Gúarana

Náttúruvörur

  • Guarana

Gúarana er þurrkað hlaup unnið úr fræjum sígrænna klifurrunna sem vaxa villtir á Amasónsvæðinu.
Margir útbúa heitan kaffíndrykk úr hlaupinu sem hefur sömu örvandi áhrif og gegnir sama félagslega hlutverkinu og te og kaffi í öðrum menningarsamfélögum í heiminum.

Fræðiheiti 

Paullinia cupana Kunth var. sorbilis (Mart.) Ducke og Paullinia sorbilis (L.) Mart.
Ætt: Sápuberjaætt Sapindaceae

Ensk heiti Guarana, Brazilian cocoa, guarana gum, guarana paste, zoom

Einkunn
2 = Að teknu tilliti til fjölda vel útfærðra tilrauna og mikillar notkunar virðist þetta efni vera tiltölulega áhrifaríkt og öruggt að því tilskildu að það sé notað í því magni sem mælt er með í ábendingunni (ábendingunum) í kaflanum "Gagnleg áhrif: niðurstöður rannsókna".

Hvað er gúarana?
Gúarana er þurrkað hlaup unnið úr fræjum sígrænna klifurrunna sem vaxa villtir á Amasónsvæðinu, einkum Paullinia cupana og Paullinia sorbilis. Fræin eru í appelsínugulum aldinum þessara fjölæru runna. Algengast er að fræin séu hituð og þurrkuð þegar þau hafa misst frækápuna, þá mulin og efninu síðan hrært saman við vatn svo að hlaup myndast. Hlaupið er mótað í stangir eða sívalninga og þurrkað. Upphaflega aðferðin er sú að þurrka stangirnar yfir hægum eldi og í reyk.

Notkun
Gúarana gegnir mikilvægu hlutverki í menningu og lækningum indíána sem lifa á svæðinu við Amasónfljót. Margir útbúa heitan kaffíndrykk úr hlaupinu sem hefur sömu örvandi áhrif og gegnir sama félagslega hlutverkinu og te og kaffi í öðrum menningarsamfélögum í heiminum. Fyrr á öldum var efnið jafnverðmætt í augum manna af sumum þjóðflokkum í Brasilíu og gull í huga hvítra manna. Sums staðar tíðkaðist að auka vímuáhrifin með því að bæta vínanda út í. Íbúar Suður-Ameríku eru sagðir meðhöndla þrálátan eða smitandi niðurgang, höfuðverk (þar á meðal mígreni), verki í liðum eða tíðaverki, bjúg (notað sem þvagræsilyf), sótthita, mýraköldu, hitastreitu og fleiri kvilla með gúarana. Á sumum svæðum fer það orð af gúarana að brúka megi það sem ástalyf.

Gúarana er innihaldsefni í samnefndum gosdrykk sem hefur verið þjóðardrykkur Brasilíubúa frá því á fimmta áratug 20. aldar. 1 Sumir framleiðendur í Norður-Ameríku segja í auglýsingum um jurtina að hún geti hjálpað fólki sem hyggst grenna sig og innihaldsefni hennar eru notuð í ýmsa orkudrykki.

Helstu lyfjaform
Hylki, þurrkað efni úr jurtinni, kjarni, duft, fræ, síróp, töflur, te. Gúarana er einnig bragðefni í gosdrykkjum, náttúrulyfjablöndum og í sumum matvörum.

Algeng skammtastærð
Sem örvandi efni er algeng skammtastærð 500-1000 millígrömm af þurrkaðri jurt. Gúaranaduft er tekið í 0,5 til 4 gramma skömmtum. Fylgja skal leiðbeiningum á umbúðum vara sem innihalda gúarana.

Gagnleg áhrif: niðurstöður rannsókna
Innihaldsefni þessarar jurtar voru fyrst rannsökuð í byrjun tuttugustu aldar. Í ljós hefur komið að gúarana inniheldur talsvert kaffín og er því örvandi líkt og kaffi og svart te. Kaffínstyrkurinn er að meðaltali 3,5 % af þurrvigt, sem er hærra hlutfall en í kaffibaunum (1 til 2 %) og þurrkuðu telaufi (1 til 4 %). 2 Að sjálfsögðu fer magnið af kaffíni sem berst inn í líkamann að hluta til eftir því hvernig drykkurinn er útbúinn. Því lengur sem tepoki er látinn standa í vatninu þeim mun meira dregst af kaffíni út í vatnið.

Kaffínörvunin sem fæst við töku gúaranataflna er mikil og snögg. 3 Auk kaffíns inniheldur gúarana aðra lýtinga (teóbrómín og teófyllín) sem skýrir hvers vegna gúarana hefur lengi verið talið gagnlegt til að meðhöndla mígrenihöfuðverk og draga úr matarlyst á sama hátt og margir nota kaffi og te.

Rannsakendur hafa fundið tiltölulega mikið magn af tannínum (5 til 6 %) í gúarana. Þessi herpandi efnasambönd skýra hvers vegna gúarana hefur verið notað til að ráða bót á niðurgangi; talið er að tannín stöðvi niðurgang með því að minnka bólgur í smáþörmum. Í tilraunum á kanínum kom í ljós að kjarni úr gúarana hindrar einnig samloðun blóðflagna (bæði eftir neyslu og þegar hann er gefinn í æð) sem þýðir að hugsanlegt er að þeir dragi úr líkum á myndun blóðtappa sem geta reynst hættulegir. Svipuð áhrif hafa komið fram við rannsóknir í tilraunaglösum á blóði úr mönnum. 4 Þessar niðurstöður um notkun gúarana í þessu skyni hvað menn varðar eru þó mjög óljósar.

Efnagreiningar á þvagi leiða í ljós að geðvirk efnasambönd í ilmolíum gúarana (estragól og anetól) nýtast ekki í efnaskiptum mannslíkamans og því er afar ólíklegt að gúarana hafi nokkur geðvirk áhrif á menn. 5

Gúarana virðist ekki örva heilastarfsemi eða hafa áhrif á andlega getu manna á nokkurn hátt, en því var haldið fram árið 1996 í tvíblindri, lyfleysustýrðri rannsókn þar sem áhrif langtímanotkunar gúarana í fjörtíu og fimm öldruðum sjálfboðaliðum voru könnuð. 6

Skaðleg áhrif: niðurstöður rannsókna
Gúarana virðist vera tiltölulega öruggt sé það notað í hófi. Kaffíninnihald þess getur kallað fram sömu óæskilegu aukaverkanirnar og fylgja kaffi, tei, kóladrykkjum og öðrum kaffíndrykkjum: taugaveiklun, skjálfta, svefntruflanir, hraðan eða óreglulegan hjartslátt og ólgu í maga. Börn, hjartasjúklingar og barnshafandi konur ættu að gæta hófs í neyslu drykkja, sem innihalda kaffín, eða leiða þá algerlega hjá sér. Rannsóknir á gúarana í tilraunaglösum benda til þess að jurtin hafi einhver eitrunaráhrif á erfðaefnið og geti hugsanlega valdið stökkbreytingum. Þessi niðurstaða frá 1994 krefst frekari rannsókna á áhrifum gúarana og þýðingu þeirra fyrir fólk sem tekur það. 7

Óæskilegt er að nota nokkurt lyf sem inniheldur mikið af tannínum lengi vegna hugsanlegrar en lítt þekktrar hættu á krabbameinsbreytingum. Ennfremur hafa tannín óæskileg áhrif í mannslíkamanum þar eð þau trufla prótínnýtingu, einkum þegar þau eru tekin í óhófi. 8 Hins vegar getur hættan af þessu minnkað marktækt ef gúarana er drukkið með mjólk. Gúarana í kólagosdrykkjum eykur hættu á tannskemmdum vegna tærandi áhrifa á glerung tanna samkvæmt rannsókn frá 1996. 9

Meginheimildir
Duke, J.A. CRC Handbook of Medicinal Herbs. Boca Raton, FL: CRC Press, 1985. Lawrence Review of Natural Products. St. Louis: Facts and Comparisons, maí 1991. Leung, A.Y. og S. Foster. Encyclopedia of Common Natural Ingredients Used in Food, Drugs, and Cosmetics. 2. útg. New York: Wiley & Sons, 1996. Mayall, M. Off-the-Shelf Natural Health: How to Use Herbs and Nutrients to Stay Well. New York: Bantam Books, 1995. Tyler, V.E. Herbs of Choice: The Therapeutic Use of Phytomedicinals. Binghamton, NY: Haworth Press/PharmaceuticalProducts Press, 1994. Tyler, V.E. The Honest Herbal. Binghamton, NY: Haworth Press/Pharmaceutical Products Press, 1993. Weiner, M.A. og J.A. Weiner. Herbs That Heal: Prescription for Herbal Healing. Mill Valley, CA: Quantum Books, 1994.

Tilvísanir
1. A.Y. Leung og S. Foster, Encyclopedia of Common Natural Ingredients Used in Food, Drugs, and Cosmetics. 2. útg. (New York: Wiley & Sons, 1996). 2. A. Der Mardosian og L. liberti, Natural Product Medicine: A Scientific Guide to Foods, Drugs, Cosmetics (Philadelphia, PA: George F. Stickley, 1988). 3. Lawrence Review of Natural Products. (St. Louis: Facts and Comparisons, maí 1991). 4. S.P. Bydlowski et al., Brazilian Journal of Medicine and Biological Research, 21 (3) (1988): 535-538 ; og 24 (4) (1991): 421-424. 5. H. Benoni et al., Zeitschrift für Lebensmittel-Untersuchung und Forschung, 203 (1) (1996): 95-98. 6. J.C. Galduroz og E.A. Carlini, Revista Paulista de Medicina 114 (1) (1996): 1073-1078. 7. C.A. da Fonesca et al., Mutation Research, 321 (3) (1994): 165-173. 8.J.F. Morton, Basic Life Sciences, 59 (1992): 739-765. 9. L.J. Grando et al., Caries Research, 30 (5) (1996): 373-378.

© Þýðing: Hálfdan Ómar Hálfdanarson og Þuríður Þorbjarnardóttir

Frá bandaríska lyfjafræðingafélaginu.