C-vítamín
C-vítamín læknar einn elsta og þekktasta sjúkóminn sem kemur af völdum næringarefnaskorts, eða skyrbjúg. Þaðan er nafnið einmitt komið, askorbínsýra (ascorbic acid), en ascorbic er komið úr latínu og merkir “án skyrbjúgs”.
C-vítamín læknar einn elsta og þekktasta sjúkóminn sem kemur af völdum næringarefnaskorts eða skyrbjúg. Þaðan er nafnið einmitt komið, askorbínsýra (ascorbic acid) en ascorbic er komið úr latínu og merkir “án skyrbjúgs”. Eins og síðari hluti nafnsins ber með sér er C-vítamín sýra, raunar veik sýra, en þó sterkari en t.d. ediksýra. Fyrr á öldum var skyrbjúgur algengur sjúkdómur meðal sæfara sem sigldu um heimsins höf og náðu fæstir heimahöfn af því að margir úr áhöfninni dóu úr skyrbjúg. Breski herinn hóf kerfisbundna rannsókn á orsök skyrbjúgs árið 1747. Þeim tókst að lækna skyrbjúg með reglulegri inntöku ávaxtasafa af sítrusætt. Samfara þessari uppgötvun dró verulega úr tíðni skyrbjúgs innan breska hersins. Árið 1907 var mönnum ljóst að flest spendýr framleiða C-vítamín, þó ekki menn og aðrir prímatar, marsvín og indverskar ávaxtaleðurblökur. Árið 1928 varð síðan vitað hvernig C-vítamín var samansett.
Heiti
C-vítamín, askorbínsýra, ascorbic acid.
Uppspretta
C-vítamín fæst úr fæðutegundum eins og sítrusávöxtum, tómötum, jarðarberjum, grænu káli og kartöflum. Einnig er mikið af C-vítamíni í appelsínu- og sítrónusafa.
Verkun
C-vítamín hjálpar til að mynda bandvef (kollagen) sem er mikilvægur fyrir vöxt æða, beina og tanna, græðslu sára og fleira. Skyrbjúgur er tengdur bandvefsmyndun. C-vítamín tekur líka þátt í að auka frásog járns sem berst inn í líkamann. Þegar líkaminn er undir álagi þarfnast hann aukins magns af C-vítamíni.
Notkun - verkun
- Vinnur gegn ákveðnum tegundum krabbameins.
- Vinnur gegn hjarta- og æðasjúkómum.
- Flýtir fyrir að sár grói.
- Eykur viðnám líkamans gegn sýkingum.
- Dregur úr ófrjósemi karla.
- Eykur frásog járns.
- C-vítamín er notað við C-vítamínskorti, sérstaklega skyrbjúg sem er fátíður hjá börnum og fullorðnum.
- Fólk hefur haft tröllatrú á afar stórum skömmtum af C-vítamíni við kvefi og sjúkdómum, s.s. krabbameini. Klínískar rannsóknir hafa ekki sýnt fram á gildi þessa.
Ráðlagðir dagskammtar
Ungbörn < 6 mán | --- |
Ungbörn 6-11 mán | 20 mg |
Ungbörn 12-23 mán | 25 mg |
Börn 2-5 ára | 30 mg |
Börn 6-9 ára | 40 mg |
Karlar 10-13 ára | 50 mg |
Karlar >14 ára | 75 mg |
Konur 10-13 ára | 50 mg |
Konur >14 ára | 75 mg |
Konur á meðgöngu | 85 mg |
Konur með barn á brjósti | 100 mg |
*mg = milligrömm
C-vítamín skortur
Afleiðing C-vítamínskorts er skyrbjúgur. Í áhættuhópi þeirra sem fá skyrbjúg er aldrað fólk sem býr eitt, áfengissjúklingar, þeir sem eru háðir lyfjum og aðrir sem borða ekki fjölbreyttan mat. Einkenni skyrbjúgs eru lausar tennur, tannholdsbólga, blóðleysi (e.t.v. vegna hlutverks C-vítamíns í myndun blóðrauða), þreyta, vöðvaslen, blæðingar, hæg græðsla sára og aukin hætta á smiti.
Reykingamenn geta þurft að neyta aukins C-vítamíns daglega vegna hraðara niðurbrots C-vítamíns í líkömum þeirra. Annað sem getur leitt til lægra C-vítamíns magns í blóði er notkun getnaðarvarnarpillu og ýmsir sjúkdómar en þó sérstaklega sýkingar og skurðaðgerðir.
Aukaverkanir
Sé of stórra skammta af C-vítamíni neytt er hætta á því að fólk fái nýrnasteina því að nýrun skilja út mun meira af niðurbrotsefnum C-vítamíns en önnur líffæri. Aðrar aukaverkanir eru aukin þvagmyndun og niðurgangur.
Milliverkanir
Helstu lyf sem geta leitt til C-vítamínskorts þegar þeirra er neytt eru: Ýmis sýklalyf, s.s. súlfalyf og nalidixínsýra, getnaðarvarnartöflur, salisýlsýruafleiður, s.s. magnýl, aspirin, asetýlsalisýlsýra. Líka indómetasín, parasetamól og barksterar, s.s. prednisólon.
Frábendingar
Engar þekktar.
Heimildir
H. R. Jóhannesson, S. Ó. Ólafsson. Bætiefnabókin, Handbók um vítamín, steinefni og fæðubótarefni. 1995 Mál og menning, Reykjavík. Bls. 62-65.
R. Marcus, A. M. Coulson. Water-soluble vitamins, the Vitamin B Complex and Ascorbic Acid. Goodman & Gilman´s The pharmacological basis of therapeutics 9th edition. 1996 McGraw-Hill, New York. Bls. 1568-1571.
www.landlaeknir.is
(Ráðlagðir dagskammtar uppfærðir í febrúar 2014 skv. leiðbeiningum frá Embætti landlæknis; Jóna Valdís Ólafsdóttir, lyfjafræðingur).