tiltölulega stórir skammtar (fimm rif eða meira á dag) af ferskum hvítlauk geti dregið úr hættu á hjartasjúkdómum og spornað gegn fituhrörnun æða með því að minnka kólesterólmagn blóðs og stuðla að sundrun fíbríns og hamla þannig gegn blóðstorknun. 6 Sú varð niðurstaða hollenskra vísindamanna sem könnuðu niðurstöður tæplega tuttugu stýrðra rannsókna um þetta efni. 7 Hvítlaukslyfjaform sem eru á markaðnum eru án vafa mismunandi hvað varðar upprunalegan styrk virka efnisins og það kemur fram í miklum breytileika í niðurstöðum rannsókna, en það er vandi sem við er að etja í öllum rannsóknum á hvítlauk.
Nýlegar rannsóknir benda til þess að í flestum tilvikum dragi hvítlaukur úr heildarkólesterólmagni og magni léttlípóprótína (LDL), sem eru oft nefnd "slæma kólesterólið", marktækt meira en lyfleysa og auk þess stuðlar hvítlaukurinn að auknum styrk þunglípóprótína (HDL), "góða kólesterólsins". 8 Í sextán vikna rannsókn sem tók til 261 þátttakanda með of mikið kólesteról í blóði og stóð í 16 vikur var þátttakendum gefið staðlað hvítlauksduft sem innihélt 1,3 % allisín og að meðaltali minnkaði styrkur kólesteróls um 12 % og styrkur þríglýseríða (fitu) um 17 %. 9 Önnur lyfleysustýrð rannsókn leiddi í ljós að ef hvítlaukstöflur voru teknar lækkaði heildarmagn kólesteróls um 6 % og magn slæma kólesterólsins um 11 %. 10 Rannsókn sem náði til tuttugu heilbrigðra manna sem tóku hvítlauk í olíu tvisvar á dag í sex mánuði leiddi í ljós að meðalmagn kólesteróls í blóðvökva minnkaði marktækt, en magn góða kólesterólsins jókst. 11
Aðrar rannsóknir benda til þess að hvítlaukur komi að gagni gegn tilteknum hjartakvillum, ef til vill vegna þess að hann lækkar blóðþrýsting, 12 og einkum ef blóðþrýstingurinn var hár fyrir. 13 Hvítlaukur getur ef til vill líka dregið úr hættu á myndun blóðtappa með því að varna því að blóðflögur taki að loða saman og mynda þyrpingar eða kekki. 14 Sýnt hefur verið fram á þetta bæði með tilraunum í glösum og með tilraunum á dýrum og með rannsóknum þar sem fylgst var með blóðstorknunargildum hjá mönnum sem neyttu fersks hvítlauks. 15 Hvítlaukur örvar ennfremur sundrun fíbríns, sem er eðlileg aðferð líkamans til þess að eyða blóðtappa. 16 Þýsk heilbrigðisyfirvöld hafa samþykkt þá fæðubótaraðferð að neyta 4 millígramma af söxuðum, ferskum hvítlauk eða 8 millígramma af hvítlauksolíu í því skyni að reyna að minnka fitumagn blóðs og koma í veg fyrir aldurstengdar breytingar á æðum (æðakölkun). 17
Hugsanlegt er að hvítlaukur hafi enn víðtækari lækningamátt en hér hefur verið greint frá. Hann lofar til dæmis góðu sem meðferð til að lækna sýkingu, krabbamein og meltingarkvilla. Bakteríueyðandi áhrif hans hafa verið staðfest með rannsóknum í glösum og með dýratilraunum, 18 og jafnvel veirueyðandi áhrif hafa komið fram. 19 Vísindamenn kanna nú hvort nota megi hvítlauk til að lækna gersveppasýkingar (bæði í munni og leggöngum). 20 Þá hefur einnig verið getið um bólguhemjandi áhrif og áhrif gegn sníkjuormum.
Skaðleg áhrif: niðurstöður rannsókna
Þrátt fyrir að flestir þoli (og jafnvel njóti þess) að neyta hvítlauks í hæfilegu magni finna sumir fyrir óþægindum í meltingarvegi eftir neyslu hans. Ennfremur getur fólk fengið brunatilfinningu í munn, ógleði, uppköst og niðurgang.
21 Ofnæmisviðbrögð eru sjaldgæf.
Virka efnið í hvítlauk gerir það að verkum að varhugavert getur verið fyrir fólk að nota hann sem náttúrulyf ef það tekur eða notar einhver lyf, sem minnka blóðsykur, eða blóðþynningarlyf á borð við varfarín og magnýl (aspirín). 22 Engar nýlegar rannsóknir hafa sýnt fram á skaðleg áhrif hjá barnshafandi konum sem nota hvítlauk sem náttúrulyf, en vitað er að hann hefur verið notaður til að koma fósturláti af stað í sumum menningarsamfélögum og hugsanlegt er að hann hafi áhrif tíðahring eða leg. 23 Rannsóknir í glösum hafa greint frá samdrætti í vefjasýni úr legi sem komst í snertingu við hvítlauk. 24 Barnshafandi konur ættu af þessum sökum ef til vill ekki að nota hvítlauk sem náttúrulyf.
Hin einkennandi hvítlaukslykt sem greina má bæði af húð og andardrætti þeirra sem neyta hvítlauks er örugglega ekki skaðleg.
Meginheimildir
American Pahrmaceutical Association.
Handbook of Nonprescription Drugs. 11. útg. Washington D.C.: American Pharmaceutical Association, 1996. Blumenthal, M.; J. Gruenwald, T. Hall og R.S. Rister, ritstj.
The Complete German Commission E Monographs: Therapeutic Guide to Herbal Medicine, Boston: Integrative Medicine Communications, 1998. Bradley, P.C. ritstj.
British Herbal Compendium: A Handbook of Scientific Information on Widely Used Pland Drugs, 1. b. Bournemoth (Dorset), England: British Herbal Medicine Association, 1992. Castleman, M.
The Healing Herbs: The Ultimate Guide to the Curative Power of Nature´s Medicines. New York: Bantam Books, 1995.
Lawrence Review of Natural Products. St. Louis: Facts and Comparisons, apríl 1994. Leung, A.Y., og S. Foster.
Encyclopedia of Common Natural Ingredients Used in Food, Drugs, and Cosmetics. 2. útg. New York: John Wiley & Sons, 1996. Murray, M.T.
The Healing Power of Herbs: The Enlightened Person´s Guide to the Wonders of Medicinal Plants. Endurskoðuð og aukin 2. útg. Rocklin, CA: Prima Publishing, 1995. Newall, C.A., et al.
Herbal Medicines: A Guide for Health-Care Professionals. London: The Pharmaceutical Press, 1996. Tyler, V.E.
Herbs of Choice: The Therapeutic Use of Phytomedicinals. Binghamton, NY: Haworth Press/Pharmaceutical Products Press, 1994.
The Honest Herbal. Binghamton, NY: Haworth Press/Pharmaceutical Products Press, 1993. Weiss, R.F.
Herbal Medicin, trans. A.R. Meuss, úr 6. útg. á þýsku. Beaconsfield, England: Beaconsfield Publishers, Ltd., 1988.
Tilvísanir
1. M. Castleman,
The Healing Herbs. TheUltimate Guide to the Curative Power of Nature´s Medicines (New York: Bantam Books, 1995). 2. M.T. Murray,
The Healing Power of Herbs: The Enlightened Person´s Guide to the Wonders of Medicinal Plants, endurskoðuð og aukin 2. útg., (Rocklin, CA:Prima Publishing, 1995). 3. Castleman, op. cit. 4. V.E. Tyler,
Herbs of Choice: The Therapeutic Use of Phytomedicinals (Binghamton, NY: Haworth Press/Pharmaceutical Products Press, 1994). 5. Ibid. 6. B.S. Kendler,
Preventive Medicine, 16 (1987): 670-85. P. Mansell and J.P.D. Reckless,
British Medical Journal, 303 (1991):379-80. 7. Tyler, op. cit. J. Kleijnen et al.,
British Journal of Clinical Pharmacology, 28 (1989):535-44. 8. E. Ernst,
Pharmatherapeutica, 5 (1987): 83-89. 9. F.H. Mader,
Arzneimittel-Forschung, 40(II) (1990):1111-16. 10. A.K. Jainet al.,
American Journal of Medicine, 94 (1993): 632. 11.
Lawrence Review of Natural Products, (St. Louis: Facts and Comparisons, April 1994). 12. F.G. McMahon et al.,
Pharmacotherapy, 13(4) (1993):406. 13. W. Auer et al.,
British Journal of Clinical Practice, 44(Suppl.69) (1990): 3-6. 14. H. Kiesewetter et al.,
International Journal of Clinical Pharmacology, Therapy and Toxicology, 29 (1991):151-55. 15. D.J. Boullin,
The Lancet, I (1981):776. 16. J.Harenberg et al.,
Atherosclerosis, 74 (1988):247-49. 17. A.Y. Leung og S. Foster,
Encyclopedia of Common Natural Ingredients used in Food, Drugs, and Cosmetics, 2. útg. (New York: John Wiley & Sons, 1996). 18. E. L. Elnima et al.,
Pharmazie, 38 (1983):747-48. 19. Y. Tsai et al,
Planta Medica, 51 (1985):460-61. 20.
Lawrence Review of Natural Products, op. cit. 21. S. Fulder,
Cardiology in Practice, 7 (1989): 30-35. 22. C.A. Newall et al,
Herbal Medicines: A Guide for Health-Care Professionals (London: The Pharmaceutical Press, 1996). W. Sunter,
Pharmaceutical Journal, 246 (1991):722. 23. Newall, op. cit. 24. D.J. Joshi et al,
Phytotherapy Research, 1 (1987): 140-141.
© Þýðing: Hálfdan Ómar Hálfdanarson og Þuríður Þorbjarnardóttir
Frá bandaríska lyfjafræðingafélaginu.