D-vítamín

Vítamín

  • Dvitamin

D-vítamín er fituleysanlegt vítamín. Það telst bæði vera vítamín og hormón. Húðin framleiðir D-vítamín og líkaminn geymir vítamínið einkum í lifrinni en líka í fituvef og vöðvum.

D-vítamíni er bætt í ýmsa fæðu, s.s. morgunkorn og mjólkurvörur.

Heiti
D-vítamín, calciferol, calcifediol, calcitriol

Uppspretta
Sólarljósið eykur framleiðslu D-vítamíns í húðinni. Þorskalifur, síld, lúða, lax, lýsi, egg og mjólkurafurðir.

Verkun
Stuðlar að vexti og viðhaldi beina. D-vítamín gerir líkamanum kleift að nýta kalk og fosfór til að byggja upp bein með því að auka upptöku kalks og fosfórs frá þörmum.

Notkun - verkun

  • Gefið börnum og ófrískum konum til að fyrirbyggja beinkröm (vansköpun beina). 
  • Til að hindra og lækna beinþynningu og beinkröm. 
  • Til að koma í veg fyrir kalkskort vegna vanstarfsemi skjaldkirtils. 
  • Notað í meðferð við psoriasis.


D-vítamín skortur
Skortur D-vítamíns í fullorðnum getur valdið beinþynningu, beinmeyru, vöðvarýrnun og tannskemmdum. Skortur D-vítamíns í börnum veldur beinkröm eða vansköpun beina vegna kalkskorts.

D-vítamín eitrun
Of stórir skammtar af D-vítamíni verða til þess að of mikið kalk (hypercalcaemia) verður til í blóði sem aftur leiðir til hægðatregðu, þunglyndis, slappleika og þreytu. Ef ástandið er viðvarandi geta kalsíumsölt farið út í nýru og valdið nýrnasteinum og nýrnabilun. Einkenni eitrunar eru: Ógleði, lystarleysi, höfuðverkur og niðurgangur. Alvarlegri eitrunareinkenni eru kalkmyndun í mjúkum vefjum líkamans og lífshættuleg nýrnabilun.

Ráðlagðir dagskammtar
Íslenskir ráðlagðir dagskammtar fyrir D-vítamín hafa verið hækkaðir í 15 míkrógrömm (mcg/µg) fyrir 10 ára og til 70 ára aldurs. Fyrir 71 árs og eldri hefur ráðlagður dagskammtur verið hækkaður í 20 mcg/µg. Fyrir ungbörn og börn 1-9 ára er ráðlagður dagskammtur 10 mcg/µg (skv. Embætti Landlæknis, október 2013 - Upplýsingar um D-vítamín). Almennt er fólki ráðlagt að taka þorskalýsi eða D-vítamínpillur til viðbótar við það sem fæst úr fæðunni. Sérstaklega er mikilvægt að eldra fólk taki D-vítamín til viðbótar við það sem kemur úr fæðunni. Frá 1-2 vikna aldri er ráðlagt að gefa ungbörnum D-vítamíndropa, 10 mcg/µg á dag.

Ungbörn <1 árs*  10 mcg  400 AE
Börn 1-9 ára 10 mcg  400 AE
Karlar 10-70 ára 15 mcg  600 AE
Karlar >70 ára 20 mcg  800 AE
Konur 10-70 ára 15 mcg  600 AE
Konur >70 ára 20 mcg  800 AE
Konur á meðgöngu 15 mcg  600 AE
Konur með barn á brjósti 15 mcg  600 AE

mcg = míkrógrömm (µg), AE = alþjóðlegar einingar (sama og I.U. eða I.E.)
* Frá 1-2 vikna aldri er ráðlagt að gefa ungbörnum D-vítamíndropa (10 mcg/dag).

Aukaverkanir
Engar þekktar nema við ofskömmtun.

Milliverkanir
Sum segaleysandi lyf geta aukið þörf fyrir D-vítamín. Laxerolía og paraffínolía draga úr frásogi D-vítamína.

Frábendingar
Ekki má gefa ungbörnum lýsi og AD-vítamíndropa samtímis vegna hættu á D-vítamín eitrun.


Skoðaðu D-vítamín sjálfspróf frá Prima hér


Heimildir

G. Samuelsson. Drugs of Natural Origin, a textbook of Pharmacognosy 4th revised edition. 1999 Apotekarsocieteten, Stockholm. Bls. 337-338.

H.P. Rang, M.M. Dale og J.M. Ritter. Pharmacology 4th edition. 1999 Churchill Livingstone, Edinburgh. Bls. 457-459.

R. Marcus, Agents affecting calcification and bone turnover. Goodman & Gilman´s The pharmacological basis of therapeutics 9th edition. 1996 McGraw-Hill, New York. Bls. 1529-1536, 1549.

H. R. Jóhannesson, S. Ó. Ólafsson. Bætiefnabókin, Handbók um vítamín, steinefni og fæðubótarefni. 1995 Mál og menning, Reykjavík. Bls. 19-22.

www.landlaeknir.is

Anna Elín Kjartansdóttir, Valdís Beck og Þóra Jónsdóttir, lyfjafræðingar.

(Texti uppfærður í janúar 2014 skv. nýjum upplýsingum frá Landlækni um ráðlagða dagskammta fyrir D-vítamín; Jóna Valdís Ólafsdóttir, lyfjafræðingur).