Ferðaveiki
Ferðaveiki (sjóveiki, bílveiki eða flugveiki) getur lagst á alla en er algengari meðal barna, unglinga og kvenna.
Það má segja að ferðaveiki komi fram þegar augun segja heilanum að maður sé kyrr á sama tíma og jafnvægisskynfærin segja heilanum að maður sé á fullri ferð. Heilinn á þá í erfiðleikum með að túlka þessi misvísandi skilaboð og það veldur því að líkaminn sýnir einkenni ferðaveiki.
Einkenni
Þreyta og höfuðverkur, litabreytingar á andliti, kaldur sviti, munnþurrkur sem svo breytist í of mikla munnvatnsframleiðslu, svimi, ógleði og uppköst. Sumir fá aukin einkenni ef þeir sjá ákveðna hluti eða finna ákveðna lykt.
Góð ráð
Vertu úthvíld(ur) fyrir ferðina. Ekki drekka áfengi fyrir eða á meðan á ferðinni stendur. Passaðu að maginn sé ekki tómur en ekki borða of mikið. Reyndu að hafa það náðugt, jafnvel að sofna ef hægt er. Ekki lesa eða slíkt heldur reyndu að hafa augun á sjóndeildarhringnum. Sittu í framsæti bílsins eða fremst í rútunni þá hefurðu betri tilfinningu fyrir hreyfingum farartækisins. Opnaðu gluggann og andaðu að þér fersku lofti eða farðu út úr rútunni þegar hún stoppar. Hafðu loftræstinguna í gangi ef þú ert í flugvél. Vertu utandyra ef þú ferðast með skipi eða vertu í miðju skipinu þar sem hreyfingin er minnst. Reyndu að láta þér ekki verða of heitt.
Lyf við ferðaveiki
Hægt er að koma í veg fyrir ferðaveiki með því að taka inn lyf sem fæst án lyfseðils í apótekum. Lyf við ferðaveiki er merkt með rauðum viðvörunarþríhyrningi. Það þýðir að það getur haft sljóvgandi áhrif og það er nauðsynlegt að hafa það í huga, t.d. ef þú þarft að stjórna ökutæki hluta leiðarinnar. Sljóvgandi áhrif geta verið nokkuð einstaklingsbundin. Þú skalt forðast að drekka áfengi samhliða lyfjum við ferðaveiki þar sem það eykur sljóvgandi áhrifin.
Postafen
Inniheldur virka efnið meklózín. Meklózín er notað við ógleði og uppköstum en einnig við ferðaveiki. Verkunartími er um 12 klukkustundir. Lyfið er tekið inn 1-2 klst. fyrir brottför og síðan á 12 klst. fresti ef þörf krefur. Það er ekki ætlað börnum yngri en 12 ára nema samkvæmt læknisráði.
Scopoderm
Scopoderm er við ferðaveiki eins og bílveiki, flugveiki eða sjóveiki. Virka efnið skópólamín dregur úr áhrifum boðefnisins asetýlkólíns í heila og ógleði og uppköst verða fátíðari. Lyfið er gefið í forðaplástri sem er límdur á húðina á bak við eyrað. Það berst síðan með jöfnum hraða úr plástrinum, gegnum húðina og inn í blóðrásina. Með þessu móti fæst stöðug þéttni lyfsins í blóði og þar veitir það vörn gegn ferðaveiki í 3 sólarhringa. Notaðan plástur má alls ekki nota aftur þegar hann hefur verið tekinn af húðinni, líka þótt hann hafi ekki verið á húðinni þessa 3 sólarhringa. Æskilegt er að þvo húðina undan plástrinum eftir að hann hefur verið fjarlægður. Plásturinn þolir að farið sé með hann í bað. Mjög mikilvægt er að þvo sér vel um hendur eftir að búið er að líma plásturinn á húðina og gæta þess vel að lyfið berist ekki í augun. Þá verður líka að brjóta saman notaðan plástur og fleygja honum þangað sem engin hætta er á að börn komist í hann því að leifar af lyfinu verða alltaf eftir í plástrinum. Fyrir fullorðna og börn eldri en 10 ára.