Fólínsýra
Fólínsýra tilheyrir B-vítamínunum og er því vatnsleysanleg eins og öll hin B-vítamínin. Hún gegnir m.a. stóru hlutverki í frumuskiptingu.
Fólínsýra tilheyrir B-vítamínunum og er því vatnsleysanleg eins og öll hin B-vítamínin. Fólínsýra var fyrst uppgötvuð árið 1941 þegar tókst að einangra hana úr spínatblöðum.
Heiti
Fólínsýra, fólat, fólasín, folic acid, B9-vítamín, M-vítamín.
Uppspretta
Grænmeti og kjöt innihalda mest af fólínsýru.
Verkun
Fólínsýra gegnir stóru hlutverki í frumuskiptingu. Í líkamanum er fólínsýru breytt í tetrahýdrófólínsýru sem er mikilvæg við myndun amínósýra og kjarnsýra (DNA og RNA). Þetta er ástæðan fyrir því að fólínsýra er svo mikilvæg á fósturskeiði þegar frumuskipting er ör. Fólínsýra er talin koma í veg fyrir galla í taugakerfi fósturs en hann getur valdið klofnum hrygg.
Notkun - verkun
- Til að koma í veg fyrir fæðingargalla og þá helst klofinn hrygg.
- Getur dregið úr líkum á því að krabbamein myndist.
- Getur minnkað líkur á hjartasjúkdómum.
- Spornar við þunglyndi (vægu/miðlungs).
- Við pirring í fótum.
- Við gigt.
Fólínsýruskortur
að er fremur sjaldgæft að skortur sé á fólínsýru ef fólk borðar fjölbreytta fæðu. Ástæður fyrir skortinum eru margvíslegar, líklegast er þó að það sé ekki nóg af nýtanlegri fólínsýru í fæðunni. Ýmis einkenni fylgja fólínsýruskorti s.s. blóðskortur, meltingartruflanir, vannæring, niðurgangur, minnkuð matarlyst, eymsli í tungu, sljóleiki, fölvi og höfuðverkur.
Þeim sem einkum er hætt við fólínsýruskorti eru áfengissjúklingar en einnig teljast þungaðar konur í áhættuhóp. Þá er fólki hætt við fólínsýruskorti sem er undir stöðugu og miklu álagi.
Ráðlagðir dagskammtar
Ungbörn < 6 mán | --- |
Ungbörn 6-11 mán | 50 mcg |
Ungbörn 12-23 mán | 60 mcg |
Börn 2-5 ára | 80 mcg |
Börn 6-9 ára | 130 mcg |
Karlar 10-13 ára | 200 mcg |
Karlar > 14 ára | 300 mcg |
Konur 10-13 ára | 200 mcg |
Konur 18-30 ára | 400 mcg |
Konur 31-60 ára* | 300 mcg |
Konur > 61 árs | 300 mcg |
Konur á meðgöngu | 500 mcg |
Konur með barn á brjósti | 500 mcg |
mcg = míkrógrömm (µg)
*Konum á barneignaraldri er ráðlagt að neyta 400 mcg á dag.
Aukaverkanir
Engar þekktar.
Milliverkanir
Ýmis lyf geta valdið skorti á fólínsýru t.d.: Getnaðarvarnarlyf, sýrubindandi lyf, ýmis sýklalyf, ýmis flogaveikilyf og metótrexat.
Frábendingar
Engar þekktar.
Heimildir
H. R. Jóhannesson, S. Ó. Ólafsson. Bætiefnabókin, Handbók um vítamín, steinefni og fæðubótarefni. 1995 Mál og menning, Reykjavík. Bls. 62-65.
www.landlaeknir.is
(Ráðlagðir dagskammtar uppfærðir í febrúar 2014 skv. leiðbeiningum frá Embætti landlæknis; Jóna Valdís Ólafsdóttir, lyfjafræðingur).