Býþéttir
Býþéttir er rauðbrúnt, harpeiskennt efni sem býflugur vinna úr brumi aspar- og barrtrjáa. Býþéttir hefur einkar þægilega angan og sótthreinsandi og staðdeyfandi eiginleikar efnisins hafa verið kunnir frá örófi alda.
Fræðiheiti
Á ekki við
Önnur heiti
Býþétti, própólis.
Ensk heiti
Propolis, bee glue, bee rue, hive dross, propolis balsam, propolis resin, propolis wax.
Einkunn
3 = Rannsóknir á virkni og öryggi þessa efnis stangast á eða þær eru ekki nægilega miklar til þess að hægt sé að draga ályktanir af niðurstöðum þeirra.
Hvað er býþéttir?
Býþéttir er rauðbrúnt, harpeiskennt efni sem býflugur vinna úr brumi aspar- og barrtrjáa. Efnið er afar flókin blanda fjölmargra náttúruefna og býflugur nota það til viðgerða í búi sínu.
Notkun
Býþéttir hefur einkar þægilega angan og sótthreinsandi og staðdeyfandi eiginleikar efnisins hafa verið kunnir frá örófi alda. Efnisins er til dæmis getið í tengslum við elstu skurðaðgerðir sem frá greinir í heimildum.
1 Öldum saman hefur býþéttir verið notaður í umbúðir um sár á fótum og hann hefur mikið verið notaður til að búa um sár hermanna í stríðum (var til dæmis mikið notaður í Búastríðinu við upphaf 20. aldar
2), sem innihaldsefni í hálstöflum og í mörgum sáputegundum og snyrtivörum. Líklega hefur býþéttir notið hvað mestra vinsælda í Evrópu vegna lækningaeiginleika sinna fyrir nokkrum öldum - hann var til að mynda á boðstólum í flestum lyfjabúðum á Englandi á sautjándu öld - en síðan féll efnið í gleymsku þar til leikmenn jafnt sem vísindamenn fengu áhuga á því á nýjan leik.
3
Á síðustu árum hafa margvíslegir læknandi eiginleikar verið eignaðir býþétti, svo sem að efnið vinni gegn bakteríum, veirum og frumdýrum sem orsaka ýmsa sjúkdóma, meðal annars berkla og vissar tegundir húðbólgu. Í sumum heimildum er mælt með því að nota býþétti gegn áblástursveiru (sem veldur munnangri), inflúensuveiru, sermiguluveiru (lifrarbólgu B) og herpesveirum fugla. Býþéttir er talinn hafa bólguhemjandi áhrif, verka gegn æxlum og vefjahrörnun og búa yfir andoxandi eiginleikum og hefur af þeim sökum verið notaður mikið gegn kvefi, skeifugarnarsári, magakvillum og margvíslegum bólgusjúkdómum, svo sem liðbólgu. Því hefur einnig verið haldið á lofti að býþéttir örvi ónæmiskerfið og það hefur enn fremur vakið áhuga á þessu efni. Tannlæknar hafa einnig sýnt því áhuga að nota býþétti gegn ýmiss konar kvillum í munni, til dæmis hvítsveppasýkingu (þrusku) og til þess að flýta gróanda eftir aðgerðir í munnholi. 4 Býþéttir er enn fremur notaður í sumar sáputegundir og snyrtivörur og er notaður til að lakka vönduðustu fiðlur.
Helstu lyfjaform
Hylki (stundum með frjókornum), plötur (svipað og tyggigúmmí), krem, duft, hálstöflur og tinktúra (jurtaveig).
Algeng skammtastærð
Fylgja skal leiðbeiningum á umbúðum þeirra vara sem eru til sölu í heilsubúðum.
Gagnleg áhrif: niðurstöður rannsókna
Flestar rannsóknaniðurstöður sem varða býþétti byggjast á tilraunum í glösum eða á smáum dýrum. Gangvirki verkunarinnar virðist afar flókið og menn skilja það ekki út í hörgul. Með nýlegum glasatilraunum hefur verið staðfest að efnið býr yfir mildum bakteríu-, sveppa- og veiruhemjandi eiginleikum, en gildi þessa nú á dögum staðlaðra efna til varnar sýkingum er óljóst. Tilraunir í glösum hafa til dæmis leitt í ljós að býþéttir býr yfir virkni gegn tilteknum tegundum baktería og sveppa.
5 Býþéttir er mjög flókið að samsetningu - um tuttugu og fimm mismunandi efnasambönd hafa verið prófuð - og af þeim sökum er vandkvæðum bundið að koma við einföldum rannsóknum til að kanna hvort verkunin er á einhvern hátt hliðstæð verkun hefðbundinna sýklalyfja.
6 Klínískar rannsóknir sem greint hefur verið frá í Mið-Evrópu benda til þess að efnið örvi gróanda sára og verki gegn sýkingu af völdum sveppa og baktería.
7 Virkustu innihaldsefnin virðast vera efnasambönd úr flokki flavonóíða.
Rannsakendur sem hafa gert glasatilraunir greina enn fremur frá virkni gegn áblástursveiru af gerð I (herpes simplex I), inflúensuveiru, sermiguluveiru (lifrarbólgu B), herpesveirum fugla, mænusóttarveiru og fleiri veirum. 8 Talsmenn býþéttis halda því fram að efnið örvi ónæmiskerfið með því að efla þol líkamans gegn sýkingu, en ekki finnast haldgóðar sannanir fyrir þessu í vísindalegum heimildum.
Sumir rannsakendur hafa talið býþétti verka gegn bólgu og æxlisvexti og telja efnið hafa andoxandi eiginleika. Blöndur af efninu komu vel út í rannsóknum á virkni þess gegn bólgum og reyndust til dæmis verka á tilteknar tegundir af liðbólgum sem höfðu verið framkallaðar í rottum. 9 Allmargir rannsakendur hafa greint frá áhugaverðum æxlishemjandi eiginleikum sem hafa komið fram við tilraunir í glösum og tengja þessa eiginleika við innihaldsefni sem kallast kaffínsýrufenetýlestri. 10 Kjarni sem er dreginn út með alkóhóli virðist hafa milda andoxandi eiginleika og er því talinn geta stuðlað að því að eyða eða fjarlægja eitruð efnasambönd sem myndast við efnaskipti frumna og eru talin eiga þátt í myndun krabbameinsfrumna. 11 Á þennan eiginleika reynir í tilraunum þar sem músum er gefinn kjarni úr býþétti og þær eru síðan látnar verða fyrir mikilli geislun. Í ljós hefur komið að slíkar mýs lifðu að jafnaði lengur en annar hópur músa sem varð fyrir jafn mikilli geislun, en fékk ekki býþéttiskjarna. 12 Frekari rannsókna er þó þörf áður en fullyrt verður með vissu að einhver þessara eiginleika geti komið mönnum til góða á sviði lækninga.
Hópur rannsakenda komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri sannað að býþéttir byggi yfir eiginleikum sem slægju á sótthita eða verkuðu hamlandi á ömbur. 13
Skaðleg áhrif: niðurstöður rannsókna
Sökum þess að engar vandaðar, klínískar rannsóknir hafa farið fram á virkni býþéttis hjá mönnum er ógerningur að kveða upp úr um það hvers konar skaðleg áhrif efnið gæti haft. Efnið hefur valdið húðbólgu að því er kemur fram í frásögnum fólks, sem hefur notað húðsnyrtivörur
14 sem í er býþéttir, og það hefur einnig komið fram hjá öðrum sem vinna við efnið.
15 Einnig hefur verið getið um ofnæmisviðbrögð í munni, sem einkennast af bólgu og sárum, hjá þeim sem hafa notað munnsogstöflur sem innihalda efni úr býþétti.
16 Í heild er þó líklegt að aukaverkanir séu aðeins minniháttar, en frekari rannsókna er þörf á því sviði.
Meginheimildir
Castleman, M.
The Healing Herbs: The Ultimate Guide to the Curative Power of Nature´s Medicines. New York: Bantam Books, 1995.
Lawrence Review of Natural Products. St. Louis: Facts and Comparisons, febrúar 1996. Tyler, V.E.
The Honest Herbal. Binghamton, NY: Haworth Press/Pharmaceutical Products Press, 1993.
Tilvitnanir
1. W.M. Thomson,
Medical Journal of Australia, 153(11-12) (1990): 654. 2. Sama heimild. 3. Tyler, V.E.
The Honest Herbal. Binghamton, NY: Haworth Press/Pharmaceutical Products Press, 1993. 4. O. Magro-Fiho og A.C. Perri de Carvalho,
Journal of the Nihon University School of Dentistry, 36(2) (1994): 102-111. 5. J.W. Dobrowski et al.,
Journal of Ethnopharmacology, 35 (1991): 77-82. 6. N.B. Takaisi-Kikuni og H. Schilcher,
Planta Medica, 60 (1994): 222-227. 7.
Lawrence Review of Natural Products. St. Louis: Facts and Comparisons, febrúar 1996. 8. M. Amoros et al.,
Journal of Natural Products, 57(5) (1994): 644-647. 9. Dobrowski, sama heimild. 10.
Lawrence Review of Natural Products. Sama heimild. 11. Scheller et al.,
International Journal of Radiation Biology, 57(3) (1990): 461.
Lawrence Review of Natural Products. Sama heimild. 12. Scheller et al.,
Zeitschrift für Naturforschung, 44(11-12) (1989):1049. 13. Dobrowski, sama heimild. 14. C. Pincelli et al.,
Contact Dermatitis, 11(1) (1984)49. 15.
Lawrence Review of Natural Products. Sama heimild. 16. K.D. Hay og D.E. Greig,
Oral Surgery Oral Medicine Oral Pathology, 70(5) (1990): 584.
© Þýðing: Hálfdan Ómar Hálfdanarson og Þuríður Þorbjarnardóttir
Frá bandaríska lyfjafræðingafélaginu.