Freyspálmi
Freyspálmi er runnvaxin pálmategund sem vex villt í sendnum jarðvegi víða í suðaustanverðum Bandaríkjunum og á vissum svæðum við Miðjarðarhafið. Freyspálmi er talinn vinna gegn aukinni þörf til þvagláta, einkum að nóttu til, og öðrum einkennum sem tengjast stækkun og bólgu í blöðruhálskirtli.
Fræðiheiti
Serenoa repens (Bart.) Gengur einnig undir heitunum
Serenoa serrulata Hook., F,
Sabal serrulata Schult. eða
Serenoa serrulata (Michx.) Nichols.
Ætt: Pálmaætt Palmaceae (Arecaeae)
Ensk heiti Saw palmetto, American dwarf palm tree, cabbage palm, serenoa
Einkunn
1 = Áralöng notkun og víðtækar, vandaðar rannsóknir benda til þess að þessi vara sé mjög áhrifarík og örugg að því tilskildu að hún sé notuð í því magni sem mælt er með í ábendingunni (ábendingunum) sem koma fram í kaflanum "Gagnleg áhrif: niðurstöður rannsókna".
Hvað er freyspálmi?
Freyspálmi er runnvaxin pálmategund sem vex villt í sendnum jarðvegi víða í suðaustanverðum Bandaríkjunum og á vissum svæðum við Miðjarðarhafið. Hann verður um þrír metrar á hæð og einkennist af klösum langra, tvíyddra, sverðlaga laufblaða. Dökka aldinið eða berið, sem er ámóta stórt og ólífa, er tínt þegar það hefur náð fullum þroska. Það er síðan þurrkað að vissu marki og notað til lækninga.
Notkun
Snemma á tuttugustu öldinni fóru læknar í Ameríku og Evrópu að rannsaka lækningamátt freyspálma, sem frumbyggjar Ameríku höfðu nýtt til matar, til að sannreyna yfirlýsingar um að hann kæmi að haldi gegn kvillum á borð við þráláta blöðrubólgu, þvagrásarsýkingu, kynhormónaröskun, getuleysi, kynkulda og öndunarfærasjúkdóma. Freyspálmi varð einnig þekktur sem ástarlyf og átti jafnvel að auka sæðismyndun og stækka brjóst kvenna. Freyspálmi var notaður sem þvagræsilyf, en slík lyf auka þvaglát.
Mestan orðstír hefur freyspálmi þó öðlast í gegnum árin vegna þess að hann er talinn vinna gegn aukinni þörf til þvagláta, einkum að nóttu til, og öðrum einkennum sem tengjast stækkun og bólgu í blöðruhálskirtli (Blöðruhálskirtill er líffæri í karlmönnum sem er staðsett milli þvagblöðru og þvagrásar og stækkun hans getur truflað þvaglát). Þegar leið á öldina höfðu Bandaríkjamenn glatað tiltrú á notagildi freyspálma og árið 1950 var hann tekinn af þarlendri lyfjaskrá (National Formulary). 1 Grasalæknar eru nú hins vegar farnir að mæla með langvarandi notkun freyspálma í þessum tilgangi og öðrum. Heilbrigðissyfirvöld í Þýskalandi, Frakklandi og Ítalíu viðurkenna hann enn til nota gegn einkennum sem eru nú flokkuð saman sem góðkynja ofvöxtur í blöðruhálskirtli (BPH).
Helstu lyfjaform
Hylki, þykkni í dropum, seyði (úr þurrkuðum, muldum berjum), kjarni (í vatnslausn eða olíu), aldin, töflur, tinktúra.
Algeng skammtastærð
Algengur daglegur skammtur er 1-2 grömm af þurrkuðum aldinum. Einnig má taka 320 millígrömm af alkóhól- eða hexankjarna sem hefur verið staðlaður þannig að hann innihaldi 90% fitusýrur/steról. Tvö eða þrjú 600 millígramma hylki með efni úr þurrkuðum aldinum eru tekin þrisvar á dag.
Gagnleg áhrif: niðurstöður rannsókna
Niðurstöður vel útfærðra tilrauna á mönnum, sem voru að vísu ekki umfangsmiklar, gefa til kynna að tilteknir kjarnar úr freyspálmaaldinum dragi úr þeim einkennum sem fylgja stækkun blöðruhálskirtils á byrjunarstigi. Miðað við lyfleysu jók meðferð með freyspálma þvagflæði, fækkaði fjölda þvagláta, einnig á nóttunni, dró úr þvagleifum og auðveldara varð að hefja þvaglát.
2 Samkvæmt dýratilraunum virðast áhrif freyspálma ekki stafa af því að kirtillinn skreppi saman heldur af því að hann hindrar verkun karlkynhormóna (andrógena) á ýmsa vegu
3 og hefur bólguhemjandi áhrif.
4 Nýlegar niðurstöður úr rannsókn, sem var gerð á mönnum, gefa til kynna að blöðruhálskirtillinn skreppi að einhverju marki saman.
5 Áður var talið að efnið virkaði með því að örva kvenkynhormónið estrógen en horfið hefur verið frá þeim skoðunum.
6
Sérfræðingar eiga enn eftir að finna virku innihaldsefnin í freyspálma. Vitað er hins vegar að kjarni, svo sem te, sem dreginn er úr aldinunum með vatni er að öllum líkindum gagnslítill þar sem virku efnin leysast ekki í vatni. Þess vegna er nauðsynlegt að skilja þau út í alkóhóli, hexani eða öðru fituleysanlegu efni. 7
Freyspálmaaldin og -kjarnar hafa ekki áhrif á styrk testósteróns eða annarra hormóna 8 og yfirlýsingar um að þau örvi sáðfrumuframleiðslu, auki kynhvöt og -getu eru ekki aðeins óstaðfestar heldur í fullkominni andstöðu við það sem búast mætti við af efni sem hindrar verkun andrógena. 9 Aldin og kjarnar hafa ennfremur ofnæmishemjandi áhrif og örvandi eiginleika á ónæmiskerfi samkvæmt vísbendingum úr tilraunum á dýrum, 10 en óvíst er um sambærileg áhrif í mönnum.
Skaðleg áhrif: niðurstöður rannsókna
Á grundvelli áralangrar notkunar, niðurstaðna úr klínískum tilraunum og gagna um innihaldsefni freyspálma virðist jurtin vera örugg til nota í lækningaskyni. Höfuðverkur hefur verið greindur í einhverjum tilfellum en slíkt er óalgengt og aðeins einn maður hefur hætt þátttöku í klínískri rannsókn vegna aukaverkunar - magaólgu.
11 Stórir skammtar valda ef til vill niðurgangi.
12 Þörf er á vel útfærðum langtímarannsóknum til að meta af öryggi hugsanlega áhættu sem fylgir töku þessa efnis. Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna setti efnið á skrá yfir "jurtir með óskilgreint öryggi".
Hafir þú grun um að þú eigir við vanda að etja í blöðruhálskirtli, þvagrásarsýkingu eða aðra truflun í kyn- eða þvagfærum skaltu leita læknis áður en þú notar freyspálma eða aðra jurt þar sem slíkur vandi getur hugsanlega þróast í alvarlega sjúkdóma. Hafðu einnig í huga að vegna hormónaáhrifa freyspálma gæti hann haft neikvæð áhrif á lyfja- eða hormónameðferð sem þú gengst hugsanlega undir vegna blöðruhálskirtils, þannig að meðferðin verki ekki eða að óæskilegar aukaverkanir komi fram. Einnig gæti verið varhugavert af þessum sökum að taka efnið þjáist þú af hormónatengdum sjúkdómi eins og brjóstakrabbameini. 13 Af sömu ástæðu ættu barnshafandi konur og mæður með börn á brjósti ekki að taka efnið.
Meginheimildir
American Pharmaceutical Association,
Handbook of Nonprescription Drugs. 11. útg. Washington, D.C.: American Pharmaceutical Association, 1996.
Lawrence Review of Natural Products. St. Louis: Facts and Comparisons, mars 1994. Leung, A.Y. og S. Foster.
Encyclopedia of Common Natural Ingredients Used in Food, Drugs, and Cosmetics. 2. útg. New York: John Wiley & Sons, 1996. Mayell, M.
Off-the-Shelf Natural Health: How to use Herbs and Nutrients to Stay Well. New York: Bantam Books, 1995. Murray, M.T.
The Healing Power of Herbs: The Enlightened Person´s Guide to the Wonders of Medicinal Plants. Endurskoðuð 2. útg. Rocklin, CA: Prima Publishing, 1995. Newall, C.A. et al.
Herbal Medicines: A Guide for Health-Care Professionals. London: The Pharmaceutical Press, 1996. Tierra, M.
The Way of Herbs. New York: Pocket Books, 1990. Tyler. V.E.
Herbs of Choice: The Therapeutic Use of Phytomedicinals. Binghamton, NY: Haworth Press/Pharmaceutical Products Press, 1994. Tyler, V.E.
The Honest Herbal. Binghamton, NY: Haworth Press/Pharmaceutical Products Press, 1993. Weiner, M.A. og J.A. Weiner.
Herbs That Heal: Prescription for Herbal Healing. Mill Valley, CA: Quantum Books, 1994.
Tilvísanir
1. V.E. Tyler,
The Honest Herbal. (Binghamton, NY: Haworth Press/Pharmaceutical Products Press, 1993). 2. G. Chaumpault et al.,
British Journal of Clinical Pharmocology, 18 (1984): 461-462. A. Tasca et al.,
Minerva Urologica e Nefrologica, 37 (1985): 87-91. F. DiSilverio et al.,
European Urology, 21 (1992): 309. V.E. Tyler,
Herbs of Choice: Therapeutic Use of Phytomedicinals. (Binghamton, NY: Haworth Press/Pharmaceutical Products Press, 1994). 3. C.A. Newall et al.,
Herbal Medicines: A Guide for Health-Care Professionals. (London: The Pharmaceutical Press, 1996). 4. DiSilverio, sama heimild. J.O. Carreras,
Archivos Espanoles de Urologia, 40 (1987): 310-313. 5. J. Braeckman,
Current Therapeutic Research, 55 (1994): 776-785. 6. M.I. Elghamry og R. Hansel,
Experientia, 25 (1969): 828-829. 7. V.E. Tyler,
Herbs of Choice: The Therapeutic Use of Phytomedicinals. (Binghamton, NY: Haworth Press/Pharmaceutical Products Press, 1994). V.L. Begg,
Herb Quarterly, 50 (1991): 33-35. 8. C. Casarosa et al.,
Clinical Therapeutics, 10 (1988): 558-585. 9. Tyler, sama heimild. 10.
Lawrence Review of Natural Products. (St. Louis: Facts and Comparisons, mars 1994). J.P. Tarayre et al.,
Annales Pharmaceutiques Françaises. 41 (1983): 559. 11.
Lawrence Review of Natural Products, sama heimild. Carreras, sama heimild. 12.
Lawrence Review of Natural Products, sama heimild. 13. Á sama stað.
© Þýðing: Hálfdan Ómar Hálfdanarson og Þuríður Þorbjarnardóttir
Frá bandaríska lyfjafræðingafélaginu.