Fljótandi slökun

Næring

  • Fljotandi_slokun

Hugmyndin að Samfloti er alíslensk, byggð á reynslu þjóðar sem býr við vatnsauðlegð og stundar sund og sjóböð reglulega. Samflot hefur vakið mjög jákvæð viðbrögð hjá þeim sem það stunda, stofnendur hafa fengið mikið af ummælum frá fólki, sem lýsir góðum áhrifum fljótandi slökunar á heilsu og andlega vellíðan.

Það eru þá helst þeir sem glíma við streitusjúkdóma og svefnvandamál, bakverki, stoðkerfisvandamál og vefjagigt.  

Samflot er hugsað sem vettvangur fyrir fólk að koma saman og upplifa nærandi slökunarstund í þyngdarleysi umvafin vatninu. 
  
Hugmyndin er innblásin af baðmenningu og vatnsauðlegð þjóðarinnar og hugleiðingum um að auka valmöguleika sem miða að ró og slökun. Rannsóknir sýna að við það eitt að sleppa tökunum og leyfa sér að fljóta eiga ákveðin efnaskipti sér stað. Streituvaldandi efni, líkt og adrenalín og kortisól, víkja fyrir vellíðunarhormónunum endorfíni og beta endorfíni sem er verkjastillandi. Þægilega umlukinn vatni hægir líkaminn á huganum, heilahvelin samstillast og dýpra stig slökunar næst. Að fljóta gefur frelsi frá öllu utanaðkomandi áreiti. Það býr til aðstæður fyrir djúpslökun og jafnvægi. Við þessar aðstæður skapast rúm fyrir líkamann til að fínstilla sinn innri takt og njóta vellíðunnar sem og heilsubætandi áhrifa slökunar. Þegar þyngdaraflinu sleppir frelsast þeir hlutar líkamans sem bera mesta þungann. Þetta eru miðtaugakerfið, vöðvarnir og hryggjasúlan. Fljótandi slökun nær til okkar dýpstu vöðva sem þýðir að hún dregur úr verkjum og bólgum í liðum, baki, hálsi og flýtir fyrir bata eftir t.d. tognun. 

Fleira sem fljótandi slökun gefur af sér fyrir andlegt heilbrigði og taugakerfið: 

  • Dregur úr almennri streitu.    
  • Eykur sköpunarkraft og einbeitingu.    
  • Bætir svefn og dregur úr eða jafnvel læknar síþreytu.    
  • Kemur jafnvægi á efnaskipti líkamans.    
  • Virkar sem náttúrulega verkjastillandi. 
  • Gott fyrir þá sem þjást af gigt eða verkjum. 

Til þess að gera fólki kleift að fljóta um áhyggjulaust notum við íslenska hönnun, Float. Hönnunin samanstendur af Flothettu fyrir höfuð og Fótafloti fyrir fætur og þannig veitir það líkamanum fullkominn flotstuðning í vatni.